Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1976/Sigurður Stefánsson, formaður Sjómannafélagsins Jötuns í 25 ár

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Sigurður Stefánsson
FORMAÐUR SJÓMANNAFÉLAGSINS JÖTUNS í 25 ÁR.

Sigurður Stefánsson var fæddur 26. janúar 1915 að Búðum við Fáskrúðsfjörð. Foreldrar hans voru Ólafía Björg Jónsdóttir húsfreyja og Stefán Júlíus Jónsson sjómaður.

Sigurður andaðist 23. september 1967. Hann var, ásamt konu sinni, á sumarleyfisferð suður við Svartahaf, í hinni frægu borg Jalta, er hann veiktist snögglega og var brátt allur fyrir aldur fram.

Milli þessara ár- og dagsetninga er rúm hálf öld og mikil saga, Saga Sigurðar Stefánssonar, saga gjörbreytinga á atvinnuháttum Íslendinga og lífskjörum vinnandi stétta til sjós og lands. Sigurður kom mjög við sögu þessara umbrotatíma og varð einn brautryðjenda í sókn sjómannastéttarinnar til batnandi lífskjara. Er því ekki að ófyrirsynju, að ársrit sjómanna í Vestmannaeyjum geymi æviágrip hans. —

Sigurður ólst upp með móður sinni og stjúpföður, Guðjóni Bjarnasyni verkamanni á Fáskrúðsfirði. Heimilið var mannmargt og efnahagur þröngur. Sumarvertíðin var aðalbjargræðistíminn. Sigurður mun vart hafa verið af barnsaldri, er hann fór að létta undir við sjávarverk, varð fljótt hraðhentur að beita línuna, enda urðu margir austfirskir strákar afbragðs beitingamenn. —

Fljótt kom í ljós að Sigurður var greindur vel og bókhneigður. En skólagangan varð ekki löng, einungis barnaskólanám nokkra mánuði samanlagt. En hann las mikið og varð maður vel sjálfmenntaður. —
Sigurður fór í atvinnuleit til Vestmannaeyja — í verið — sextán ára gamall. Það var árið 1932, eitt versta ár kreppunnar 1930 - 40. Fiskverð fór niður úr öllu valdi, atvinnuleysi, lágt kaup. Þetta var ár hinna hörðustu átaka í sögu verkalýðshreyfingarinnar á íslandi.

Þrjú dæmi í þá veru: Í janúar var formaður Verkalýðsfélags Keflavíkur tekinn með valdi um nótt og fluttur til Reykjavíkur.
Í nóvember það ár var harðvítugur bardagi milli lögreglu og mannfjölda í Reykjavík, er bæjarstjórn samþykkti að lækka kaup í atvinnubótavinnu, en hvarf þó frá þeirri samþykkt og lét vinna fyrir óbreytt kaup.

Í Eyjum var háð hörð deila milli Sjómannafélags Vestmannaeyja og Útvegsbændafélagsins, sérílagi um hlutaráðningu, sem hinir síðarnefndu vildu koma á vegna þrenginga útgerðarinnar. Krafa sjómanna var hins vegar 275 kr. mánaðarkaup háseta og 15 kr. fyrir hvern helgidagsróður. Miðað við þriggja mánaða úthald hefði vertíðarkaup sjómanna orðið rúmar 1000 krónur og landmanna 930 krónur. —
Fylkingum hvorutveggja laust saman á miðri Vestmannabraut og voru greiddir nokkrir pústrar, en friðsamir menn úr liði beggja gengu á milli og fóru menn hver til síns heima eftir nokkurt orðaskak. En hlutaskiptin komust á. —

Aðkomumenn flykktust að, óráðnir margir, og áttu sumir varla vísan næturstað, hvað þá vinnu. Þóttust góðu bættir að ráða sig upp á fæði og húsaskjól, þó allt væri í óvissu um verkalaun um lok, enda fóru þá margir héðan með létta vasa.
Sigurður hefur sjálfur lýst því, er hann kom til Eyja í fyrsta sinn (Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1957):

