Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1964/ Guðfinnur Marelsson, vélsmiður frá Eyrarbakka

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Guðfinnur Marelsson


Vélsmiður frá Eyrarbakka


Fæddur 24. ianúar 1927. Dáinn 6. ágúst 1963.


Að kvöldi dags 7. ágúst siðastliðinn kom sá er þetta skrifar úr sjóróðri. Við innsiglinguna hjá hafnargörðunum sást að fjölgað hafði í höfninni. Síldarbátarnir voru að konia heim og bundnir við heimabryggjur. Gleði og fögnuður fylgir ávallt slíkum heimkomum eftir Ianga útivist. Ræður þar ekki þá fyrst og fremst hve málin eru mörg eða tunnurnar í salt, heldur þetta að vera kominn heim til sín og sinna, heill á húfi.
Er litið var yfir flotann þetta kvöld, af sjómanni er var að koma úr stuttum túr, varð samfögnuður til stéttarbræðra allt í einu tregablandinn. „Hvað er þetta!“ var kallað. Fáni í hálfa stöng? Fyrst var því ekki trúað, heldur vonað að missýning bæri fyrir. Er nær var komið sást þó að ekki var um missýningu að ræða, því miður. Heldur var þjóðfáni okkar á stað sorgar, í hálfu mastri, eitthvað hafði komið fyrir. Hvað? Hvar?
Er komið var að bryggju, heyrðist sorgarfréttm. Ungur Eyrbekkingur, Guðfinnur Marelsson, hafði fallið útbyrðis af vélskipinu Erlingi 3. deginum áður, austan til við Ingólfshöfða.
Blíðskaparveður var og dagur að komast á hádegi. Hvorki myrkri eða illviðri var því um að kenna. Þar í viðbót var Guðfinnur sálugi syndur sem selur, hafði unun og yndi af þeirri íþrótt og lét ekkert tækifæri ónotað til að fara í sund. Þar á ofan voru viðbrögð félaga hans á Erlingi 3. skjót og snör þegar óhappið átti sér stað að hann féll fyrir borð. Guðmundur Lárusson frá Stykkishólmi, er áður hafði lent í mannraunum og slysi á hafi úti, en bjargast dásamlega, lét nú sitt ekki eftir liggja. Varð fyrstur til að hlýða ósk skipstjóra síns, til að kasta sér til sunds og hjálpa félaga sínum í neyð. En hér var augnablikið dýrmætt. Rétt áður en hjálparhandtakið varð veitt, blasti sú staðreynd við — Guðfinnur var horfinn.
Þakkir skulu færðar Bjarna skipstjóra og áhöfninni á skipi hans fyrir að það, sein í mannlegu valdi var til var ekki sparað, heldur allt látið í té á þessari alvörustund, til bjargar og hjálpar. En hér sannast sem oft áður: Innsigli engir fengu / upp á lífsstunda bið, / en þann kost undirgengu / allir að skiljast við. Stundin var komin, dagarnir taldir. Sá sem í upphafi gaf, tók nú sitt. Fyrir alveldi Hans bevgjum við okkur menn og segjum með Job: „Drottinn gaf og Drottinn tók, lofað veri nafn Drottins. Það skal vera huggun foreldra, systkina, ástvina og félaga Guðfinns heitins.“
Guðfinnur Marelsson var fæddur sem fyrr segir 24. janúar 1927. Foreldrar hans eru þau hjón. Marel Þórarinsson og Sigríður Gunnarsdóttir, búsett á Eyrarbakka. Guðfinnur var elztur barna þeirra hjóna. Ingibjörg og Guðni fylltu auk þess systkinahópinn; þau eru bæði búsett í Reykjavík.
Guðfinnur ólst upp í foreldrahúsum og var augasteinn og yndi foreldra sinna. Bráðungur fór hann til sjós, eða rétt eftir fermingu. Stundaði vertíðir aðallega frá Keflavík, síðar á togurum. Um tvítugt tók hann sig til og lærði járnsmíði í Stálsmiðjunni í Reykjavík. Lauk þaðan prófi með góðum vitnisburði. Meistari hans, Benedikt Guðbjartsson járnsmíðameistari, gaf Guðfinni hið bezta orð sem manndómsmanni og góðum dreng. Að afloknu námi vann Guðfinnur við iðn sína. En sjórinn heillaði. Fór hann nú enn til sjós og nú sem vélstjóri. Þeirra réttinda hafði hann aflað sér. Stundaði hann nú sjóinn bæði vetur og sumar. Alls staðar þar sem Guðfinnur var, þá var rúmið ekki betur skipað.
Umgengni hans og framkoma öll var með ágætum, reglumaður og duglegur. Allt gott fylgdi honum, friður og hlýleiki. Sá er þetta skrifar hitti Guðfinn aðeins tvisvar á lífsleiðinni og þá á sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum, en þar lá hann vegna slyss á fæti er hann varð fyrir hér við Eyjar. Hin bjarta og hreina mynd hans stendur mér fyrir hugskotssjónum.
Minning Guðfinns er heiðruð á Sjómannadaginn 1964. Fólki hans eru sendar samúðarkveðjur. Hann er kært kvaddur af frændfólki sínu hér í Eyjum, systkinunum Margréti og Guðfinni Þorgeirssyni og þeirra fólki. Foreldrum hans og systkinum sendir Sjómannadagsráð Vestmannaeyja, skipstjóri og félagar af Erlingi 3., innilegustu samúðarkveðjur og biður þeim blessunar Guðs. Minning góðs drengs lifir.

Einar J. Gíslason.