Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1956/Komið við í Breiðafjarðareyjum: Svipmyndir úr Vesturlandsferð

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


HARALDUR GUÐNASON


Komið við í Breiðafjarðareyjum


Svipmyndir úr Vesturlandsferð.


Við erum á leið vestur, tíu manna hópur undir handleiðslu hins landskunna ferðamanns, Hallgríms Jónassonar. Við fórum í áætlunarbíl vestur í Stykkishólm, en þar bíður okkar flóabátur og hann flytur okkur í næsta áfanga- og næturstað: Flatey á Breiðafirði.
Breiðifjörður var spegilskyggður, svo jafnvel landkrabbi eins og ég hugði gott til ferðarinnar „út í eyjar“.
Á leið til Flateyjar gerðist ekkert frásagnarvert. Menn spjölluðu saman eins og gerist í góðum félagsskap og virtu fyrir sér hina fögru fjallasýn umhverfis Breiðafjörðinn. Loks sáum við hilla undir lága eyju. Það var Flatey. Við komum þangað eftir tveggja og hálfrar stundar ferð.
Við göngum heim að gistihúsinu og snæðum kvöldverð. Á eftir reisum við Óskar Sigurhansson tjald okkar á sléttri flöt fyrir sunnan gistihúsið. Lognkyrrðin og veðurblíðan freistuðu til útivistar, fremur en sofa í húsum inni. Kvöldkyrrðin er dásamleg, fuglakvak og friður. Það er engu líkara en maður sé allt í einu laus úr tengslum við allan skarkala og hávaða og allt þetta taugaæsandi kapphlaup um allt og ekkert, er virðist í vaxandi mæli einkenna líf okkar. Við skjóta yfirsýn virðist manni þetta vera Il Paradiso, sælueyja. Það er eins og enginn þurfi að flýta sér. Hér og þar eru menn að slá túnbletti. Svo leggja þeir frá sér orfið og labba til nábúans. Og svo setjast þeir á ilmandi flötina, taka tal saman og taka í nefið. Ekkert liggur á: Hér þurfa fáir að flýta sér.
Kannske hefur enginn lýst Flatey betur en Nóbelsskáldið íslenzka, Halldór Laxness: „Það var að morgni dags snemma í júní. Eg steig þá í fyrsta sinn á land í þessari yndisey þar sem öll mannaveik höfðu yfirbragð fortíðarinnar, en náttúran svip hinnar eilífu fegurðar. Æðarkollurnar litu vingarnlega til mannanna og það var næstum hægt að taka þær í fang sér. Mér hefur alltaf síðan fundizt hér ríkja annað tímatal en í öðrum hlutum heims; að þessi ey sé utanvið almanakið. Alltaf þegar eg stíg á land í Flatey síðan finn eg þessa eilífðarkennd, það er kannski af því eg var svo ungur þegar eg kom hingað fyrst, að mér fannst eg sjálfur vera eilífur . . .“ Um kvöldið slóst Sveinbjörn Guðmundsson, kennari og fræðimaður, í fylgd með okkur. Hann og Kristján Skagfjörð rifja upp minningar frá þeim gömlu góðu dögum, er Flatey var helzti verzlunarstaður við Breiðafjörð og eitt höfuðvígi menningar vetstanlands.
Þá orti Hallgrímur:

Það er eins og æsku strengur
ómi mér frá sól og vori:
„Þú ert ungur eyjadrengur,
ólgar líf í hverju spori.“

Að lokinni þessari skemmtilegu kvöldgöngu um eyna bauð Sveinbjörn okkur í hús sitt, er ber hið sérkennilega nafn Alheimur. Sýndi hann okkur hið stórmerka myndasafn sitt af Breiðfirðingum, ungum og gömlum, lifandi og látnum. Þetta var eiginlega kennslustund í breiðfirzkri persónusögu. Myndirnar sýndu svipmikið fólk og djarflegt, enda aldrei heiglum hent að búa í Breiðafjarðareyjum.
Laust eftir hádegi næsta dag var lagt af stað í Oddbjarnarsker. Þangað er um klukkustundar ferð frá Flatey á vélbáti.
Við höldum nú í suðvestur, sjóinn gárar ekki, ferðafólkið er í sólskinsskapi. Kristján og Sveinbjörn eru með í förinni, orðnir ungir í annað sinn, að minnsta kosti í anda, og enn láta þeir hugann reika til liðinna daga.
Bátnum miðar drjúgum þó lítill sé, og að klukkustund liðinni lendum við í Skerinu, sem er lágur grashólmi, 200 m. langur og 100 m. breiður; vestustu grös í Flateyjarhreppi, en einungis melgras.
Fjörugrjótið nær alllangt út frá hólmanum, og sérkennilegt þótti okkur, að þar sem við lentum var hverhola í flæðarmálinu.

ctr


Róðrarsveit Reynis. Sigurvegarar 1955.



