Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1964/ Á síldarveiðum fyrir 45 árum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
EYJÓLFUR GÍSLASON:


Á síldarveiðum fyrir 45 árum


Það var í júníbyrjun sumarið 1919 að farið var að tala um, að héðan ættu tveir bátar að fara til síldveiða með reknet og leggja upp aflann á Vestfjörðum. Þetta þóttu miklar og nýstárlegar fréttir og tel ég því víst að þetta hafi verið í fyrsta sinn, sem gert var út á síldveiðar frá Vestmannaeyjum, til að leggja upp aflann í öðrum verstöðvum. Bátarnir, sem veiðarnar áttu að stunda, voru þá stærstu bátarnir í höfn, en það voru Goðafoss VE 189, sem var 11,22 tonn, með 22 hestafla Alphavél, tveggja strokka.
Eigandi bátsins var Jóhann Reyndal, bakarameistari, en útgerðarmaður bátsins þetta úthald var Lydir Hojdahal, norskur maður, sem kom hér stuttu eftir síðustu aldamót og byggði eitt fyrsta húsið neðan Strandstígs. Þar keypti hann lifur og gufubræddi sjálfur.
Síðar gerðist hann mikill kaupmaður, sem seldi timbur, salt og sement, kol og nýlenduvörur, en keypti af bændum afurðir þeirra, fisk, fiður og fleira. Þá gerðist hann og útgerðarmaður og lét byggja nokkur stórhýsi á þeirrar tíðar mælikvarða.
Skipstjóri með Goðafoss var Árni G. Þórarinsson á Eystri-Oddsstöðum, er síðar varð hafnsögumaður hér og fyrsti formaður Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Verðandi.
Hinn báturinn, sem veiðarnar átti að stunda, var Óskar VE 185, sem var 11,76 tonn að stærð. Eigandi hans og skipstjóri var Gísli Magnússon í Skálholti. Þessir bátar þóttu mjög líkir og máttu kallast systraskip. Þeir voru báðir smíðaðir hér í Eyjum, af Jens Andersen, bróður Péturs Andersen á Sólbakka. Jens var lærður og vanur skipasmiður frá Frederikssund í Danmörku.

Skipshöfnin á Goðafossi. Neðri röð frá vinstri: Eyvindur Þórarinsson, Árni Þórarinsson, Eyjólfur Gíslason, Efri röð frá vinstri: Guðmundur Kristjánsson, Ditlev Olsen, Guðmundur Jónsson.- Myndin tekin í Reykjavík á heimleið.

Þessir bátar voru kantsettir tvístefnungar og þóttu mikil og góð sjóskip, þó mun Goðafoss hafa verið öllu betri, þótti léttari undir farmi. Þeir tóku 2000—2200 af meðalstórum netafiski í báðar lestar, þar af um og yfir 300 í afturlest, sem var aftan við mótorhúsið. Lítið var þá gert að því að láta fisk á þilfar, nema lítið eitt í góðum sjóveðrum, ef svo stóð á að 1—2 net voru ódregin, en lestar voru fullar. Engir kassar eða stíufjalir voru þá á þilfari til að skorða fiskinn af. Það kom fyrir að menn seiluðu nokkra fiska og bundu við spilfót eða þar sem henta þótti. Þegar ég frétti um þessar fyrirhuguðu síldveiðar, sem mér fannst einhver æfintýraljómi yfir, falaðist ég strax eftir skiprúmi hjá Árna og fastréðist þar með, því með honum var ég búinn að vera á Goðafossi vetrarvertíðina 1918 og svo um sumarið á keilufiskiríi. Um miðjan júní var farið að standsetja bátinn á veiðarnar og ætla ég nú að reyna að lýsa aðstæðum og aðbúnaði þar um borð, en ég býst við að það þyki nú nokkuð ótrúlegt, þó satt sé, því svo mikil breyting hefur átt sér stað síðan þetta gerðist og til þess, sem nú þekkist. Engin lunning var á Goðafossi fyrstu þrjú árin og svo var enn, þó farið væri á síldveiðar. Á honum var „rekkverk" með 