Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1954/ Úr djúpi minninganna

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
ÞORSTEINN JÓNSSON, Laufási


Úr djúpi minninganna.


Þótt margt hafi tekið miklum breytingum til sjávar og sveita á liðnum áratugum, og flest til hins betra, hvað líðan og getu þjóðarinnar snertir, þá er þó ýmislegt, sem þeir sakna, er langa ævi eiga að baki, en geyma þó hlýjar minningar um. En flestir, eða nær allir yngri menn og konur, gjöra sér litlar hugmyndir um, hvernig ástandið var hér á landi í tíð formæðra þeirra og feðra, veldur þar miklu um hinar stórkostlegu byltingar, sem orðið hafa hér á flestum sviðum, og færast fyrst að ráði í aukana, þá að aldamótum líður.
Þar sem þessi grein er skrifuð fyrir Sjómannadagsblað Vestmannaeyja ætla ég að minnast lítilsháttar á hinar miklu stórfiskagöngur, sem stundum voru hér við strendur landsins, og þá ekki hvað minnst hér við Vestmannaeyjar. Þó voru víst miklar sveiflur á þessum göngum eftir árum og árstíðum.
Það vakti aflavonir í brjóstum hins oft langsoltna lýðs hér í Eyjum, á síðustu tugum liðinnar aldar, þegar hvalablástrar fóru að sjást hér í kring, því flestum var kunnugt, að þá mundi þorskurinn einnig kominn að ströndum landsins, því hann lifir á sömu fæðu og sumir hvalir lifa mikið á. Menn veittu athygli á þessum árum því, sem minna bar á, en andstrokum fleiri hundraða þessara haftrölla, sem stóðu 4—7 metra í loft upp, og héldust nokkuð lengi í köldu veðri, og oft var kuldinn nógur á seinni árum síðustu aldar.
Þegar þess er gætt, hve menn á þessum árum mikluðu mjög fyrir sér stærð hvalfiska yfirleitt, því oft var talað um tíræða hvali, var þá átt við, að þeir væru 100 álnir að lengd, bendir til þess atvik það, sem nú skal greint.
Það var eitt sinn, þá heldur lítið skip var á sjó úti fyrir Sandinum í Landeyjum, að skipverjar sáu nokkur stórhveli. Óskaði þá einn hásetanna, að tíræð steypireyður væri komin í bátinn. Og væri með þrítugan kálf í burðarliðnum, gall þá annar við. „Segðu nú það, Brandur minn“, varð þeim þriðja þá að orði. „Segðu það nú, Brandur minn“, var haft síðan að orðtæki, ef vitleysan á einhvern hátt þótti ganga úr hófi fram.
Þessi ímyndaða stærð á hvölum var ekki neitt sérstakt fyrir sjómenn hér á Suðurlandi, því Jón lærði getur þess í hvalalýsingum sínum, að veiðzt hafi steypireyður, sem var þrettán tigi álna, eða 260 fet. En af þeim mikla fjölda hvala, sem veiðzt hafa í suðurhöfum, var stærsta steypireyðurin, sem menn vita til, veidd við S. Georgíu, og var 107 fet á lengd, og hefur vigtað ca. 160—180 tonn.
Hér í norðurhöfum verða stærstu steypireyðar ekki nema 90 fet á lengd og þunginn 70—80 tonn, og er það sæmilegur kroppþungi, en þrátt fyrir hann er vöðvaaflið svo mikið, að þær geta þurrkað sig upp úr sjónum, og komið hefur fyrir, þá þær hafa ekki verið helskotnar, að þær hafa dregið hvalabátana á annan sólarhring með miklum hraða, þrátt fyrir að þeir hafa streytzt á móti, með öllum hestaflafjölda sínum.
Af þessari stuttorðu lýsingu, sem er að mestu úr bókinni „Spendýrin“ eftir Bj. Sæmundsson, var sízt að undra þótt ýmsum væri ekki um sel, að vera á opnum smábátum innan um mergð þeirra. Þó lét Einar nokkur, sem kallaður var „stóri“, sér ekki meira bylt við verða, þá stórfiskur mikill renndi sér fast meðfram bát þeim, sem hann var á, að hann sagði: „Það vildi ég, að beizli væri komið upp í þig og ég á bak þér“.

