Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1976/ Vestmannaeyjaskip

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Friðrik Óskarsson, forstjóri:


Vestmannaeyjaskip

Nýtt, sérsmíðað til reglubundinna ferða milli lands og Eyja.

Friðrik Óskarsson, forstj. Herjólfs hf.

Þann 17. ágúst 1974 var boðað til fundar í Akógeshúsinu í Vestmannaeyjum í því skyni að stofna hlutafélag. Tilgangur félagsins skyldi vera að láta byggja sérsmíðað skip til reglubundinna áætlunarferða milli Vestmannaeyja og lands, þó aðallega milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar. Skipinu er jöfnum höndum ætlað að annast flutning á vörum, bifreiðum og farþegum.

Á þessum fundi var kosin stjórn til bráðabirgða. Þeirri stjórn var falið:

1. Að láta ganga frá skrásetningu félagsins, þannig að það yrði samkvæmt firmaskrá lögformlegur aðili.

2. Að taka upp viðræður við Viðlagasjóð, um að smíði fyrirhugaðs Vestmannaeyjaskips yrði boðin út samkvæmt fyrirliggjandi teikningum og útboðslýsingu

3. Að eiga viðræður við stjórnvöld um að ríkissjóður leggi fram hlutafé að því marki, sem samningar næðust um, þó ekki meirihlutaaðild.

Við stofnun hlutafélagsins lágu fyrir hlutafjárloforð frá 433 aðilum og er Vestmannaeyjakaupstaður stærsti aðilinn. Nafn hlutafélagsins var ákveðið „Herjólfur".

Í þessa bráðabirgðastjórn voru kosnir eftirfarandi: Guðlaugur Gíslason, alþingism.; Garðar Sigurðsson, alþm.; Magnús H. Magnússon, bæjarstjóri og Sigurgeir Kristjánsson, forstjóri; en hann var skipaður af samgöngumálaráðherra.

Stjórnin hóf þegar undirbúning og bauð út verkið. Útboðsgögn voru send 44 aðilum í 7 löndum, og skilafrestur var til 25. nóv. 1974. Tilboð komu frá 7 skipasmíðastöðvum erlendum í 4 löndum, þ. e. í Noregi, Þýskalandi, Spáni og Japan. Hófust þegar miklar viðræður og bréfaskipti, og varð endirinn sá, að tekið var tilboði frá Noregi; skipasmíðastöð að nafni Sterkoder Mek. í Kristjánssundi.

Þegar samningar höfðu tekist við Sterkoder Mek. skipasmíðastöðina, var boðað til aðalfundar í Félagsheimilinu við Heiðarveg þann 12. júní 1975. Á þeim fundi gerði formaður stjórnar, Guðlaugur Gíslason alþm. grein fyrir störfum stjórnar og þeim samningaviðræðum er stjórnin hefði átt, við hin ýmsu fyrirtæki, og þó sérstaklega við skipasmíðastöðina Sterkoder Mek.

Teikning af væntanlegu Vestmannaeyjaskipi lá einnig fyrir fundinum.
Kosin var 5 manna aðalstjórn og 3 manna varastjórn. Í aðalstjórn eru: Guðlaugur Gíslason alþm., sem er formaður stjórnar, Garðar Sigurðsson, alþingism., Magnús H. Magnússon, bæjarstjóri, Sigurgeir Kristjánsson, forstjóri og Stefán Runólfsson, forstjóri. Í varastjórn eru: Heiðmundur Sigurmundsson, heildsali, Jóhann Friðfinnsson, forstjóri og Sigurður Gunnarsson, skipstjóri. Endurskoðendur voru kosnir:Jóhann P. Andersen og Arnar Sigurmundsson.

Ég hef nú reynt að gera grein fyrir því helsta við stofnun félagsins. Mun ég nú reyna að lýsa skipinu, sem nú er í smíðum, eins og mér er unnt.

Vestmannaeyjaskipið er enn í smíðum.

Skipið er 60 metrar á lengd og 12 m. breitt. Lest þess skiptist í tvennt, þ. e. í efra og neðra dekk, og er lyfta milli lestanna, sem lyftir allt að 5 tonnum. Bifreiðum verður ekið inn í skipið að aftan, og er hæðin á innakstursopinu 4,40 metrar og breiddin 5,60 m. Skipið mun geta flutt 75 tonn af vörum og yfir 20 bifreiðar í ferð, og 40 - 50 fólksbifreiðar á þeim dögum, sem ekki eru vöruflutningar. Á skipinu er einnig krani, og er lyftingargeta hans 5 tonn.

Í skipinu eru mjög fullkomnir salir, — efri og neðri salur, — sem taka í sæti samtals um 90 manns. Klefarými er fyrir 34 manns. „Kaffitería" er um borð og getur foik fengið sér ýmiskonar góðgæti þar. Aðalvél skipsins er Wichmann, 2400 hestöfl við 330 snúninga. Ljósavélar eru af Mannheim gerð. Öll siglingatæki verða af fullkomnustu gerðum. T. d. tveir radarar frá Decca R. M. 926, SAILOR talstöðvar, sjálfstýring er af ANSCHTJTZ gerð og dýptarmælar frá Símrad. Allt í sambandi við veltitankana í skipinu verður sjálfvirkt af TAYO gerð. Líklega verður um 13 manna áhöfn á skipinu. Skipstjóri hefur verið ráðinn Jón Eyjólfsson, sem lengi hefur verið stýrimaður á Herjólfi, 1. vélstjóri verður Steingrímur Haraldsson, sem ættaður er úr Vestmannaeyjum.

Ég hef nú rakið það helsta í sambandi við skipið. Ég vona, að við Vestmannaeyingar notfærum okkur sem allra mest og best þessa fyrirhuguðu samgöngubót, og styrkjum með því okkar eigið skipafélag.