12 tommu skjólborði niður við þilfarið. Ofan við það var nú sett 8 tommu borð til varnar netunum, því þeim var haugað í stjórnborðsgang er hrist var úr, en síðan lögð niður í bakborðsgang. Síldin var látin í lestina jafnóðum og hrist var úr. Hér þekktust þá ekki sérstakar reknetarúllur og varð því að láta þorskanetarúlluna duga. Voru negldar á hana eikarrenglur, því þá voru keflin í netarúllunum úr tré. Oxlarnir voru lengdir það mikið að þeir stóðu um 3 tommur út úr legunum og voru smíðaðar handsveifar og ætlazt til að rúllunni yrði snúið eins og gömlu hverfisteinunum, og netin undin þannig inn. Því miður kom þetta að litlu eða engu liði, og ekki var liðið mjög langt á úthaldstímann, er einum okkar varð skapbrátt við þessa vinnuaðferð og henti báðum sveifunum langt út í sjó, því þá var búið að finna út, að bezt hentaði að vega netin inn eða láta spilið hjálpa til, með því að snörta netin inn á tógspotta. Ofan á spilinu var ágætur kappur, sem kapallinn var dreginn á. Áður en farið var í þetta ferðalag voru seglin vandlega athuguð og falir endurnýjaðir. Báturinn málaður hvítur, með brún skjólborð og gult stýrishús. Ekki þekktist þá að mála lestar eða vélarhús, en lúkar var málaður gulum með brúnum bekkjum. Ekki voru nema fjórar kojur í lúkarnum á Goðafossi, tvær með hvorri síðu. Þær fremri voru mjög þröngar og ekki of langar meðalmanni. Framan við kojurnar var setubekkur með geymsluhólfum. Fyrir aftan lúkarsstigann var um það bil álnar bil að lestarþili. Þar var útbúin koja, sem varð hvíla vélarmannsins. Raflýsing þekktist ekki í bátum og var því notaður skjöktlampi til lýsingar í lúkarnum, en hænsnalukt í mótorhúsi og til að lýsa á kompásinn þegar með þurfti.

Engin eldavél var í bátnum, en notaður prímuslampi við matar- og kaffigerð. Fenginn var hæfilega stór pottur, sem nægja mundi til soðningar handa 6—8 mönnum. Undir pottinn var smíðuð hringlaga grind á þrífæti, var hún negld niður fremst á lúkarsgólfinu.
Enginn sérstakur „kokkur“ var ráðinn, svo skipta varð matseldinni eftir vilja manna og vöktum. Þó minnir mig að hún hafi oft lent á formanninum sjálfum.
Ekkert matborð var í lúkarnum, enda gólfplássið lítið og máltíðir ekki alltaf á réttum matmálstímum og ekkert margréttaðar. Oftast var samt eldaður haframjölsgrautur að morgni og soðning eða kjöt einhvern tíma dagsins, eftir því sem sjóveður og aðrar aðstæður leyfðu. Mikið var borðað af brauðmat og kaffi drukkið óspart.
Enginn vatnstanki var í bátnum, en vatnsílátið var 40 potta kútur eða hálftankur og var hann látinn standa aftan við stýrishúsið, ofan á afturlestarlúgunni. Ekki var svo vel að í honum væri krani, heldur aðeins göt, sem spýtutöppum var stungið í.
Þessir menn voru ráðnir til síldveiðanna á Goðafoss:
Árni Þórarinsson skipstjóri
Eyvindur Þórarinsson stýrimaður
Guðmundur Kristjánsson vélstjóri
Guðmundur Jónsson háseti
Eyjólfur Gíslason háseti
Ditlev Olsen háseti
Olsen var Norðmaður, búinn að vera tvær undangengnar vertíðar netamaður á Goðafossi. Netin voru þá felld með nál á hvern möskva og tekin í land til bætingar, er þau fóru að slitna. Olsen var skemmtilegur félagi, sagði okkur margar skrítlur og brandara, ekki alveg á hreinni íslenzku, sem við hlógum hvað mest að.
