Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1963/ Framsýn hugsun
Í fyrravor barst formanni S. s. Verðandi eftirfarandi bréf:
Vestmannaeyjum 17. maí 1962.
Skipstjóra- og stýrimannafélagið Verðandi, Vestmannaeyjum.
Úr dánarbúi hjónanna frá Miðey, Valgerðar Sigurðardóttur og Símonar Egilssonar, hafa mér borizt kr. 10.000.00, sem ég sendi félaginu hérmeð, ásamt sömu upphæð frá okkur hjónunum, eða samtals kr. 20.000.00.
Upphæð þessi skal notast til kaupa á kennslutækjum fyrir Stýrimannaskóla í Vestmannaeyjum. Mér hefur fundizt, að of fáir Vestmannaeyingar hafi haft tækifæri eða möguleika á að sækja Stýrimannaskólann í Reykjavík, en með stækkun flotans og síauknum tækjum er brýn nauðsyn að koma hér upp föstum Stýrimannaskóla.
Treysti ég Skipstjóra- og stýrimannafélaginu Verðandi bezt til að vinna að þessu nauðsynjamáli.
Með beztu kveðju,
Stefán Guðlaugsson, Gerði.
Í þessu blaði vill stjórn S. s. „Verðandi“ þakka viðkomandi aðilum þeirra höfðinglegu gjöf.
Því er ekki að leyna eins og fram kemur í bréfi Stefáns skipstjóra í Gerði, að of fáir Eyjamenn hafi Stýrimannaskólamenntun. Þetta gamla og nýja áhugamál hans er því tímabær nauðsyn og á fyllsta rétt á sér, með Stýrimannaskóla hér í Eyjum.
Um leið og við óskum Stefáni gleðilegs sjómannadags með óskum um góða framtíð, með þökk og virðingu, þá leyfum við okkur að benda öðrum á fordæmi Stefáns með gjafir, áheit og framlög, góðu og þörfu máli til framdráttar og sigurs.
Takmarkið er fullkomin aðstaða til skipstjórnarmenntunar hér heima í Eyjum.
F. h. S. s. Verðandi,
Friðrik Ásmundsson