Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1958/ Minning Eyjólfs Sigurðssonar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Minning


Eyjólfs Sigurðssonar


Fæddur 25. febr. 1885. Dáinn 31. des. 1957


Í lok þessarar vertíðar hrósum við Vestmannaeyingar happi yfir þeirri miskunn, að allir starfandi sjómenn náðu heilir í höfn eftir langa og harðsótta vetrarvertíð. Skuggalaus er þó minning vetrarins ekki, þar sem fjórir borgarar Vestmannaeyja týndu lífi sínu í sjó innanhafnar.
Hættan var að þessu sinni ekki fyrir sunnan Sker, undir Sandi eða austur á Ledd, sem þó hefði verið ríkari ástæða til að halda. Heldur við bæjardyr okkar eins og sérhvers er þessa byggð byggjum. Ætti það að tala til okkar allra, að „milli mín og dauðans er einungis eitt fótmál“.
Einn þessara fjögurra var starfandi sjómaður hér í Eyjum um mörg ár, Eyfi í Laugardal, eins og við nefndum hann daglega. Sjómannsferil sinn hóf hann 14 ára gamall, er hann fór undan Eyjafjöllum suður í Hafnir að hausti til og réðist þar til sjóróðra. Var hann þar einnig árið eftir. Þriðja árið, eða er Eyjólfur var 16 ára, réðist hann til Eyja og til Jóns í Gerði og réri með honum. Síðar með Magnúsi í Dal. Er Magnús hætti formennsku með Karl tólfta, tók Eyjólfur við bátnum og hóf þar með formannsferil sinn, er varaði um mörg ár. Jafnframt tók Eyjólfur þátt í útgerð og var með báta bæði fyrir sig og aðra. Eyjólfur var áhugasamur og fengsæll dugnaðarformaður.
Síðari árin stundaði Eyjólfur trésmíðar, nam þá iðn og tók sveinsbréf. Var ætlun hans að vinna við smíðar síðasta daginn er hann lifði. Í bát, niðri við höfn.
Fyrir nokkrum árum var Eyjólfur sálugi að vinna við annan mann uppi á húsþaki Þinghóls hér í bæ. Svo slysalega vildi til, að báðir duttu niður fall mikið. Eyjólfur missti meðvitund og slasaðist mikið. Lá rænulaus viku og var ekki hugað líf. Kraftaverk skeði. Eyjólfur hresstist og náði heilsu, gekk til starfa að nýju sem heill maður.
Enginn má sköpum renna. Annað fall mikið lægra kom fyrir Eyjólf á gamlársdag í vetur. Þá féll hann í faðm Ægis og drukknaði. Nærri 73 ára endaði þessi hægláti maður lífsgöngu sína. Sjómannastétt Eyjanna blessar minningu hans og vottar konu, börnum og ástvinum samúð sína.

Einar J. Gíslason.