„Þegar höfundur þessa greinarkorns skolaði hér á land, 16 ára gömlum, óráðnum og ókunnugum, var aðkoman allt annað en glæsileg, alls staðar virtist fullráðið. Ef á loft komst orðasveimur um það, að á þennan bátinn eða hinn vantaði ef til vill mann, hafði viðkomandi formaður ekki frið næstu daga fyrir óráðnum mönnum, sem þrotlaust gengu um og föluðu skiprúm. Þegar svo greinarhöfundur loks eftir 10 daga leit að plássi réðst beitumaður á Litla-Glað hjá Magga á Hrafnabjörgum, var það talið sérstakt happ, sem helst mætti þakka þeim munnmælum, að Austfirðingar væru fæddir með línukrókinn í annarri hendinni og beituna í hinni.“

Eftir þessa vertíð gat Sigurður valið um skiprúm. Var hann síðan með ýmsum formönnum, en lengst hinum kunna aflamanni Guðna Grímssyni á m.b. Maggý, alls 9 vertíðir. En sjómaður á vélbátum var Sigurður frá 1932 til 1947, ýmist sem háseti eða stýrimaður. Hann tók hið minna fiskimannapróf í ársbyrjun 1943 með ágætum vitnisburði, en það veitti rétt til skipstjórnar á fiskiskipi að 75 rúmlestum.
Sigurður fékk orð á sig sem sérlega lipur sjómaður og úrtöku beitingamaður.

Starfsmenn Ingólfs Theodórssonar netagerðarmeistara á Siglufirði 1944. Fremri röð frá vinstri: Ingi Stefánsson, Brekastíg 37 (látinn); Þorsteinn Stefánsson (fórst í flugslysi 1951); Þórður Sveinsson frá Varmadal (látinn); Sigurður Stefánsson, Arnmundur Þorbjörnsson frá Reynifelli, Sigurður Guðmundsson frá Eiðum. - Aftari röð frá vinstri: Halldór Einarsson frá Staðarfelli (látinn); Ólafur Árnason frá Odda, Ingólfur Theodórsson netagerðarmeistari, Sveinbjörn Guðmundsson, Brekastíg 20; Finnbogi Ólafsson, Kirkjuhól. Þeir bjuggu allir í Vestmannaeyjabragganum svokallaða (sem Siglfirðingar nefndu Pólstjörnubrakkann).

Þá var Sigurður á Eyjatogurunum 1947 — 1953, en árið 1954 varð hann skrifstofustjóri verkalýðsfélaganna í Eyjum til 1959, en fór þó á síldveiðar á sumrin sum árin. Árið 1959 réðst Sigurður starfsmaður í Netagerð Ingólfs og vann þar síðan lengst af, en fór stundum á síldveiðar.

Vel fór á með Sigurði og starfsfélögum hans. Hann var verkmaður góður og hress í bragði; kunni þá list, sem ekki er öllum gefin, að sjá mannlífið í skoplegu Ijósi ef svo bar undir. Hann kunni vel að segja kímnisögur, en var ekki gráglettinn.

Mér er sagt, að Sigurði hafi verið lítt gefið um dægurþras í þröngum hóp vinnufélaga og talið það fremur spilla góðum félagsanda, en enga sál frelsa pólitískt, hvorki til hægri né vinstri. En hann var málafylgjumaður á opnum vettvangi, í blöðum og þartil ætluðum mannfundum. —

Þá er Sigurður kom til Eyja fyrsta sinn, ungur og óráðinn í meir en einum skilningi, hefði víst fáa órað fyrir því, að þessi austfirski unglingur yrði kallaður til verulegra mannaforráða í þessu plássi, þar sem umsvifamestu atvinnurekendurnir höfðu löngum ráðið lögum og lofum.
En samt fór svo. Nýir tímar, nýir menn. —

Sigurður gekk í Sjómannafélagið Jötunn. Honum varð fljótt létt um að setja fram skoðanir sínar, hvort sem var í ræðu eða rituðu máli og náði góðu valdi á íslensku. En hann var fremur hlédrægur í þann tíð, og hefur vart ætlað sér stærri hlut en að vera starfafús og óbreyttur liðsmaður.

