Saga Vestmannaeyja II./ Einokunarverzlunin

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit




Einokunarverzlunin.


Einokunarverzlunin var lögleidd á Íslandi með tilskipun 20. apríl 1602. Þó má segja, að hún hafi raunverulega verið komin á miklu fyrr, að minnsta kosti í Vestmannaeyjum, sbr. það, er að framan segir. Eyjarnar voru leigðar sérleigu. En er elzta íslenzka verzlunarfélagið (Det islandske, færöiske og nordlandske Kompagni) tók við verzluninni 1620, komust Vestmannaeyjar undir hina almennu einokunarleigu. Vissar sérreglur giltu samt áfram um Vestmannaeyjar, og þær voru venjulegast leigðar hærra en aðrir verzlunarstaðir.
Verzlunarleigan á Vestmannaeyjum fram til 1620: Þeir fjórmenningarnir, er leigðu eyjarnar 29. okt. 1600, slepptu þeim, er útrunninn var leigutími þeirra 1604,¹) og tóku þá við verzluninni Peder Fransen, Baldtzer Berntz o.fl. borgarar í Kaupmannahöfn. Skyldu þeim afhentir konungsbátarnir, verzlunarhús og annað, er verzluninni tilheyrði, og fól konungur „bændum sínum“ hér að meta skaða á bátum og húsum, er hinir fráfarandi kaupmenn áttu að bæta. Jafnframt fylgdi og fyrirskipun frá konungi til eyjabænda um að greiða að fullu skuldir sínar við fráfarandi kaupmenn, og ef þeir ættu nokkuð afgangs af fiski, bar að afhenda hann nýju kaupmönnunum. Leigubréfið um verzlunina er og dagsett 18. apríl 1604 og leigan ákveðin til næstu 6 ára fyrir kaupmennina Baldtzer Berntz, Johan Skyemand, Peder Fransen og Hans Holst, borgara í Kaupmannahöfn.²) Hans Holst er talinn meðal hinna fremstu af einokunarkaupmönnunum og vellauðugur.³)
Brátt gerðust værur milli kaupmanna þeirra, er nú höfðu eyjarnar, og eyjabúa, er illa undu verzlunar- og athafnaánauðinni. Og þótt verzlunarkjörin væru oft slæm áður, munu þau þó hafa versnað að mun, nú er hinir nýju kaupmenn tóku við, og gerðust hinir aðgangsmestu um kvaðir og bönn. Og ef út af bar í nokkru, hófu kaupmenn þegar háværar umkvartanir. Þannig kærðu kaupmenn fyrir konungi, að eyjamenn bútuðu og skæru sundur fisk meira nú en venja hefði verið til, sbr. opið bréf til eyjabænda 13. maí 1608.⁴) Mun hér vera átt við, að tekin hefir verið upp ný verkunaraðferð á fiski, líklega átt við ráskerðing eða ráskertan fisk og ef til vill bútungssöltun. Tjáðu kaupmenn og konungi, að eyjamenn færu í leyni til lands með fisk sinn og lýsi og selji þar.⁵) Með nefndu bréfi lagði konungur bann við því, að eyjamenn viðhefðu aðrar verkunaraðferðir á fiski en tíðkazt hefðu, og lagði refsingar gegn því, að menn flyttu fisk til lands. Þetta bann hefir og verið látið ná til landmanna, er útræði stunduðu frá Vestmannaeyjum, með því að kaupmenn hafa talið, að eigi væri að öðrum kosti hægt að framfylgja téðu banni gagnvart eyjamönnum. Báru einkum landmenn sig illa undan þessu, þar sem þeim væri fyrirmunað að flytja heim til sín úr eyjunum fisk til búsþarfa og til þess að standa skil á gjöldum til konungs, og það eins þótt þeir skulduðu ekkert Vestmannaeyjakaupmönnum. Leyfði konungur þá, sbr. bréf 25. febr. 1609,⁶) að landmenn, er útræði stunduðu í Vestmannaeyjum, mættu flytja til landsins fisk til heimilisþarfa og upp í gjöld, en allan annan fisk sinn voru þeir skyldir að selja kaupmönnum.⁷)