Skerið á merka sögu að baki. Úr því voru útróðrar stundaðir öldum saman, því stutt var að sækja þaðan á hin beztu fiskimið. Hingað sóttu menn úr fimm hreppum, reistu sér búðir og sóttu fast sjó. Árni Magnússon telur, að nokkuð á fjórða tug báta hafi róið úr skerinu árið 1703. Nú eru sjóbúðarrústirnar einu minjarnar um gamla tímann og hina breiðfirzku kappa, sem lifðu hér sínu frumstæða lífi. Við staðnæmumst við búð Snæbjarnar í Hergilsey og hugurinn hvarflar til þess tíma, er Snæbjörn hefur lýst svo vel í minningum sínum.
Eftir nokkra dvöl er haldið úr Skerinu og stefnt norðanvert við Flatey. Ferðinni heitið í Hvallátur. Nú er gaman að ferðast á Breiðafirði, glaða sólskin og sjórinn eins og heiðartjörn.
Hallgrímur fararstjóri mælti eftirfarandi vísu af munni fram:

Brosir sól um byggð og skörð,
blika sundin fagurgjörð.
Meðan erum ofar jörð
allir muna Breiðafjörð.

Í Hvallátri hefur fáni verið dreginn að hún, er farkostur okkar nálgast eyna. Við skjótum út báti og skundum í land. Reisulegt íbúðarhús stendur skammt frá bátanaustinni. Bóndinn, Jón Daníelsson, býður okkur að ganga í bæinn. Var okkur borinn matur og drykkur af hinni mestu rausn, og er við vildum sýna lit á, að greiða framúrskarandi veitingar, kváðu húsbændur að gestum væri ekki seldur beini í bæ þeirra, og mundi sá siður eigi verða upp tekinn við komu okkar.
Meðan við sátum að veizluborði í Hvallátrum, gekk gömul kona í stofuna og studdist við staf. Þessi kona var Kristín Guðmundsdóttir, hálfsystir Jóns Sveinssonar, höfundar hinna vinsælu Nonna-bóka. Svipur hennar lýsti gáfum, og allt fas hennar tiginmannlegt og fágað. Mikil ánægja var henni að hitta meðal okkar sinn góða vin, Skagfjörð. Einhver í hópnum leiðir talið að hinum fræga landa, bróður hennar.
— Jón bróðir skrifaði mér alla tíð, segir Kristín. Það var gaman að bréfunum hans. Hann skrifaði mér margt skrýtið frá útlöndum, sérílagi frá Japan. Margir undarlegir siðir þar. Og Kristín hló við. En allt í einu er hún komin í djúpar samræður við ungfrú Munck, danska stúlku, er var í fylgd með okkur. Kristín talar dönskuna með ágætum, þó komin sé fast að níræðu.
En nú verðum við að kveðja Kristínu og húsbændur í Hvallátrum.
Er nú haldið til Svefneyja. Við eigum þar stutta dvöl því nú er áliðið dags og ófarið í næturstað á Barðaströnd. Búsældarlegt er í Svefneyjum, enda ein bezta eyjajörð á öllum Breiðafirði. Þar hafa jafnan búið dugandi bændur og miklir aflamenn.

Komnir að marki.

í Svefneyjum hittum við konu, er skorti aðeins fjögur ár til að hafa lifað heila öld. Hún var á gangi úti fyrir, er okkur bar að garði, þessi breiðfirzka kjarnakona, bogin í baki af áratuga striti. Nafn hennar var Guðrún Torfadóttir. Á unga aldri bjó hún í kofa suður á eynni, ásamt nöfnum sínum tveimur. Er hún var ellefu ára eignaðist hún hrognkelsanet og veiddi í það af mikilli kostgæfni.
Við áttum stutt samtal við hina háöldruðu konu um lífið í gamla daga hér við Breiðafjörðinn.
— Ég réri nú 14 vertíðir hérna í Bjarneyjum og Oddbjarnarskeri, 11 vorvertíðir og 3 vetrarvertíðir. Það er margt orðið breytt núna, segir Guðrún.
— Þegar ég var fimmtán ára var ég kaupakona hjá honum Jochum í Skógum, föður hans Matthíasar. Og tuttugu og fimm ár var ég vinnukona hjá honum Torfa í Ólafsdal. Hann var bezti húsbóndi sem ég hef átt, sagði Guðrún gamla.

Við kveðjum Gnðrúnu og Svefneyjabóndann. Tíminn leyfir ekki lengri dvöl. Þessi skyndiheimsókn í Breiðafjarðareyjar hefur orðið mikill viðburður í lífi okkar ferðalanganna. Og ekki sízt fögnum við því, að hafa átt þess kost að kynnast síðustu fulltrúum hinna gömlu Breiðfirðinga, er gerðu garðinn frægan.