Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1966/ Lifrarvinnsla í Vestmannaeyjum fram yfir síðustu aldamót
Það var mikill og góður fengur Sjómannadagsblað Vestmannaeyja að fá leyfi frú Elínborgar Gísladóttur í Laufási til að birta þessa ágætu grein Þorsteins, sem fannst að bonum látnum. Er hér inn eitt merkilegt framlag Þorsteins til atvinnusögu Vestmannaeyja. Flytur blaðið frú Elínborgu kærar þakkir og biðjum við henni allrar blessunar.
Það fyrsta ég man til um lifrarvinnslu hér í Eyjum er frá árunum 1885—1890.
Þetta verður þó ófullkomið, þar sem ritaðar heimildir um þetta efni munu fáar fyrir hendi. Meira að segja er ekki í hinni miklu Iðnsögu Íslands þessarar iðnaðargreinar að neinu getið, þrátt fyrir að lýsi hefur verið aðalljósgjafi íslenzku þjóðarinnar, þá sólbirtu naut ekki, að minnsta kosti við sjávarsíðuna fram á síðustu tugi nítjándu aldarinnar.
Þar að auki má á það minna, að lýsi það, sem aðallega fékkst úr hákarli og þorski átti ekki hvað minnslan þáttinn í því, að íslenzka þjóðin skrimti af á þeim hörmungartímum, sem yfir hana dundu af manna og náttúrunnar völdum um nær 300 ára skeið og fór ekki að létta af fyrr en dró að síðustu aldamótum.
Þá má einnig geta þess, að lýsið var annar og þriðji mesti útflutningsliður Íslendinga, sérstaklega þar sem hákarlaveiði var stunduð af kappi, en svo var hér í Eyjum og hafði Iengi verið. Hákarlinn var aðallega veiddur vegna Iifrarinnar: barst þá oft á land afarmikið magn, þegar vel aflaðist. Í minnum manna var lengi 12. febrúar 1865, því að þá fluttu 7 skip í land hákarlslifur fyrir 700 ríkisdali.
Líklegt má telja, að hin afarstóru lifrarkör hafi verið höfð eins stór og þau voru meðfram vegna hákarlaveiðanna. Hákarlaveiðar lögðust hér niður með öllu 1893, vegna verðfalls á lýsinu á útlendum markaði, sem stafaði af hinum stórauknu hvalaveiðum Norðmanna við smíði tundurskutulsins, sem Norðmaðurinn Svend Foyn fann upp.
Um síðustu aldamót urðu sérstaklega merk tímamót í sögu lýsisiðnaðar, þar sem þá voru hér á Eyju eins og annars staðar hér á landi teknar upp nýjar aðferðir við að vinna lýsið úr lifrinni, sem á allan hátt tók mjög fram þeirri aðferð, sem hér og annars staðar hafði verið notazt við, efalaust um aldaraðir.
Á því árabili, sem hér hefur verið nefnt, eða fram að síðasta tug 19. aldarinnar, voru hér á Eyju þrjár verzlanir, sem allar söfnuðu og bræddu lifur. Þetta er þó ekki alveg rétt, því lifrin var ekki brædd ný, en látin í afarmikil tréker, sem nefnd voru lifrarkör. Eftir að lýsinu, sem í fyrstu kom sjálfrunnið úr lifrinni, hafði verið ausið á tunnur, var úrgangurinn, sem nú var nefndur grútur, soðinn í sérstökum húsum, sem nefnd voru bræðsluhús. Til suðunnar voru notaðir stórir pottar, sem tóku fleiri tunnur, voru þeir innmúraðir með pöllum í kring.
Þar sem ein af hinum þremur verzlunum, Godthaabsverzlunin, hætti störfum um 1890, man ég óglöggt eftir öðru en því, að lýsishúsið, sem var stórt og stæðilegt hús, stóð norðan við íbúðarhúsið Godthaab og sneri suður og norður, en austan við það stóð bræðsluhúsið, og sneri frá austri til vesturs. Á milli þessara húsa stóðu lifrarkörin 3, sem þá voru orðin fornfáleg. Lýsishúsið var rifið 1892 og flutt austur í Vík í Mýrdal, og var aðaluppistaðan í verzlunarhúsum þeim, sem Bryde lét reisa þar og enn munu við lýði.
Við Júlíushaab, eða á Tanganum, en svo var þessi verzlun nefnd í daglegu tali, stóð bræðsluhúsið í norðausturhorni lóðarinnar, þar sem nú er austurkantur hins stóra pakkhúss Gunnars Ólafssonar & Co. Til beggja hliða við bræðsluhúsið, sem sneri frá austri til vesturs, stóðu 4 Iifrarkör, sérstaklega bar eitt þar af að stærð, var það sporöskjulagað og varð það orsök þess, að það varð manni að bana, þegar verið var að velta því til sjávar, af kvenfólki eingöngu, 1895. Sá maður, sem bana beið, hafði umsjón með verkinu, hét Einar Jónsson, hinn mesti merkismaður, og var verkstjóri hjá Bryde þá þetta skeði. Einar þessi Jónsson var kallaður Einar mormóni. Hann hafði dvalið i Ameríku og kenndi mönnum hér ensku og dönsku.
Lýsishúsið á Tanganum stóð nokkru vestar en bræðsluhúsið, og sneri einnig frá austri til vesturs, var Iýsisgeymslan í austurenda þess. Þetta hús var alltaf kallað Norðurhúsið af heimilisfólki á Tanganum.
Í Tangabræðsluhúsinu voru innmúraðir 2 geysistórir bræðslupottar, sem grúturinn var bræddur í. Síðustu árin, sem bræðsla fór þar fram, var þar aðalbræðslukona Kristín Jónsdóttir frá Miðhúsum, þá orðin öldruð, hin mesta sómakona.