Kvennaflokkurinn, sem þátt tók í reiptoginu 1953.


Komið gat það fyrir, að hvalavaður væri svo mikill, að bátar urðu að forða sér í land. Man ég þannig, að hingað út í Eyjar spurðist með Landeyingum, sem hingað komu í verzlunarerindum, að afli mikill væri við Þrídranga, en hvalagengdin svo, að ekki væri þar viðvært.
Eyjamönnum þótti það ótrúlegt, að ekki væri fært að draga fisk, þótt nokkrir hvalir væru á sveimi. Voru því mönnuð tvö skip til Drangaferðar, annað var „Fortúna“, sexróin, og „Blíða“, áttróin, formaður með hana í þessa ferð var, að mig minnir, Sigurður Sigurðsson, afi Ólafs Vestmanns, hann var þá vinnumaður hjá Gísla Stefánssyni í Hlíðarhúsi, en hann var eigandi „Blíðu“ að mestu.
Þótt Landeyingar hefðu stundað Drangaferðir um aldaraðir, (samanber, að Krosskirkja átti sölvafjöru í Þrídröngum eftir fornum máldögum) var það sjaldan, að Eyjamenn færu þangað til aflafanga, nema til fýla. Það þótti langt að sækja þangað og lá illa við austanáttinni, en sérstaklega vegna þess, að það var aðallega lúða, sem þar aflaðist, en Eyjabúar þurftu ekki að sækja hana langt um þessar mundir.
Það var í tólftu viku sumars, að til Dranga var farið af Landeyingum, voru þessar ferðir stundaðar af kappi, ef sjódeyður héldust, var oft mikið, sem barst á land, og dreifðist um framanverða Rangárvallasýslu, því nýr fiskur var þá sjaldgæfur til sveita, eins og hann kann að vera þann dag í dag.

Á Sjómannadaginn 1953.