Í félagsskap sjómanna í Eyjum hafði gengið á ýmsu. Sjómannafélag Vestmannaeyja var stofnað árið 1926. Fyrsti formaður þess var Árni Þórarinsson, síðar hafnsögumaður.

Fyrsti fundur nýkjörinnar Alþýðusambandsstjórnar 1954. Sitjandi frá vinstri: Alfreð Guðnason Eskifirðim Sigríður Hannesdóttir Reykjavík, Hannibal Valdimarsson forseti A.S.I.; Eðvarp Sigurðsson Reykjavík, Páll Sólmundsson, Bolungarvík, Ágúst Vigfússon Bolungarvík, Ásbjörn Karlsson Djúpavogi. - Standandi frá vinstri: Sigurður Stefánsson, Björn Jónsson (núverandi forseti ASÍ), Magnús Bjarnason Þorlákshöfn, Kristján Guðmundsson Reykjavík, Jón Friðbjörnsson Sauðárkróki, Ásgeir Guðmundsson Reykjavík, Snorri Jónsson Reykjavík, Pétur Óskarsson Hafnarfiði.

Forystumenn S. V. voru er fram liðu stundir ekki að skapi stjórnar Alþýðusambands íslands. Var Sjómannafélagið Jötunn stofnað árið 1934.

Árið 1943 var Sigurður Stefánsson kosinn formaður Jötuns. Þar var ekki tjaldað til einnar nætur, því Sigurður var formaður félagsins til æviloka, í 25 ár. Kom fljótt í ljós, að hann var vel til forystu fallinn í félagi sjómanna, enda einn af þeim. Hann var hinn færasti samningamaður; hélt fast á málum og öruggur, en laginn og tillögugóður. Þessir eiginleikar komu sér vel, því oft var samningagerð erfið.

Sigurður var maður kapplyndur, en fór þó með forsjá í hverju máli, og því öruggari, að kunnir menn segja, er nær dró úrslitum. Viðsemjendur hafa sagt mér, að orðum Sigurðar hafi jafnan mátt treysta. Væri búið að taka ákvörðun með samþykki beggja aðila, þá skyldu orð standa.

Sigurður stóð vitaskuld ekki einn á verðinum fyrir félag sitt. Virkir félagar veittu honum örugga fylgd þá er í odda skarst. —

Þess munu hafa verið dæmi, að sjómenn hér sömdu um betri kjör en aðrir náðu, en nutu þó á vissan hátt góðs af. Í ársbyrjun 1961 var langt verkfall og þá einkum deilt um skiptakjör. Að því loknu ávannst meðal annars, að samningar voru skýrari og einfaldari en áður hafði verið. Nú mun vart á færi annarra en sérþjálfaðra manna að skilja samninga.

Sigurður lét fleira til sín taka en kjarabaráttu og launamál sjómanna og verkafólks í landi. Jafn glöggskyggn maður sá, að nauðsyn bar til að efla menntun sjómannastéttarinnar. Of lengi hafði verkleg og bókleg menntun stéttarinnar verið vanmetin. Um þetta efni ritaði Sigurður athyglisverðar greinar í Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1954 og 1957.

Fyrri greinin heitir Skólamál sjómanna. Þar greinir fyrst frá því, að með lögum frá 1945 hafi verið lögð niður námskeið þau, er veittu réttindi til skipstjórnar á allt að 75 rúmlesta fiskiskipum. í stað þess þurfi að ljúka prófi frá stýrimannaskóla að loknu 1 ½ vetrar námi.

Þá bendir Sigurður á, að skipin stækki, en aukin skipstjórnarréttindi fylgi ekki eftir að sama skapi. Þetta sé vandamál í Vestmannaeyjum.

Í stað þess að menntun sjómanna haldist í hendur við aukningu flotans þá sé gripið til þess að auka undanþágurnar, en með því hafi málið tekið þveröfuga stefnu við upphaflegan tilgang sinn, þ. e. aukna menntun sjómanna. Það sé spor afturábak að minnka kröfurnar og taka upp námskeið að nýju.

Aðalkrafa sjómannastéttarinnar á að vera sú, að sjómannaskólunum verði fjölgað, og verði að minnsta kosti tveir úti á landi, og þá annar þeirra að sjálfsögðu í Eyjum, og kennt þar skipstjóra- og vélstjóraefnum.