Við hásetarnir vorum ráðnir upp á 175 kr. um mánuðinn og 15 aura premíu af hverri uppmældri tunnu. Okkur var öllum boðið upp á hlutdeild úr afla, en ekki man ég nú hve miklar prósentur það voru, en þær áttu að miðast við markaðsverð, en því miður þorðum við ekki að ganga að því. Að úthaldinu loknu reiknaðist okkur til, að hefðum við tekið hlutinn, hefði hann gert nær þrjú þúsund kr. á mann, sem var þá svimandi há upphæð. Þess er þó að geta, að þetta ár urðu stórkostlegar sveiflur á síldarmarkaðnum og urðu sumir síldarútvegsmenn að borga fyrir að láta henda síldinni í Danmörku, en það er önnur saga.
Við lögðum af stað héðan 10. júlí frá gömlu Bæjarbryggjunni. Þar var hópur manna, sem kvaddi okkur með árnaðaróskum og þreföldu húrrahrópi, sem við svöruðum. Ferðinni var heitið til Reykjavíkur og þangað vorum við rúma 14 tíma í blíðuveðri. Var stoppað þar einn dag, en síðan haldið beinustu leið til Ísafjarðar og fengum við logn og spegilsléttan sjó alla leiðina.
Þegar til Ísafjarðar kom, var þar mikið um að vera, því moksíldveiði var þar þá og síldin söltuð á mörgum plönum og vann bæjarfólkið við það, ungir sem gamlir, nætur og daga, eins og orkan framast leyfði.
Engar síldarbræðslur voru á Ísafirði eða nærliggjandi höfnum og urðu því bátar að moka síldinni í sjóinn, ef ekki hafðist við að salta meðan síldveiðin var mest, en það var í júlímánuði.
Þá var Ísafjörður mikill útgerðarbær og mun hafa átt fríðasta og stærsta fiskiskipaflota landsins. Þar munu hafa verið um 20 bátar, 25—40 tonn og voru þeir allir gerðir út á síldveiðar með snurpinót, til júlíloka, en síðan á reknet. Veiðisvæðið var á Ísafjarðardjúpi.
Enn er mér í minni hve heillaður ég varð, er ég sá þessa stóru og glæsilegu báta, og enn man ég nöfnin á þeim flestum.
Þar var þá t. d. Ísleifur (grænn að lit) er hingað var keyptur 1928 og er hér enn. Var hann þá þar eitt mesta aflaskipið. Þá var Skjaldbreið, er keypt var hingað til Eyja og hlaut þá nafnið Hilmir, en heitir nú Faxi, og Kári, er einnig var keyptur hingað, og síðast bar nafnið Halkion VE 27, svo einhverjir séu nefndir.
Á Ísafirði tókum við veiðarfærin um borð, ásamt olíu og mat, er við þurftum ávallt að sækja þangað eftir þörfum, en aflann lögðum við upp á Dvergasteini í Álftafirði, því þar átti Hojdahl síldarplan og braggahús, sem Nikolæ bróðir hans veitti forstöðu.
Er við höfðum tekið allt um borð í bátinn, var haldið út í fyrstu driftina, með 20 net. Við fengum strax síld í fyrstu drift, rúmar 30 tunnur. Veiðin fór svo vaxandi hjá okkur, og í sjöttu drift fengum við 97 tunnur, sem var okkar mesta dagsveiði.