Það hefur að líkindum verið 1888, að sú Drangaferð var farin, sem ég hefi hér minnzt á, en það var óvanalegt, að farið væri til fiskjar á vertíðarskipum að sumarlagi, vakti því þessi ferð töluverða eftirtekt, og ekki sízt fyrir það, að þeir sem í förina fóru, útbjuggu sig með nesti, en slíkt þekktist þá varla, nema farið væri í hákarlaferðir.
Lagt var á stað að kvöldi dags, en ferðin var hvorki löng né fengsæl, því bæði skipin komu aftur að morgni, og sögðu menn sínar farir ekki sléttar, því hvalamergðin var svo mikil, að þeir misstu mörg færi í hvölunum, en að missa færi, öngul og sökku, sérstaklega blýsökku, var hreint ekki svo lítill skaði á þessum árum, hefur þá kostað fleiri daga vinnu, þar að auki þótti ekki hættulaust að vera innan um allan þennan stórfiskavað, þrátt fyrir þótt skipin væru tvö.
Það var í þessari ferð, að sá mæti dugnaðarmaður, Pétur Benediktsson bóndi í Þorlaugargerði, sagði, þá hvalur sleit af honum færið: „Væri ég í heldri brók, skyldi ég fara á eftir þér, helvítið þitt“. Þótti þetta hraustlega mælt, enda varð hann sjaldan orðlaus á hverju sem gekk.
Að stórfiskar gætu verið bátum og mönnum hættulegir var öllum ljóst, þó kom ótrúlega sjaldan fyrir, að sök kæmi, þegar athugað er, hve fjöldi þeirra var oft mikill. Sú var trú manna, byggð á langri reynslu, að af steypireyðum stafaði engin eða lítil hætta, en ýmsar aðrar minni hvalategundir voru taldar hreinustu illhveli.
Illræmdastur af þeim var hinn svo kallaði „Léttir“, sem oft sást hér í kringum Eyjarnar, en veldur mönnum nú ekki neinum ótta á móti því, sem átti sér stað meðan farkostur manna voru mest opnir litlir árabátar.
En hvaða fiskur er „Léttir“? í fyrrnefndri bók „Spendýrin“, þar sem þó er lýst nákvæmlega öllum þekktum hvalategundum hér í norðurhöfum, er „Léttir“ ekki talinn sérstök tegund, en frá því skýrt, að hrafnreyðurin sé nefnd „Léttir“ við Faxaflóa, að hún eigi til að vippa sér upp úr sjónum, ef sá gállinn sé á henni, einnig reyni hún að færa í kaf fljótandi hluti. Þess er ennfremur getið í sömu bók, að háhyrnur hafi stokkið yfir smábáta. Mætti því ætla, að það sé einmitt hún, sem stundum sést stökkva upp úr sjónum hér við Eyjar, og það ekki einu sinni heldur oftar, hefi ég eitt sinn séð hval af líkri stærð og lit, stökkva sex sinnum í röð, og þurrkaði sig alveg við sjóinn í fjögur skipti, en síðast kom hann aðeins hálfur upp úr sjónum. Þetta var ekki hrafnreyður, því liturinn var öðruvísi, en liturinn á þessum fiski líktist meira háhyrnu.
Af flestum var talið líklegt, þá Bjarni bóndi Ólafsson frá Svaðkoti fórst, 16. júní 1883, að stórfiskur hefði grandað bátnum, sem rak á land fullur af sjó, með lík sonar hans skorðað í bátnum, en þeir voru fjórir, sem lífið misstu við þennan atburð, sem var enn átakanlegri fyrir það, að Bjarni og kona hans höfðu þá á Hvítasunnudag sama sumarið, misst þrettán ára gamlan son, sem hrapaði í Ofanleitishamri, svo að forlögin urðu ekkjunni, Ragnheiði Gísladóttur, ærið grimm, en hún sat eftir með þrjár dætur kornungar.
Nokkru síðar en þetta gjörðist, var stórfiskur rétt búinn að granda bát, er „Sjósvala“ hét, eigandi hennar var Engilbert Engilbertsson í Jómsborg. Þó nú sé að mestu fennt yfir þennan atburð, varð hann sumum þeim, er á bátnum voru svo minnisstæður, að þeir biðu þess seint bætur. En ég þykist muna það rétt, að Guðmundur Ögmundsson, sem lengi bjó í Borg, afi þeirra Litlabæjarbræðra, hafi sagt mér, að hvalurinn hafi ráðizt á bátinn, því hann komst svo að orði: „Þá kom þessi déli með gapandi ginið“. En hvernig svo sem þessu var háttað, þótti það ganga kraftaverki næst, að þeir, sem á bátnum voru, skyldu lífi halda.
Vetrarvertíðína 1896 var ég hálfdrættingur hjá Hannesi Jónssyni á „Gideon“. Þessa vertíð var mikið um hval hér við Eyjar; eitt sinn komum við undan „Sandi“, var það hvasst af austri, að rif hafði verið tekið í afturseglið, og öslaði skipið áfram.

Handbolti kvenna á Stakagerðistúni á Sjómannadaginn.