En nám er dýrt. Því sé nauðsynlegt að stofna námslánasjóð sjómanna. Á fjárlögum 1954 var 16 milljónum kr. varið til kennslumála, en aðeins 3,7% af því fé til menntunar öllum skipstjóra- og stýrimannaefnum flotans.

Fjórir bæjarfulltrúar: Magnús H. Magnússon, Guðlaugur Gíslason, Jóhann Friðfinnsson og Sigurður Stefánsson, er fóru til Kaupmannahafnar í maí 1966 til þess að gera drög að samningi við fyrirtækið NKT um vatnslögn milli lands og Eyja. Á myndinni sjást einnig fulltrúar frá NKT.

Um þetta segir greinarhöfundur: „Vitna ekki þessar tölur nægilega skýrt um það, að sjómannafræðslunni sé ekki sá sómi sýndur, sem vænta mætti, miðað við fjárhagslega þýðingu stéttarinnar.“

Stýrimannaskólinn í Eyjum var stofnaður, sem kunnugt er, árið 1964 og Vélskólinn 1968. Sigurður var í stjórnarnefnd stýrimannaskólans frá stofnun.

Í grein sinni í Sjómannadagsblaðinu 1957 ræðir Sigurður annan þátt sjómannafræðslu, þjálfun og kennslu til handa sjómannaefnum almennt. Hann nefnir grein sína: Flotinn stækkar — sjómönnum fækkar.

Þar segir meðal annars: „Ef litið er til baka, þó ekki sé lengra en 15-20 ár aftur í tímann, þá minnast menn þess, að sjómennskan var eftirsótt atvinna. Fjöldi manns var um hvert sæmilegt pláss, sem losnaði, og langir biðlistar um hvert togarapláss.“

Þeir erfiðleikar, sem séu á því að fá menn á sjó, sé ekki einasta áhyggjuefni þeirra, sem vantar menn á bátana, „heldur þjóðhagslegt vandamál, sem á einhvern hátt verður að leysa, ef framleiðsla okkar og útflutningur á ekki beinlínis að dragast saman og svo og svo mikið af bátum, sérstaklega í hinum stærri verstöðvum, eiga ekki að vera bundnir í höfn allt árið.“

Flotinn stækkar, bærinn stækkar, en sjómönnum fækkar. Vinnslustöðvar í landi soga til sín vinnuaflið.
Sjómannsstörfin þurfa að vera vel launuð svo þau þyki eftirsóknarverð. Í framhaldi af þessu skrifar Sigurður:

„En fleira þarf að koma til, og þá er eflaust brýnasta verkefnið að ala upp sjómannsefnin . . . Þetta er hægt. Í fyrsta lagi með því að gera út báta til handfæraveiða, mannaða 14—15 strákum . . . í öðru lagi væri mjög nauðsynlegt að gefa unglingum kost á því að vera á síldarbátum yfir sumarið, t. d. með því að tveir drengir á bát hefðu saman einn hlut.“

Loks nefnir Sigurður í grein sinni, að athyglisverð tillaga hefði komið fram um útgerð skólaskips, þar sem unglingum væri veitt verkleg fræðsla í sjómannastörfum.

Það hefur verið ærið starf að vera formaður sjómannafélags í útgerðarbæ eins og Vestmannaeyjum; ekki síst þegar haft er í huga, að það var að mestum hluta unnið í stopulum frístundum, nema ef til vill þau fáu ár, sem Sigurður var starfsmaður verkalýðsfélaganna í bænum. Á forsvarsmönnum launþegasamtakanna brotna margar öldur, og slík störf eru lýjandi er til lengdar lætur, ekki síður en sjálft brauðstritið, og oft litt þakkað. Og á þessum svokölluðu velferðartímum er jafnan hætt við, að ýmsir gerist værukærir, en vilji láta formanninn standa í eldinum fyrir sig.

Þá hlóðust á Sigurð ýmis trúnaðarstörf önnur. Hann var í stjórn Alþýðusambands íslands frá 1942-1948 og frá 1950 og síðan til æviloka. Ennfremur var hann fulltrúi Jötuns á öllum þingum A. S. Í. frá 1944, nema árið 1948.

