Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1974/ Aflakóngur á vetrarvertíð 1973
Í VERTÍÐARLOK eftirminnilegustu og viðburðarríkustu vertíðar í Vestmannaeyjum - gosvertíðarinnar 1973, eignuðust Vestmannaeyingar ungan og efnilegan fiskikóng, Sigurjón Óskarsson skipstjóra á vélbátnum Þórunni Sveinsdóttur.
Sigurjón Óskarsson er fæddur í Vestmannaeyjum 3. maí 1945, sonur hjónanna Þóru Sigurjónsdóttur og Óskars Matthíassonar, sem eru þekkt sæmdarhjón hér í bæ, en Óskar er kunnur aflamaður og skipstjóri, sem hefur um áraraðir verið í röð albestu fiskimanna í Eyjum, þekktur af síðum þessa blaðs og hefur þrisvar orðið fiskikóngur Vestmannaeyja.
Sigurjón hefur því alist upp við sjómennsku og útgerð frá blautu barnsbeini og fellur eplið sjaldan langt frá eikinni. Hann hefur frá unga aldri markvisst stefnt að lífsstarfi sínu. Eins og margir Eyjastrákar og síðar miklir aflamenn byrjaði hann ungur til sjós eða 17 ára gamall. Sextán ára að aldri beitti hann upp á hálfan hlut á móti Matthíasi bróður sínum, en árið, sem hann lauk skyldunámi í Gagnfræðaskóla skar hann af öllum netum af Leó og felldi, en þá vertið var Leó annar aflahæsti bátur í höfn. Það beygðist því snemma krókurinn að því sem verða vildi hjá Sigurjóni og hugurinn allur við sjóinn og aflabrögðin.
Sigurjón er yngsti skipstjórinn, sem hlýtur þennan heiðurstitil sjómanna í Vestmannaeyjum, 28 ára gamall. Er það sérlega ánægjulegt að eiga svo unga og þróttmikla menn hér í sjómannastétt.
Hann varð strax mjög efnilegur fiskimaður og er vertíðin 1973 önnur vertíð hans sem formanns á vetrarvertíð. Það er fátítt, að menn komist svo fljótt í raðir fremstu fiskimanna og nái strax þeirri leikni og reynslu, sem til þarf. Í starfinu er mikilvægt að sýna þolgæði, kapp, dugnað og útsjónarsemi. Sigurjón er með hægð sinni og prúðmennsku búinn öllum þessum góðu og mikilvægu kostum allra fiskimanna. Það er mér gömlum læriföður Sigurjóns, á bókina vel að merkja, mikil ánægja að hann staðfestir þá kenningu, að þeir, sem skili í skóla öllum hlutum vel og samviskusamlega og vaxi með hverju verkefni, sem þeim sé fengið í hendur, það séu menn vænlegir til átaka og athafna síðar meir. Slík var viðkynning okkar kennara af Sigurjóni í skóla. Hann lauk hinu meira fiskimannaprófi frá Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum árið 1967 með ágærum vitnisburði.
Áður hafði Sigurjón lokið hinu minna vélstjóraprófi 1962. Var hann næstu ár eftir því sem á stóð stýrimaður eða vélstjóri á m/b Leó með föður sínum. Sigurjón byrjaði skipstjórn sumarið 1968 með m/b Leó VE 400 og var hann með Leó næstu þrjú sumur, en á vertíðum stýrimaður hjá Óskari föður sínum. Í vertíðarbyrjun 1971 kom m/b Þórunn Sveinsdóttir, nýbyggður stálbátur, til Vestmannaeyja, en þeir feðgar, Óskar og synir hans (fyrirtækið Ós h.f.), eiga bátinn. Þórunn Sveinsdóttir er smíðuð í Stálvík h.f. og er 105 RT brúttó, með 800 ha. aðalvél.*
* Ítarleg lýsing var á bátnum í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja 1971.
Sigurjón var stýrimaður vetrarvertíðina 1971, en Þórunn var aflahæsti bátur á vetrarvertíðinni. Hann tók við bátnum um vorið og hefur verið með hann síðan. Sigurjón hefur alltaf aflað prýðilega á sumarvertíð og sumarið 1972 fékk hann 700 tonn frá 20. maí fram í október. Vetrarvertíðina 1972 var Þórunn Sveinsdóttir fjórði hæsti bátur í höfn.