Er við sáum að aflabrögðin gengu svo vel hjá okkur og að við myndum ekki verða svo miklir eftirbátar annarra, fórum við fram á, að fá sömu kjör og borguð voru á flestum reknetabátum, er við höfðum spurnir af, en það var 75 krónum hærra um mánuðinn eða kr. 250 og 10 aurum hærri premía af tunnu (25 aura). Árni tók það að sér að tala við Hojdahl og samdist með þeim, að við skyldum hafa sömu kjör og stóð það.
Stuttu eftir þetta bættum við fimm netum við og höfðum 25 net til úthaldsloka. Er við hófum veiðarnar var vöktum skipt þannig, að tveir höfðu vakt, sem stóð 4 tíma. Vaktfélagar voru Árni og Eyjólfur, Eyvindur og Guðmundur J., Olsen og Guðmundur K.
Ekki höfðum við farið margar driftar, er Guðmundur Jónsson fann upp á því að stytta okkur vaktartímann með því að útbúa veiðarfæri, sem nefnt var slóði. Það voru 12 faðmar af tveggja punda línu, með áhnýttum línuönglum. Beittum við þessa króka vandlega og róðuðum þeim á netarúlluna. Í öðrum enda línunnar var fest ca. kíló að þyngd, skrúflás eða járnbolta. Hinn endi línunnar var festur í handfærasökku, sem áföst var fjögra punda línu. Er við lögðum þetta veiðarfæri, var lausa endanum sveiflað til og kastað svo langt út frá bátnum, að allir krókarnir röktu sig út af rúllunni. Sakkan var svo látin síga hægt til botns, sem oft reyndist erfitt að finna, ef straumur var mikill.
Legutími á slóðanum var oftast 10—15 mín. Á þetta veiðarfæri fiskuðum við fyrir fæðinu okkar yfir úthaldið. Man ég að við Árni höfðum eitt sinn 29 stóra þorska eftir vaktina, en það var líka langbezta veiði á vakt. Fiskinn söltuðum við í afturlestina og mun saltreikningurinn ekki hafa verið mjög mikill.
Guðmundur Jónsson, sem jafnan var kenndur við Málmey, var þrekmikill og góður sjómaður og hið mesta ljúfmenni. Hann hafði kynnzt þessu veiðarfæri, þegar hann var á færaskútunum Ásu og Sigurfara frá Reykjavík, en á þeim var hann mörg úthöld vetur og sumur.
Síldveiði var mikil um sumarið, sérstaklega í júlímánuði og byrjun ágúst, og tíðarfar með eindæmum gott. Oftast var látið drífa á svipuðum slóðum og byrjað að leggja norðantil í miðju Djúpi, þegar Straumnes kom fram undan Rit. Vinnubrögðin um borð hjá okkur gengu vel, því Árni var sérstaklega verkhygginn og útsjónarsamur með að láta sína menn vinna sem léttast. T. d. fann hann fljótlega upp á því, að hafa klýfirseglið undir þar sem við hristum úr netunum, og láta skautið snúa aftur, en í því var 5—6 faðma tóg, sem brugðið var á spilið, er komnar voru 2—4 tunnur á seglið og jöðrum þess haldið upp. Var þá híft í tógið og síldinni hellt í lestina. Þannig losnuðu menn við mikinn mokstur. Þá fann hann og upp á því, að moka seglgaffalinn (með seglinu ávöfðu), sem bómu og láta spilið hífa síldina upp úr lestinni. Var síldartunna söguð sundur og útbúnir tveir hífustampar. Flestir aðrir þurftu að moka síldinni í körfur og handlanga úr lestum upp á bryggjur eða plön.
Árni Þórarinsson var fyrirmyndar formaður, snillingsstjórnari, aðgætinn, glöggur og mikill fiskimaður.
Árni byrjaði formennsku 21 árs gamall, með Goðafoss nýsmíðaðan 1917. Mörgum þótti það misráðið, því ekki hafði hann róið nema eina vetrarvertíð með Eyvindi bróður sínum á Gideon VE 154, vertíðina áður, og var þá mjög sjóveikur.
