Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1963/ Jón Jónsson, vélstjóri: Kveðjuorð
Hann var fæddur 9. júlí árið 1909 að Steig í Mýrdal, V-Skaftafellssýslu. Dáinn 30. september 1962 í Sjúkrahúsi Vestmannaeyja, vegna afleiðinga höfuðhöggs, er hann hlaut í hrapi í Stóra-Klifi deginum áður. Ævisaga Jóns heitins náði því yfir rösk 53 ár hér í heimi.
Foreldrar hans voru þau hjón Sigríður Þorsteinsdóttir og Jón Þorsteinsson, bóndi í Steig. Þeim varð 9 barna auðið og eru 5 þeirra á lífi, þegar þetta er skrifað.
Jón, sem var í hópi yngri systkinanna, mætir því, aðeins 12 ára gamall, að missa föður sinn. Sigríður varð þá ekkja með allan sinn stóra hóp.
Eins og tímar voru þá, var erfitt að halda hópnum saman. Jón fékk því snemma að kynnast lífinu og örlögum þess. Sú mótun, er barnssál hans fékk við föðurmissinn, sagði til sín í lífi Jóns, því að alvörumaður var Jón og Ieit raunhæft á lífið, vitandi af eigin reynslu, að lífið er eigi eintóm rósaganga.
Það var lán fyrir Jón, er hann komst að Hvoli í Mýrdal til skyldmenna sinna sem unglingur, eftir þá að hafa verið á ýmsum stöðum. Frá Hvoli gekk hann í skóla, þar fermdist hann og átti heimili fram um tvítugsaldur.
Oft minntist Jón heitinn á heimilið að Hvoli, Þekkingu þá og reynslu, sem hann öðlaðist þar í skóla lífsins. Það voru geislar í lífi hans. Frá Hvoli fer Jón í verið, ræðst á vertíð og tekur að stunda sjó hér í Eyjum. Hann vildi lengra en að hleypa heimdraganum. Þess vegna lærir hann mótorfræði og tekur próf. Á þeim vettvangi verður ævistarf hans til hinzta dags, ýmist í landi, á vélbátum og í nærri 20 ár sem vélstjóri á grafskipinu „Vestmannaey“.
Sæti Jóns var vel skipað. Hann var kunnur fyrir áreiðanleik, stundvísi og snyrtimennsku. Komu allir þessir eiginleikar fram í starfi hans til sjós og lands. Jón blandaði ekki geði sínu um hvipp og hvapp. Hann var í eðli sínu hlédrægur. En þeir sem nutu þess að kynnast honum, áttu þar með einlægan vin, sem var tryggðin sjálf.
Í einkalífi sínu var Jón gæfumaður. Hann kvæntist 16. nóv. 1940, Halldóru Jónsdóttur úr Siglufirði. Þeim varð tveggja dætra auðið, Hrefnu, sem nú dvelur við nám í Englandi og Guðrúnar, sem er barn í foreldrahúsum. Jón unni konu sinni og heimili heitt og vel. Þar var hans athvarf og vé. Síðustu 15 árin bjó hann að Hásteinsvegi 50, átti það hús ásamt Bjarna bróður sínum. Þegar ég geng fram hjá húsi Jóns, kenni ég saknaðar og tómarúms. Grimm örlög og hörð, að hann skyldi hverfa svo skjótt á góðum starfsaldri. Kona hans og dætur finna það bezt ásamt systkinunum. Þeim skal því öllum í dag færð innilegasta samúð og beðið blessunar Guðs, sem einn veitir huggun og græðir sár.
Sjómannastétt Vestmannaeyja kveður Jón með þakklæti og virðingu og saknar góðs drengs og liðsmanns í hvívetna.