Þá er kom út að Elliðaey, var svo mikið um stórfisk, að Hannes kallaði til þeirra, sem fram á voru, að gæta vel að þeim, en þrátt fyrir þó þeir hlýddu þessu, renndi „Gideon“ á einn gerðarlegan, sem var að koma upp úr sjónum, tók um það gang af skipinu, hefur því höggið, sem hvalurinn fékk, verið mikið, en hann brá sér hvergi, að heitið gæti.
Hannes var allbyrstur, þótti framámenn hafa daufa sjón. En Ögmundur í Landakoti, sem var stafnbúi, svaraði því til, að útgerðin yrði að skaffa þeim súluaugu, því sín augu sæju aðeins það, sem ofansjávar væri. En það var trú manna, að súlan sæi í botn á sextugu dýpi.
Eftir að búið var að setja skipið í hróf úr hér umgetnum róðri, og talið barst að því, hve hvalurinn hefði lítið kippt sér upp við ásiglinguna, sagði Hannes: „Það kom sér fyrir okkur, að það var steypireyður, hefði það verið „síldreki“ hefðum við ekki þurft að vera að rembast við að setja hann „Gideon“.
Það mun hafa verið 1883, að Norðmenn hófu hvalveiðar hér við land, settu þá upp hvalastöðvar á Vestfjörðum. Þegar leið að aldamótum höfðu þeir útrýmt hvalnum svo frá Vestfjörðum, að þeir fóru að drepa hann hér við Suðurland, og létu flutningaskip draga þá héðan til Vestfjarða. Aðallega héldu þeir sig hér við veiðar í júlímánuði, mátti þá sjá margan gerðarlegan skrokk, því þeir stjóruðu þá fyrst hér á Víkinni.

Skrúðganga á sjómannadaginn 1953.


Oft lágu í einu allt að tuttugu. Ekki man ég þá að dráttarskipin færu með færri með í ferð en 12— 15 spásséraði oft hægt, þó ekki væru fleiri í togi. Eitt sinn hvessti af austri, slitnuðu þá tveir upp, og ráku upp í Hörgseyrina. Strax var farið að skera þá eftir skipan sýslumanns. En hvalabátur sá, sem átt hafði hvalina, gjörði ítrekaða tilraun að koma vír í þá, til að hala þá á flot aftur, munaði litlu, að Norðmennirnir dræpu sig við þessar tilraunir.
Ekki man ég betur, en að þessir blessaðir bræður okkar, hegðuðu sér svipað og annarra þjóða menn, sem fanga leituðu hér við land á þessum árum, drápu hvalina jafnt innan landhelgi sem utan, enda hafa hinar stóru steypireyðar, sem mest voru eftirsóttar, naumast sést hér við Eyjar síðan.
Aldamótaárið réri ég fyrst á Seyðisfirði. Var þá mjög blómlegt atvinnulíf þar; í firðinum var mikil síld. Í júlí var svo mikil hvalgengd á venjulegum fiskimiðum, að helzt var ekki á sjó farandi.
Þó tók út yfir einn morgun á útleiðinni. Það sem við sáum þá, gleymist seint. Þarna voru fleiri hundruð af þessum risaskepnum að leik, eftir því sem okkur virðist, margir þurrkuðu sig upp úr sjónum samtímis, aðrir stóðu á höfði, hálfir upp úr og lömdu sjóinn með sporðinum á báða bóga.
Það var svo stórfengleg sjón að sjá þetta, að orð fá því ekki lýst, skellirnir sem urðu, þá sporðarnir flatir skullu á sjónum, voru eins og fallbyssuskot, gusurnar og andardráttur þessa fjölda, mynduðu móðuvegg, sem ekki sá fyrir endann á suður og norður með landinu.

Björgunaræfing á Sjómannadaginn.


Árið 1901 byrjuðu Norðmenn hvaladrápið við Austfirði. Var af nógu að taka fyrstu árin, en sumarið, sem var síðasta sumarið, sem ég var á Seyðisfirði, brá svo við, að naumast sást þar stórhveli. En síldin var líka horfin úr firðinum, og hefur víst lítið sýnt sig þar síðan.
Ég hefi hér stiklað á því stærsta um þetta efni, sem úr djúpi minninganna hefur skotið upp kollinum, og læt hér því staðar numið.