Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1975/Fiskikóngur Vestmannaeyja 1975
Á gullbrúðkaupsdegi hjónanna á Vesturhúsum, Jórunnar Hannesdóttur og Magnúsar Guðmundssonar, hinn 23. maí 1953, ákváðu ættingjar og afkomendur þeirra hjóna og Hannesar lóðs á Miðhúsum að minnast þeirra og sjóhetjunnar Hannesar lóðs með því að heiðra sjómannastéttina hér í bæ. Þau hjón voru þá bæði á lífi. Hannes og Magnús voru miklír sjósóknarar og þekktir menn í sögu Vestmannaeyja.
Af þessu tilefni var ákveðið að heiðra skipstjórann á aflahæsta vertíðarbátnum, sem réri frá Eyjum. Heiðursverðlaunin eru sem kunnugt er farandgripur. „Fiskikóngur Vestmannaeyja“, sem er víkingaskip úr silfri. Hæfa þau verðlaun vel sjóvíkingum okkar. Sigurjón Óskarsson skipstjóri á Þórunni Sveinsdóttur VE 401 hlýtur nú þessi verðlaun í annað skipti. Hann heldur vel upp á þrítugsafmælið, en hann varð þrítugur hinn 3. maí sl.
Á sólgylltum vordegi, nú á síðustu dögum maí, er sólin skein á sundin eins og þar segir, Esja og Hengill í blámóðu fjarlægðar, var gengið á fund aflakóngsins. Austan heiðar voru Eyjarnar okkar. Í prentsmiðju biðu setjarar og prentarar Sjómannadagsblaðsins.
Þeir, sem eru í útgerð þurfa ekki að kvarta undan tilbreytingarleysi. Verkefnin eru alltaf fyrir hendi og nóg að starfa og horfa í.
Þórunn Sveinsdóttir lá við bryggju í vesturhöfn Reykjavíkur. Menn unnu við að setja um borð heljarmikla vindu fyrir vörpuna; aftan við stýrishúsið. Sigurjón, Óskar faðir hans, frændinn Matthías vélstjóri, eru að vinna um borð. Á bryggjunni er 7-10 ára hnokki, yngsti sonur Óskars. Hann veit í hvaða erindagjörðum ég er: Að ná tali af fiskikóngi Eyjanna á liðinni vertíð.
- Heyrðu manni, taktu mynd af mér með Sigurjóni. Ég ætla að verða aflakóngur eins og hann!
Í öllu því basli og barlómi sem nú herjar íslenzka útgerð var hressandi að koma um borð í skip þessara bjartsýnu sjómanna og spjalla við þá:
- Útdráttur var 28. janúar.
- Við byrjuðum strax á netum.
- Lögðum austur í bugtum - út af Skaftárósum. Í útdrættinum var aflinn aðeins 94 fiskar. En það er víst bezt í útdrætti er það ekki?
- Svo fór þetta að koma. Við vorum mest austur frá.
- Fórum einu sinni vestur á Selvogsbanka, en fengum lítið sem ekkert.
- Jú víst voru brælur, eða var það ekki Matti?
- Blessaður maður er búinn að gleyma því öllu saman.
- Jú, hann var stundum brælinn, sérstaklega fyrst á vertíðinni.
- Báturinn er ágætur eftir að hann var lengdur í fyrrahaust.
- Það er kannski helzt á mótstími, að hann tekur meira inná sig.
- Um leið og báturinn var lengdur breyttum við fyrirkomulagi um borð fyrir skuttog og erum með gálga afturá; á sitt hvort borð og togrúllurnar ná nokkuð út fyrir síðuna. Nú þarf að styrkja það allt betur. Það eru stundum mikil átök á toginu.
- Það er allt annað að kasta með skuttogi, hægt að heygja í bæði borð.
- Bobbingalengjuna tökum við meðfram síðunni, þegar híft er.
- Það gekk mjög vel að afgreiða netin.
