Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1961/ Guðjón Ármann Eyjólfsson, sjóliðsforingi

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Guðjón Ármann Eyjólfsson


Sjóliðsforingi


Á síðasta ári lauk ungur Íslendingur sjóliðsforingjaprófi í Danmörku. Það má fremur teljast til nýlundu, því að þeir eru teljandi á fingrum annarrar handar, sem það hafa gert. Námsbraut sjóliðsforingjaefnis er erfið, enda þótt mönnum kunni að finnast nokkur „rómantískur“ glans yfir heitinu sjóliðsforingi. Þessi ungi Íslendingur er Guðjón Ármann Eyjólfsson frá Bessastöðum í Vestmannaeyjum. Hann er sonur hinna kunnu hjóna, Guðrúnar Brandsdóttur og Eyjólfs Gíslasonar, og er óþarfi að kynna þau nánar. Eyjólfur hefur um nokkurra áratuga skeið verið í röð hinna fremstu formanna hér, aflamaður góður, athugull og greindur vel, en kona hans, Guðrún, frábærlega listfeng hannyrðakona, svo sem ljóst má vera öllum þeim, er gist hafa heimili þeirra.

Ármann er fæddur og uppalinn í Eyjum, og hér hlaut hann sína fyrstu skólagöngu. Að afloknu barnaskólaprófi settist hann í Gagnfræðaskólann haustið 1948, og lauk landsprófi vorið 1951 með mjög góðri 1. einkunn. Hóf hann síðan nám í Menntaskólanum í Reykjavík og sóttist það vel. Lauk hann stúdentsprófi vorið 1955 við góðan orðstír.
Þá þegar mun Ármann hafa ákveðið að hefja nám í sjómannafræðum og afla sér þeirrar menntunar, sem þar er mesta að fá. Til undirbúnings þessu námi las hann stærðfræði utanskóla einn vetur og lauk árið eftir stúdentsprófi í stærðfræði, en hann hafði áður setið í máladeild. Vann hann jafnframt nokkuð að undirbúningi framhaldsnáms að öðru leyti með aðstoð Péturs Sigurðssonar, forstjóra Landhelgisgæzlunnar, sem sjálfur hefur lokið sjóliðsforingjaprófi. Hvarf hann síðan utan til náms, og prófum lauk hann síðla árs 1960.
Um nám Ármanns ytra kann ég ekki mikið að segja utan það, að skólinn var strangur. Það er ávallt miklum örðugleikum bundið að hefja nám við erlenda skóla, en ekki er það síður erfitt við það nám, sem Ármann valdi sér. Það er trúa mín, að útlendingum sé ekki hampað umfram verðleika á þeim vettvangi fremur en öðrum, nema síður væri.
En hvað um það. Ármann stundaði nám sitt af kappi og stóðst öll próf. Hvert stigið af öðru skilaði honum áfram. Hann fór með skólaskipum vítt og breitt, kom til Ameríku og til „suðrænna sólarlanda“, og kannaði í mörgu nýjar slóðir. Með hverjum mánuði skilaði nokkuð áleiðis, unz komið var að lokaáfanga, síðasta prófinu, sem veitti rétt til aðmírálstignar — ef um hana var að ræða heima á Fróni. Að námi loknu og öllum prófum vel og farsællega afstöðnum, hélt Ármann heim til Íslands, og hér heima hefur hann nú gengið í þjónustu Landhelgisgæzlunnar. En áður en það yrði, þurfti viðurkenningu íslenzka löggjafans, Alþingis, á prófum Ármanns. Fyrir síðasta þingi lá tillaga um viðurkenningu á prófum hans og rétt til starfa á Íslandi. Að sjálfsögðu var þessi viðurkenning veitt, og hefur Íslandi þannig bætzt styrkur liðsmaður, sem mikils má af vænta í framtíðinni.
Heill og hamingja fylgi Ármanni í öllum störfum hans á sjó og landi um alla framtíð.

Vinur.