En fljótt kom í ljós að hann var vandanum vaxinn.
Árni var með Goðafoss í 9 ár, en í fyrsta róðrinum, sem annar fór með bátinn, fórst hann með allri áhöfn í austan ofsaroki 9. janúar 1926.
Um mánaðamótin ágúst og september var veiðum hætt og farið að hugsa til heimferðar. Höfðum við þá fengið 1173 tunnur. Síðustu driftina drógum við netin inn djúpt út af Aðalvík, en langt hafði rekið um nóttina, út og norður, og fengum við 42 tunnur.
Er drætti var lokið, voru öll segl heist, stórsegl, fokka og klýfir, því komin var norðaustan strekkingsstormur, svo nóg var siglt og vélin látin ganga fullan gang. Vorum við rúmar 5 klst, í mynni Álftafjarðar.
Lagt var af stað heimleiðis frá Ísafirði kl. 3 að nóttu 5. september. Veiðarfærin létum við í land á Dvergasteini. Á Ísafirði tókum við 20 tunnur af fóðursíld (steinolíu-trétunnur, sem tóku um 200 1), er látnar voru í lestina, og höfðum því mátulega stöðvun í bátnum.
Óskar var okkur samferða, en hann hafði fengið 1220 tunnur yfir úthaldið, en dreif allan tímann með 25 net.
Ferðin gekk vel suður með fjörðum og yfir Breiðubugtina, en er komið var að Öndverðarnesi fór að kalda á suðaustan. Þegar við vorum komnir nokkuð suður fyrir Malarrif var kominn stormur, og er við komum sunnar í bugtina, hvínandi rok. Var þá andæft upp í veðrið og varði báturinn sig prýðilega, þó við fengjum eina og eina vonda gusu.
Við Guðmundur í Málmey vorum á vakt með Árna og gætti hann vélarinnar, en við Guðmundur stýrðum til skiptis og héldum uppi luktinni til að lýsa á kompásinn, sem var í stýrishúsþakinu. Var það eina ljóstýran, sem sást ofan þilfars á bátnum, því siglingaljóskerin loguðu ekki hvernig sem reynt var að tendra þau eftir að hvessti.
Áður en við fórum upp á vaktina kl. um 12 um nóttina, langaði okkur mikið í kaffisopa. Fór þá Guðmundur aftur á að sækja kútinn, en ég beið í lúkarskappanum með ketilinn, en illa gekk að hella í hann. Okkur tókst þó að hita kaffið, sem var drukkið með góðri lyst, þó af því væri saltkeimur.
En oft minntumst við Guðmundur á þetta seinna og brostum að.
Veðrið hægði með birtu og komum við til Reykjavíkur kl. 9 um morguninn, en Óskar upp úr hádegi. Hann hafði lagt til á seglum um nóttina, brotið klýfirbómuna og var kominn grunnt út af Mýrum er birti. Heim til Eyja komum við 10. september í norðan golu og bjartviðri. Þá var Óskar með okkur í eftirdragi, því að er við komum austur á móts við Selvog brotnaði milliöxullinn í vélinni, svo við vorum stórastopp.
Um haustið var látin ný 30 hestafla Alfavél í bátinn, sett á hann lunning og hærra stýrishús og kabyssa í lúkarinn. Eina smá skrítlu ætla ég að láta fljóta hér með: Við komum fjórir saman í verzlun á Ísafirði, og var Olsen með og verzlaði hann þar eitthvað. Roskinn maður var við afgreiðslu og spurði hann hvaðan við værum. Ég svaraði honum og sagði sem var, og varð það samtal eitthvað lengra. Að því loknu segir hann eftir nokkra umhugsun: „Já, þið eruð úr Vestmannaeyjum, og talið svona ljómandi góða Íslenzku.“

Mb. Ófeigur II að síldveiðum með blakkarútbúnaði.
M.b. Goðafoss VE 189.