- Við höfðum þannig fyrirkomulag á veiðunum austur í bugtum, að þetta kom tiltölulega létt niður á strákunum og tókum alltaf tvær lagnir í túr - þeim líkaði það prýðilega.
- Komum að á nóttunni klukkan tvö til þrjú, og þá gátu allir farið beint í bólið til konunnar!
- Það er nú ekki dónalegt á kvennaárinu!
- Svo lönduðum við um morguninn, en eftir hádegi höfðu menn daginn frían. Fórum svo út klukkan 10 og 12 á kvöldin.
- Við byrjuðum að draga klukkan fjögur til sex á morgnana.
- Ég hef frekar stuttar trossur, venjulega tólf neta. Við vorum oftast með 12 trossur mest 14 í smátíma.
- Þetta var einvalalið hjá mér í vetur - harðfrískir strákar, reglusamir og góðir.
Sjálfur bragðar Sigurjón hvorki vín né tóbak.
- Við erum venjulega 45 til 50 mínútur að draga trossuna og menn skiptast á við netadráttinn, ganga úr einu verki í annað. Þeir hvílast þá á verkunum og verða ekki leiðir á því að vera alltaf í því sama.
- Yfir vertíðina fórum við með 800 net, og telst það lítil netanotkun á þennan afla. Það er ekki óalgengt að á tonnið þurfi eitt net.
- Það var alltaf mikið af ufsa í aflanum. Skiptingin er nálægt því þannig, að ufsi og annar bolfiskur er 520 tonn, þorskur er um 470 tonn.
- Jú, það var minni fiskgengd á miðunum, en verið hefur.
- Mér fannst ég einkum verða varan við, að fiskurinn hrygndi lítið í vetur. Það kom ekki eins mikið af svilum og hrogni frá netafiski og maður á að venjast. Ég man t.d. eftir því, þegar ég var strákur með pabba, að þá var stundum allt útbíað í svili og hrognum.
- Undir lokin vorum við í hálfan mánuð eða þrjár vikur rétt austan við Eyjar, á Ledd.
- Við tókum upp netin 10. maí og fórum svo einn túr á trolli fram að 15. maí. Heildaraflinn varð 990 tonn, og skiptaverðmæti 24 millj. kr.
- Hásetahlutur var 814 þúsund krónur.
- Hvað skiptir mestu máli við veiðarnar?
- Það sem mér finnst skipta mestu máli við fiskiríið er tíminn, en góður mannskapur er auðvitað forsenda hans og svo það að vera sjálfur nógu fljótur að finna trossurnar og vera ekki að þvælast um allan sjó til að finna veiðarfærin.
- Fiskurinn virðist haga sér eins og loðnan í fiskabúrunum hjá honum Figga. Hann er helst við hraunsnaga og brúnir.
- Ný tæki?
- Já, mig langar mikið í höfuðlínumæli, ef það verða til peningar.
- Nú, kannski banna þeir flotvörpuna. En það er áreiðanlega framtíð í þeim veiðum og Matti bróðir er núna úti í Kanada að kynna sér flotvörpu. Nýi báturinn hans og Björgvins Ólafs verður tilbúinn í sumar.
- Mér lízt vel á kortaritara með lóraninum. Nú birtist Óskar í gættinni á „bestikkinu“. Kraftur og ákveðni í svipnum sem fyrr. Hann gefur það ekki eftir sá kóngur.
- Jæja, þá er tromman komin um borð.
- Já, það verður fínt heima, þegar grasið verður komið.
Bjartsýni og trú á lífið leynir sér ekki hjá þeim feðgum.
- Við förum heim fyrir sjómannadag, segir Sigurjón
Sjómannadagsblað Vestmannaeyja og allir Vestmannaeyingar óska Sigurjóni Óskarssyni og áhöfn hans til hamingju með titilinn „Fiskikóngur Vestmannaeyja“ 1975, sem hann hefur vel til unnið og enn á ný sannað, að hann er frábær fiskimaður. Lifið heilir!