Vertíðina 1973 hóf Sigurjón róðra 12. janúar. Þeir voru með botnvörpu framan af vertíð og var afli strax ágætur. Skipverjar voru 8 á togveiðum. Fram að eldgosi, 23. janúar, höfðu þeir fengið 52 tonn og daginn fyrir gos, mánudaginn 22. janúar, lönduðu þeir 28 tonnum.
Sigurjón skráir nákvæmlega afla- og togslóðir og er gaman að líta í „aflabiblíuna“ hans. Í síðasta túr fyrir gos voru þeir sem oftar að veiðum austur við Ingólfshöfða, en þar fékkst aflinn í botnvörpu að mestu. Ég gríp hér niður í dagbókarfærslu í þessari veiðiferð.
„17. janúar: kl. 0915 - Toga út 33-35 faðma, í vestur, út á Horn, þar lóðar á 35-45 faðma dýpi, Toga NA, sný svo við, fer alveg í brúninni á Horninu, 40-45 frn. og þaðan V (vestur), lóðar, fengum 13 poka af þorski“. — Það má notast við það! - afli á að giska 8—10 tonn í toginu.
M/b Þórunn Sveinsdóttir var eins og aðrir Vestmannaeyjabátar í mannflutningum gosnóttina og fóru 150 manns með bátnum til Þorlákshafnar. Síðar voru þeir í flutningum húsmuna sinna og veiðarfæra.
Fyrsti túrinn á veiðar eftir gos 7. febrúar. Þá var fremur tregt fiskirí og eins og aðrir Vestmannaeyjabátar urðu þeir fyrir ýmsum erfiðleikum vegna náttúruhamfaranna.
Í lok fyrstu veiðiferðar eftir eldgos ritar Sigurjón hinn 11. febrúar í dagbókina:
„Kl. 10:45. Kastað, toga vestur fyrir Portland. Afli 400 kg. Allt tekið inn og farið til Vestmannaeyja. Lágum þar í rúman sólarhring, þá fór hraunið að renna við Klettsnef, svo að við fórum út ásamt Leó, Árna í Görðum, Lóðsinum og Sæunni GK. Fórurn til Þorlákshafnar. Það hefur verið vestan stormur og síðan N-stormur í dag (12/2). Lönduðum í Þorlákshöfn og fórum siðan til Hafnarfjarðar.“
Þeir lönduðu úr þessum túr 2.500 kg. í Ísfélag Vestmannaeyja; ýsu í soðið handa goskörlum, en í Þorlákshöfn var landað 6,4 tonnum. Aflinn því samtals 9 tonn.
Þessi glefsa úr dagbók Þórunnar Sveinsdóttur bregður upp mynd af þeim flækingi, sem var á Vestmannaeyjabátum vetrarvertíðina 1973, vegna þeirra sérstöku aðstæðna, að ekki var unnt að landa í Vestmannaeyjum og höfnin var iðulega lokuð. Útivist bátanna og keyrslur á miðin voru lengri en nokkru sinni fyrr.
Sigurjón sækir sjóinn stíft en er þó gætinn vel og sjómaður góður. Til gamans er gripið niður í dagbókina, þar sem greint er frá sjóferð um mánaðamótin febrúar/mars. Sannast þar máltækið „að oft eru kröggur í vetrarferðum“. Hérsegir frá sjóferð, sem alltaf má búast við, en sjómenn tala lítt um, þegar komið er í höfn. Þá er það aflinn, sem máli skiptir.
Túrinn hófst 28. febrúar - þá er kastað í morgunsárið á Víkinni.
Hinn 2. mars - kl. 0920:
„Kastað, 6,0 sml. í Reynisdranga og 5,0 í Hjörleifshöfða, toga V (vestur) - 50-52 faðmar dýpi. SA-hvass og síðan SSV og SV-hvass, fengum 1700 kg. ýsu, þorsk og löngu. Allt tekið inn og andæft.
Það hefur verið sunnan stormur í allan dag. Við höldum sjó og erum komnir út i Reynisdýpi; 12,0 sml. í Hjörleifshöfða og 14,0 sml. í Reynisfjall, þá ætlaði og að lensa nær landi, en fyllti alltaf stjórnborðsganginn, svo að við urðum að andæfa áfram. Það brotnaði niður loftnetið í afturmastrinu og flæktist það í radarnum. Hann hefur snúið sér í V (vestan) storm. Það voru 16 vindstig á flugvellinum i Eyjum. Við fórum vestur, 12,0 sml. í Portlandið. Heldur fór að draga úr veðrinu í morgun (3. mars), svo að við gátum haldið til Eyja. Komum þangað kl. 11.30“.