Félagsfáni Sjómannafélagsins Jötuns, ásamt núverandi formanni félagsins, Elíasi Björnssyni, gefinn til minningar um Sigurð Stefánsson. Gefendur: Ragna Vilhjálmsdóttir, Hrafnhildur Sigurðardóttir og Garðar Björgvinsson. (Ljósm.: Guðm. Sigfúss.)

Sigurður átti sæti í samninganefndum á vegum heildarsamtakanna eftir að samningagerð fór að mestu fram í Reykjavík í „hinum stóru samflotum“. Hann var fulltrúi A. S. Í. á norrænni fiskimálaráðstefnu, sem haldin var vorið 1964.

Árið 1959 var Sigurður skipaður til að vera í sjó- og verslunardómi í Vestmannaeyjum. —

Eftir 1940 varð Sigurður einn af framámönnum Sósíalistaflokksins og síðar Alþýðubandalagsins. Var starfssvið hans einkum á sviði verkalýðs- og bæjarmála. Hann var bæjarfulltrúi 1946—1950 og aftur 1954 og síðan, alls 17 ár. Hann átti sæti í bæjarráði frá 1954 og mörgum nefndum á vegum bæjarstjórnar.

Í bæjarstjórn tók Sigurður afstöðu eftir eðli mála, gat verið gagnrýninn án tæpitungu, ef svo bar undir, en gerði lítið að því að finna sér til pólitísk ágreiningsefni, enda furðuleg árátta að vilja stjórna bæjarfélagi eftir flokkspólitísku ritúali.

Um störf Sigurðar sem bæjarstjórnarmanns tilfæri ég nokkur orð tveggja núverandi bæjarfulltrúa. Magnús H. Magnússon, fyrrv. bæjarstjóri í Brautinni 1967: „Með Sigurði er fallinn frá einn traustasti og reyndasti bæjarstjórnarmaður þessa byggðarlags.

Sigurður var mjög fljótur að átta sig á aðalatriðum hvers máls og gott var að njóta ráðlegginga hans. Svo mikil sem reynsla hans var í verkalýðs- og félagsmálum. Einn af mörgum kostum Sigurðar var óbrigðul hreinskilni hans.“

Sigurgeir Kristjánsson, fyrrv. forseti bæjarstjórnar, mælti svo m. a. á fundi í bæjarstjórn 3. okt. 1967:
„Með Sigurði er horfinn af sjónarsviðinu einn af forystumönnum bæjarfélagsins, maður sem barðist fyrir sínum hugsjónamálum og var heill og óskiptur í hverju máli, málafylgjumaður og stundum harðskeyttur, en ætíð hreinskiptinn. Hann var mikill samningamaður, enda reyndi oft á það í verkalýðsátökum, og einnig góður í samstarfi, og vil ég persónulega þakka honum fyrir það samstarf, sem við áttum saman. Ég reyndi hann að drengskap og velvilja í þágu þeirra málefna, sem honum var trúað fyrir.“

Sigurður Stefánsson kvæntist 9. okt. 1943 Rögnu Vilhjálmsdóttur, gullsmiðs Brandssonar. Þau áttu eina dóttur barna, Hrafnhildi, gift Garðari Björgvinssyni trésmíðameistara.

Það munu ekki innantóm orð, að sambúð þeirra hjóna hafi verið farsæl, svo samhent voru þau í amstri hins daglega lífs. Hús þeirra var opið gestum og gangandi, öllum veittur góður beini, og góð ráð og uppörvun, ef þess var þörf.

Sigurður var manna reifastur á gleðifundum og þurfti enga örvun að að sækja til Bakkusar. Hann var bindindismaður og tók allmikinn þátt í starfi templara fyrr á árum.

„Þegar ysinn var úti“ þótti Sigurði gott að grípa í bók. Hann kom sér upp völdu bókasafni og meðal annars ágætu ljóðasafni. Halldór Laxness og Þórbergur Þórðarson voru eftirlætishöfundar hans, en marga aðra kunni hann vel að meta.

Haraldur Guðnason

Flotinn í höfn