Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1962/ Hávarður Ásbjörnsson, skipstjóri

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Hávarður Ásbjörnsson


Skipstjóri


Loftskeytastöðin í Vestmannaeyjum tilkynnir samtal frá einum af fiskibátum Eyjaflotans. Samtalsefnið er að láta vita um skyndileg veikindi eins skipverjans og að leita læknisráða og tilkynna komu bátsins í land að stuttum tíma liðnum. Aðspurður um það, hver sé veikur, svarar skipstjórinn dræmt, „það er Dengsi", en það var gælunafn Hávarðar Ásbjörnssonar, sem á þessum tíma var stýrimaður á „Hildingi". Kvíði grípur um sig meðal ættingja og vina og samstarfsmanna, og þegar báturinn kemur að landi nokkru síðar og læknir og sjúkrabíll bíða á bryggjunni, þá er Hávarður látinn, hafði orðið bráðkvaddur af hjarta-slagi. Það er stutt bilið á milli lífs og dauða og þau eru torskilin hin duldu rök sem sköpum renna. Hávarður Ásbjörnsson var fæddur í Vestmannaeyjum 2. febrúar 1934 og lézt mitt í dagsins önn, svo er að framan greinir, 12. febrúar s.l. Hávarður var sonur hjónanna Jóhönnu Guðmundsdóttur og Ásbjörns Þórðarsonar skipstjóra, sem nú fyrir nokkrum árum hefur látið af sjóferðum, og ráðið þannig skipi sínu til hlunns og stundar nú netagerð. Hávarður ólst upp í foreldraranni í Eyjum í hópi glaðra systkina og hlaut í vöggugjöf skapstyrk og manndóm foreldra og ættmenna og gerðist strax og orkan leyfði virkur þátttakandi í fjölbreyttum framleiðslustörfum til lands og sjávar, stýrði um árabil bifreið þótt hugurinn beindist að sjómennsku, sem varð aðalævistarf hans. Auk venjulegrar almennrar menntunar lærði Hávarður vélgæzlu og lék þar allt í höndum hans vegna þess hve verklaginn og úrræðagóður hann var, og á s.l. hausti hóf Hávarður nám undir fiskimannapróf hið minna og hafði nýlega lokið skipstjóraprófi og ráðizt sem stýrimaður þegar dauðinn kom óvænt og fyrirvaralaust og klippti lífsþráðinn. Hávarður var miðað við ungan aldur víðförull í sambandi við sjóferðir sínar, hafði bæði ferðazt til nágrannalandanna og Suðurlanda og safnað sér þekkingu og reynslu á þeim ferðum og stækkað sjóndeildarhringinn, og framundan virtist bíða aukinn frami og fyrirhuguð skipstjórn. Hávarður var meðalmaður á vöxt, vel vaxinn og snöggur í hreyfingum, fríður maður, svo sem hann átti kyn til, og bauð af sér góðan þokka, vinsæll og vinfastur. Árið 1958 giftist Hávarður eftirlifandi konu sinni Eddu Andrésdóttur, geðþekkri fríðleikskonu, sem bjó manni sínum vistlegt og ánægjuríkt heimili. Áttu þau einn son. Á stuttri ævi hafði Hávarður afkastað miklu og góðu dagsverki og í hópi ættingja, vina og samstarfsmanna geymist minning um góðan dreng. H.B.