Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1963/ Marinó Guðmundsson: Minning

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Marinó Guðmundsson


MINNING


Marinó Guðmundsson.

Að morgni hins 21. des. s.l. barst mér sú fregn, að Marinó Guðmundsson væri látinn. Mér varð fyrst á að segja að það gæti ekki verið. Ég hafði skilið við hann hressan og kátan seint kvöldið áður. En þetta var staðreynd, sem ekki varð umflúin.
Við fregn sem þessa, þegar einn af manns beztu vinum er tekinn burtu svo fyrirvaralaust, fyllist hugurinn uppreisn gegn því sem við köllum dauða. Og okkur verður þá á að spyrja: Því var hann tekinn, því endilega hann, sem við unnum svo mjög, og mátum svo mikils og fannst vera svo óralangt frá því að vera á förum? Við þessari spurningu finnum við ávallt sama svar: Það er einn sem öllu ræður um hinztu för okkar allra og hans vegir eru órannsakanlegir. Það er huggun harmi gegn, við missi góðs vinar, að minningin um hann lifir.

Um Marinó Guðmundsson eigum við, sem hann þekktum, margar hugljúfar minningar, og geta þessar fátæklegu línur aldrei orðið nema lítilfjörlegt brot af þeim. Í minningunum um Marinó ber hæst þá einstöku mannkosti, sem hann var gæddur. Þar fór saman flest það, sem prýða má einn mann. Hann varð hvers manns hugljúfi fyrir glaðværð sína og hressandi framkomu, hann vann traust og virðingu allra sinna samstarfsmanna til sjó; og lands fyrir dugnað og samvizkusemi við störf sín. Fleira og fleira mætti hér til nefna, sem of langt mál yrði upp að telja.
Marinó Guðmundsson var fæddur að Skógum undir Eyjafjöllum þann 21. júní 1912. Foreldrar hans voru Guðmundur Kjartansson bóndi og kona hans Margrét Bárðardóttir. Þegar Marinó fæddist veiktist móðir hans. Tóku hjónin í Gíslakoti undir Eyjafjöllum hann þá í fóstur. Hjá þeim hjónum, Guðmundi Vigfússyni og konu hans Önnu Jónsdóttur, var hann fram yfir fermingaraldur, en hafði samt alla tíð náið samband við foreldra sína og systkini.

Fljótt eftir fermingu fór Marinó að fara á vertíð hingað út til Eyja og fór fyrir honum, sem svo mörgum sveitungum hans, að hann settist hér að. Snemma þótti hann liðtækur sjómaður og var eftirsóttur í skiprúm. Eftir að hafa verið háseti í nokkur ár gerðist hann formaður. Í því starfi fylgdi honum sama gifta og ávallt áður. Hann þótti gætinn en samt áræðinn og naut verðskuldaðs trausts sinnar skipshafnar.
Ekki þótti honum nóg að hafa öðlazt réttindi til stjórnar á smáum vélskipum, þess vegna tók hann sér árið 1947 sæti á bekkjum Stýrimannaskólans og lauk þar góðu prófi, sem veitti honum fyllstu fiskimannaréttindi.
Strax að loknu námi í Stýrimannaskólanum réðist hann sem háseti á togara Bæjarútgerðar Vestmannaeyja. Á togaranum kynntist ég Marinó fyrst náið og batzt þar með okkur vinátta, sem hélzt til hinztu stundar.

Við störf sín um borð í togurunum, lagði Marinó mikla alúð og gekk að öllu með sín um hressilega dugnaði og lífsgleði, sem honum einum var svo lagið. Þetta fór ekki fram hiá yfirmönnum hans, enda var þess skammt að bíða að nám hans við Stýrimannaskólann kæmi að góðum notum. Hann byrjaði fljótt að leysa af sem stýrimaður, og síðustu útgerðarár togaranna var hann í, stýrimaður. Við, sem unnum undir stjórn hans á þessum árum, minnumst hans með þakklæti og virðingu.
Við minnumst hans mikla áhuga og dugnaðar við störf sín, við minnumst þess að aldrei brustu honum ráð, þegar vandi bar að höndum, við minnumst þess hversu hann lagði sig fram um að leysa hvers manns vanda, við minnumst þess hversu gott hann átti með að koma öllum í gott skap með sinni léttu lund, við minnumst heiðarleika hans og háttprýði við undirmenn sína, og svo mætti lengi telja. En í fáum orðum sagt, við minnumst hans sem manns, sem við allir mátum mikils og bárum virðingu fyrir og traust til.

Þegar togararnir fóru héðan, sagði Marinó að mestu skilið við sjóinn og fór að leggja stund á verzlun. Fyrst í smáum stíl og í hjáverkum. En seinni ár, rak hann umfangsmikla húsgagnaverzlun með syni sínum. Einnig í því starfi nutu mannkostir hans sín, og var hann rómaður fyrir heiðarleik og hjálpsemi.

Árið 1937 þann 2. okt. kvæntist Marinó eftirlifandi konu sinni Önnu Jónsdóttur, frá Siglufirði. Eignuðust þau einn son, Trausta. Eftir stuttan búskap veiktist Anna af þrálátum og illkynjuðum sjúkdómi og hefur átt við mjög mikla vanheilsu að stríða síðustu 20 árin. Má nærri geta, að þessi veikindi hafi verið þeim hjónum þungbær reynsla. Syni sínum varð Marinó að koma í móðurstað, um langan tíma, jafnframt því sem hann rétti konu sinni örfandi hönd í hennar hetjulegu og oft aðdáanlega þrekmiklu baráttu við veikindi sín. Hvað honum tókst þetta hvorutveggja vel, ásamt umfangsmiklum skyldustörfum, held ég að sýni bezt hversu mikill mannkostamaður hann var. Kæri vinur!

Það hafa skilizt leiðir um stund. En það er ljúft til þess að hugsa, að þú stendur á ströndu, handan móðunnar miklu, þegar bátur okkar hinna kennir þar grunns. Við þökkum þér ánægjulega samfylgd. Við sendum konu þinni, syni og systkinum innilegustu samúðarkveðjur.

F. h. nánasta vinahópsins
Sigurgeir Ólafsson