Samtals var aflinn í botnvörpu á vetrarvertíðinni 1973 115 tonn, en net voru tekin 10. mars.
Á netaveiðum eru 12-15 net stjóruð og baujuð saman, kallast það trossa. Er þetta svo þekkt meðal sjómanna, að ekki þarf frekari skýringar við, en segja nafnið netatrossa. Vegna annarra lesenda finnst mér þó rétt að skýra þetta nánar hér. Flotin eða baujurnar eru merktar með flöggum. Fyrst ritstjóri blaðsins komst í „biblíu“ Sigurjóns, sem auk athugasemda er með teikningum af legu netanna, langar mig að bregða upp mynd af því hvernig góðir aflamenn vinna, og að ekkert sem varðar veiðarnar er tilviljun háð.
Baujurnar á enda hverrar trossu eru auk aðalbaujuflaggsins merktar með litlum vimplum. En hver bátur hefur sitt sérstaka baujuflagg og hafa verið gefnir út sérstakir bæklingar með merkingum veiðarfæra hér í Eyjum. Sigurjón merkir baujurnar þannig: 1) vimpillaus, 2) gul og blá, 3) gul, 4) gul og rauð, 5) hvít, 6) gul og græn, 7) hvít og svört, 8) svört. Fyrsta lögn, 10. mars 1973:
„Staður 3,9 sml, í Merkin og 19,7 sml. Fellsfjall. Svört Uggur í SV og V, 2 helgir á SV-enda - 57 faðmar (dýpi). Blá/gul við endann á svörtu SV að V, 2 belgir á SV-enda, á 60 föðrnum ... Svört/hvít liggur í SV, 2 belgir á SV-enda - 47 faðrnar. Á SV-enda 2,4 í Merkin og 21,0 snd. Fosshnjúp. Ljósbauja“. Síðan er skrifað niður hver afli fæst í hverja trossu eftir lögnina.
Þannig dagbókarfærslur eru í senn merkilegar og nauðsynlegar og bera glöggskyggni Sigurjóns og þeirra skipstjóra vitni, sem færa þær.
Á vertíðinni 1973 gaf fiskur sig best til austan við Eyjar. Sigurjón fór fjóra túra austur í Meðallandsbugt og tók tvær lagnir í túr. Þar fékk hann besta róðurinn á vertíðinni, 51 tonn. Afli var að mestu ufsi þarna austur frá.
Þeir tóku netin upp 14. maí og var þá ekkert að hafa. Aflinn var þá samtals 875 tonn. Hörkukeppni hafði verið síðustu daga vertíðarinnar um efsta sætið við Guðfinn á Árna í Görðum, Það gerir þetta allt skemmtilegra og bregður litríkari blæ á vertíðarlífið og sjósóknina.
Á Þórunni Sveinsdóttur hefur verið úrvalsmannskapur. Stýrimaður þessa vertíð var Sævaldur Elíasson frá Varmadal, en 1. vélstjóri er frændi Sigurjóns, Matthías Sveinsson, sem hefur gegnt því starfi frá því báturinn var smíðaður. Í stuttu rabbi við Sigurjón um vertíðina 1973 óskaði Sigurjón, að fram kæmu þakkir sínar til góðs mannskaps. Hann kvað lítið vera gert nema hafa góða menn með sér á sjónum.
Það var ekki oft komið heim þessa vertíð, en fjölskylda Sigurjóns bjó í Hafnarfirði. Hann er kvæntur Sigurlaugu Alfreðsdóttur, ættaðri héðan úr Vestmannaeyjum og eiga þau þrjú mannvænleg börn. Í september haustið 1973 fluttu þau aftur til Vestmannaeyja í glæsilegt einbýlishús sitt við Illugagötu.
Sigurjón Óskarsson er ungur að árum og má búast við, að hann eigi eftir að koma mikið við fiskveiðisögu Vestmannaeyja á næstu árum. Sjómannadagsblað Vestmannaeyja og allir Vestmannaeyingar samfagna Sigurjóni með aflasældina og senda honum, áhöfn hans og fjölskyldum bestu kveðjur og árnaðaróskir.