Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1974/ Aflakóngur Vestmannaeyja 1972
HUGINN II - VE 55 undir skipstjórn Guðmundar Inga Guðmundssonar skilaði mestu aflaverðmæti á land í Vestmannaeyjum árið 1972.
Sama árið og Huginn II var aflahæstur á vetrarvertíð og skipstjórinn, Guðmundur Ingi, varð fiskikóngur Eyjanna, náði hann og skipshöfn hans þessum ágæta árangri allt árið. Guðmundur Ingi hlaut því Ingólfsstöngina fyrir árið 1972, en hún er alltaf afhent á sjómannadaginn árið eftir.
Heildaraflaverðmæti Hugans árið 1972 var 27.698.894 kr., en skiptaverðmæti var 22.023.049 kr.
Vertíðarafli Hugans 1972 var 4.019 tonn af loðnu og 953 tonn af fiski.
Sumarúthaldið 1972 var nokkuð óvenjulegt hjá Huganum. Þeir voru á netum meginhluta sumars og allt haustið fram að áramótum. Margir Vestmannaeyjabáta stunduðu þessar netaveiðar, er kom fram á haustið, með ágætum árangri eins og t. d. Kap II og fleiri bátar. Aðalveiðisvæðið var austur af Eyjum og best út af Víkinni og Pétursey.
Aflinn var mestmegnis ufsi og var gert að um borð. Á bátnum var 11 manna áhöfn og voru þeir með 7 og 8 trossur. Huginn landaði um 200 tn. í heimahöfn, en fjóra túra sigldu þeir til Þýskalands. Samtals seldu þeir fisk erlendis fyrir 9.609.690 kr. og m. a. af því stafar hinn mikli munur á aflaverðmæti og skiptaverðmæti, en beint í kostnað við sölur erlendis fóru 3.018.542 kr.
Guðmundur Ingi var að vanda hressilegur og bjartsýnn, þegar ritstj. blaðsins rabbaði við hann á sjómannadaginn 9. júní s.l. Guðmundur er nú að láta smíða nýtt 350 rúmlesta skip í Mandal í Noregi og er það sérstaklega ætlað til loðnuveiða. Skipið á að geta borið 500 tonn af loðnu og býst hann við að fá skipið í nóvember n.k. Nokkur fleiri skip sömu tegundar er verið að smíða í Noregi fyrir Íslendinga og fær Guðjón á Gullberginu m. a. eitt þessara skipa.
Auk þess, sem Guðmundur Ingi á og gerir út Hugann II, á hann skuttogarann Vestmannaey að hálfu. Er ánægjulegt að sjá, þegar dugmiklir sjómenn komast svo vel áfram og ávaxta árangur starfsins með því að kaupa ný og betri skip, sjálfum sér og öðrum til hagsældar.
Við óskum Guðmundi Inga, áhöfn hans og fjölskyldum allra heilla á komandi árum og öll þökkum við mikið og gott framlag þeirra til þjóðarbúsins.