Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1961/ Aflakóngurinn 1961: Rabbað við Binna í Gröf

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
SIGURGEIR KRISTJÁNSSON:


Aflakóngurinn 1961


Rabbað við BINNA Í GRÖF


Þú veizt Benóný, að ég er kominn til að rekja úr þér garnirnar, það er að segja sendur til þess fyrir Sjómannablaðið.
Já, ég kannast við það, en það er bara búið að gera það svo oft áður, að það fer nú að verða lítið eftir. Þetta er í sjöunda skiptið sem ég er aflahæstur á vertíðinni hér, að vísu ekki í röð, en það er í sjöunda skiptið.
Og hvað fékkstu mikinn afla í vetur?
Það eru 620 tonn og hásetahluturinn er 42.600 kr. Einhverntíma hefur þú nú fengið meira. Línuvertíðin tapaðist og það munar um hana, ég hefi að undanförnu fengið 250 til 300 tonn af línufiski.
Hvernig fórstu svo að því að komast svona langt fram úr hinum?
Ja, ég fór austur og var þar í fjóra daga, en leizt ekki á það, fór vestur og fann þá fiskisvæði á góðum botni innan við Selvogsbankahraunið. Var þar lengi einn. Svo þegar hinir bátarnir fóru að koma var fiskurinn að ganga á hraunið.
Mikið netatjón hjá þér?<br Nei, ég hef kannske tapað fjórum teinum, en það er varla hægt að telja það. Ég eyddi meira af netum í fyrra en fiskaði þá líka heldur meira. Þegar ég legg á vondan botn, reyni ég að láta trossurnar liggja uppi í strauminn, því það er vont að draga hliðhallt. Það er slæmt að þurfa að stöðva drátt á vondum botni, þá fer bátinn að reka og þá slæst netið undir snaga í hrauninu. Það væri góð regla, þar sem margir bátar eru á takmörkuðu svæði ef allir leggðu í sömu stefnu. Á Selvogsbanka er straumstefnan frá norðvestri til suðausturs og gagnstætt.

M.b. Gullborg RE 38 og Benóný Friðriksson frá Gröf, aflakóngur 1961.

Hver heldur þú að sé orsök aflabrestsins í vetur? Er stofninn að ganga til þurrðar?
Ég held að það sé ekki ástæða til að örvænta. Það virtist hafa verið hér óvenjumikill þorskur á línuna, a. m. k. meiri en undanfarin þrjú ár. Svo komu ósköp af loðnu, sem gekk óvenjulega djúpt. Þar hafði fiskurinn nóg æti, svo hann þurfti ekki að þjappa sér inn á grunnslóðina eins og hann gerir þegar loðnan gengur vestur með landinu. Það var alls staðar fiskur, en hann stóð dreift. Mér fannst vera mikill fiskur, þar sem við vorum 32 til 34 mílur vestur af Eyjum.
Annars held ég að netaveiði á hraununum fari illa með stofninn. Það má rekja slóðina eftir netin hérna við Eyjar. Það var byrjað við Bjarnarey og Manklakk. Síðan var farið á Hryggina, að Einidrang og á Þjórsárhraunið. Alls staðar byrjaði þetta með óhemju fiski en nú eru þetta dauð hraun. Svo var óhemju fiskirí á Selvogsbanka, þegar netin voru lögð þar fyrst og nú er hann að verða búinn. Við eigum að friða hraunin fyrir netum. Það eru líka ný viðhorf að skapast með útfærslu landhelginnar. Áður hafði maður engan frið með netin annars staðar en á hraununum. Já, það er eins með fiskinn eins og farfuglana. Þeir koma að hreiðrinu sínu á hverju vori. Verði þeim lógað í sumar, kemur enginn fugl að því næsta vor.
Hvernig líkar þér við fiskmatið?
Vel, við höfðum góðan fisk. Það kom greinilega fram að mannskapurinn hafði óvenjumikinn áhuga fyrir að fara vel með fiskinn. Það er mikilvægt atriði.
Heldurðu að nælonnetin veiði lengi ef þau slitna niður?
Þau veiða meðan þau haldast uppi.
Hvað ætlarðu að gera í sumar?
Fer á troll eins og í fyrra. Þá fengum við 500 tonn yfir sumarið, sex og sjö menn. Það gerði vertíðarhlut.
Jæja Benoný, við megum víst ekki hafa þetta öllu lengra. Og ætli ekki að það sé komið nóg.
Ég þakka fyrir móttökurnar, sendi frúnni þakklæti fyrir kaffið og svo kveð ég kónginn.