Sigurgeir Björgvinsson (múrari)
Sigurgeir Björgvinsson múrari, tónlistarmaður fæddist 2. maí 1929 í Reykjavík og lést 7. maí 2015 á öldrunardeild Landakots.
Foreldrar hans voru Björgvin Sigurjónsson verkamaður, f. 7. febrúar 1898 í Kringlu í Grímsnesi, Árn., d. 22. október 1984, og kona hans Sigmunda Guðmundsdóttir húsfreyja, f. 5. maí 1907 í Reykjavík, d. 13. maí 1966.
Sigurgeir lærði trommuleik hjá Svavari Gests, var trommari, en lærði seinna á harmoniku og píanó.
Hann spilaði á þau hljóðfæri jöfnum höndum, bæði í atvinnumennsku og sér og öðrum til skemmtunar í tæp 70 ár. Lengst spilaði hann á píanó í hljómsveit Magnúsar Randrup í Silfurtunglinu. Árum saman var hann í hljómsveit Hjördísar Geirs og Tíglunum og lék fyrir dansi í flestum danshúsum Reykjavíkur.
Hann lauk námi í Iðnskólanum í Eyjum og sveinprófi í múrverki 1969.
Hann var verkamaður við Reykjavíkurhöfn og síðar við Togaraafgreiðsluna í Reykjavík, vann við múrverk til sjötugs.
Þau Jóna giftu sig 1952, eignuðust tvö börn, bjuggu á Langholtsveginum í 10 ár og síðan á Sólheimum 25.
Þau fluttu til Eyja 1965, keypti íbúð á Heimagötu 30.
Þau byggðu hús við Oddsstaðabraut 12 og bjuggu þar í tvö ár fram að Gosi 1973, fluttust þá til Reykjavíkur.
Sigurgeir lést 2015.
I. Kona Sigurgeirs, (27. desember 1952), er Jóna Halldóra Pétursdóttir frá Oddsstöðum, húsfreyja, verkakona, f. 18. ágúst 1933.
Börn þeirra:
1. Guðrún Sigurgeirsdóttir verslunarmaður, f. 16. ágúst 1952. Maður hennar Jóhann Bjarni Loftsson. Maður hennar Eggert Lárusson.
2. Gísli Sigurgeirsson múrari, f. 15. ágúst 1956. Fyrrum kona hans Elín Alma Arthursdóttir. Sambúðarkona hans er Sólveig Steinsson.
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Íslendingabók.
- Morgunblaðið 19. maí 2015. Minning.
- Múraratal og steinsmiða. 2. útgáfa, aukin. Þorsteinn Jónsson, Brynjólfur Ámundason. Þjóðsaga 1993.
- Prestþjónustubækur.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.