Bræðsluhúsið, sem tilheyrði Garðsverzluninni var starfrækt sem lifrarbræðsluhús fram yfir 1930. Það stóð skammt frá sjó, þar sem hleðsla Skansins endar að vestan. Var það rifið þegar Einar Sigurðsson lét reisa hið stóra söltunarhús sitt.
Í þessu bræðsluhúsi voru 3 stórir bræðslupottar og einn minni til ígripa, enda fór þarna fram mestöll lifrarbræðsla Eyjanna þann hálfan annan áratug, sem Bryde var nær einvaldur í verzlunarmálum Eyjabúa.
Sunnan við bræðsluhúsið, sem sneri frá austri til vesturs, stóðu 4 stór lifrarkör, en eitt miklu minna stóð inni í lýsishúsinu. Var lýsið látið setjast til í því eftir að ausið hafði verið ofan af körunum. Var lýsið síðan látið á tunnur til útflutnings.
Lýsishúsið sem tilheyrði Garðsverzluninni stendur ennþá að mestu óbreytt frá upphafi, sunnan megn við veginn, sem liggur austur á Skansinn, og er það merkilegt meðal annars vegna þess, að það mun vera næst að aldri Landakirkju af þeim húsum, sem nú eru hér á Eyju. Hús þetta var og er oftast nefnt Kornhúsið. Sýnir þessi hái aldur, að vel hefur verið til þessara húsa vandað í upphafi, sérstaklega þegar þess er gælt, að þetta hús var að mestu ójárnvarið á annað hundrað ár, og norðurveggurinn með upphaflegum ummerkjum ennþá.
Lifrarkörin, sem lifrinni nýrri var safnað í, voru úr tveggja þumlunga þykkum plægðum plönkum, girt með þremur og fjórum sterkum járngjörðum, sem voru skrúfaðar saman. Þau voru misjöfn að stærð, þau stærstu 4—5 álnir á hæð og 5—6 álnir að þvermáli, öll sívöl, nema fyrrnefnt lifrarkar, sem slysinu olli, sem var nokkru stærst. Þau stærðarhlutföll, sem hér hafa verið nefnd, munu ekki fjarri sanni, þar sem ég hefi umsögn fleiri eldri manna við að styðjast.
Öll þessi stóru ílát, sem úti stóðu, áttu það sameiginlegt að þau voru opin. Rigndi því í þau, og það sem verra var, að alls konar ryk og óhreinindi bárust ofan í þau líka. Því vatni, sem í þau rigndi, var auðvelt að tappa af þeim. Var það nefnt lifrarvatn. Var nokkuð notað sem áburður í kartöflugarða, þótti gefast bezt að hella því yfir desin eftir að búið var að setja niður. Ekki varð með sanni sagt, að lyktin væri góð af þessu vatni.
Það voru karlmenn, sem jusu hrálýsinu ofan af lifrinni og létu það á tunnur. Var fyrsta lýsið, sem úr lifrinni kom, bezt og tærast; Var það talið í fyrsta flokki, venjulega látið á nýjar tunnur. Það sem síðar var ausið ofan af lifrarkörunum, varð dekkra á lit og nefnt brúnlýsi; var það í öðrum flokki og ekki eins til þess vandað með ílát.
Svo kom það lýsi, sem soðið var úr grútnum, sem eftir var í körunum. Mun það hafa verið Iangmest að magni, því byrjað var að bræða grútinn á sumrin og verið að bræða fram á vetur. Það lýsi, sem þannig fékkst, var nefnt soðlýsi eða steinlýsi, því þetta var nefnt að steinbræða grútinn. Mun það hafa verið vegna þess, að eftir að búið var að malla í pottunum heilan sólarhring, voru úrgangsefnin orðin steini lík. Allt það lýsi, sem unnið var á þennan hátt, varð þriðja flokks lýsi, og var látið á tómar tunnur undan steinolíu, og á þeim flutt til útlanda.
Ekki þarf að taka fram, að bræðslan á grútnum fór fram í bræðsluhúsunum. Önnuðust hana aldurhnignar konur. Varð að vaka yfir pottunum nótt og dag; voru þessi bræðsluverk hin verstu að öllu leyti. Þær síðustu, sem önnuðust þessi störf um mörg ár, í bræðsluhúsi Bryde hér á Eyju, voru þær Herdís Magnúsdóttir í Nýborg og Margrét Bjarnadóttir í Sjólyst. Mun þeim hafa verið gefin mikil þolinmæði, að þrauka mörg ár við þetta ógeðslega starf, sem sjálfsagt hefur verið smánarlega Iaunað; því kvenfólk til verksins valizt, það líka yfirleitt trúrra í störfum, en þetta hið mesta trúnaðarstarf, þar sem suðan mátti helzt aldrei vera of eða van, meðan grúturinn mallaði í hinum stóru pottum.
Að lokum skal þess getið til viðbótar þessari fátæklegu lýsingu af lýsisvinnslu þeirri, sem hélzt hér í Eyjum fram yfir aldamótin síðustu, að þann tíma, sem hér um ræðir, höfðu flestir þeir, sem áttu fyrir heimilum að sjá, lifrarílát í aðgjörðarhúsum sínum, og hagnýttu lýsið til eigin þarfa, lifrin einnig brædd ný á heimilum í sama skyni. Einnig var lýsið eftirsótt til vöruskipta við sveitamenn, því það hafði afarmikla þýðingu sem aðalljósmeti, þar til steinolían hafði rutt því af hólmi sem slíku á síðustu tugum síðustu aldar.