13. september 1613 leigði konungur verzlunina og eyjarnar með sköttum og skyldum tveim borgurum í Kaupmannahöfn, Claus Coldevin og Jacob Mikkelsen borgarstjóra í Kaupmannahöfn. Var leigan ákveðin til 6 ára, frá páskum 1614 að telja. Kjörin voru lík og áður, nema leigan fyrir verzlunina og konungsbátana var nú 600 rd. á ári. Fyrir vissar jarðabókartekjur konungs, tíund og sakeyri, skyldu kaupmenn eins og undanfarið gjalda 35 rd. fyrir lestina af fiski. Máttu þeir notfæra sér eignir og fríðindi konungs hér: landsafnot, fiskigarða, húseignir konungs, konungsbátana og höfnina eftir vild. Bar þeim að skila bátunum og öðru í lok leigutímans í fullkomnu standi. Tekin voru og hér upp ákvæðin um bann gegn fiskveiðum Englendinga og annarra þjóða við eyjarnar, hin sömu og í leigubréfinu frá 29. okt. 1600. Kaupmenn skyldu og selja góðar vörur og eigi hærra verði en áður og nota íslenzkt mál og vog. Misbrestur hefir samt orðið á þessu og verzlunarástandið í Vestmannaeyjum hið versta um þessar mundir. Kærðu eyjamenn kaupmenn þessa fyrir að selja nauðsynjavörur miklu hærra verði en leyfilegt væri. Fól konungur með bréfi 21. apríl 1619 Fredrik Friis að fara til Vestmannaeyja og rannsaka mál þetta. Átti hann að athuga vöruverðið síðustu 3—4 árin og hvað kaupmenn hefðu fengið greitt, og þingsvitni tekin upp hér um og skýrslur síðan sendar kansellíinu í Kaupmannahöfn. Lítið mun samt hafa orðið úr þessum málum, kaupmenn lofuðu bót og betrun, eins og vant var, en fljótt sótti aftur í sama horfið.⁸)
7. apríl 1616 var enn á ný gefið út bann gegn því, að útlendingar rækju verzlun hér á landi,⁹) enda var nú Íslandsverzlunin nær öll komin á hendur einokunarkaupmanna. Héldust þó ennþá uppi að nokkru siglingar Hamborgara hingað til lands. Sendi stjórnin og hingað út herskip til að hafa gát á sjóræningjum og útlendingum, er reyndu að stunda hér óleyfilega verzlun og fiskveiðar, sbr. bréf til Jörgen Daa flotaforingja 8. apríl 1616 um að hann færi með 6 herskip til eftirlits á Vesturhafinu og meðfram Noregsströndum og til Færeyja, Vestmannaeyja og Íslands, sbr. og skipun 22. apríl 1618 til Niels Rosenkrantz og Jörgens Vind um að senda Henrik Vind sjóliðsforingja á herskipinu „Havhesten“ til Færeyja og Vestmannaeyja, til þess að hafa gát á sjóræningjum og hindra það, að útlendingar rækju óleyfilegar fiskveiðar og verzlun við eyjarnar.¹⁰)
Einokun hafði í raun og veru gilt hér frá því um miðja 16. öld, og því fyrr en annars staðar hér á landi. Það hefir engin áhrif haft á verzlunarfyrirkomulagið hér, er eyjarnar komust undir hina almennu verzlunareinokun 1620, þ.e. Elzta íslenzka verzlunarfélagið 1620—1662. Eyjarnar voru að vísu leigðar frá 1620 með öðrum höfnum landsins, en með öðrum og hærri leigumála. Fylgdu nú með eins og áður landsskyldir og skattar konungs af eyjunum og konungsbátarnir, innstæðubátarnir, er fylgja eins og kvígildi allan einokunartímann. Verzlunarhúsin hefir verzlunarfélagið keypt, sem og vörubirgðir.
Ýms af höftum þeim og bönnum, er lögboðin höfðu verið til verndar verzlun og útgerð konungs, héldu áfram að vera í fullu gildi, og var þannig á ýmsan hátt þrengt meira að kosti eyjabúa en annarra landsmanna. Haldið var t.d. uppi banninu gegn því, að eyjamenn flyttu skreið eða lýsi til lands, og náði bann þetta og til útróðrarmanna með þeirri tilslökun, er gerð hafði verið áður, sbr. konungsbréf 25. febr. 1609. Með þessum höftum, er voru til hnekkis fyrir eyjamenn, sem nú voru að töluverðu leyti útilokaðir frá því að afla sér landbúnaðarvara af landi í vöruskiptum, eins og alltaf hafði tíðkazt, og hafa mátt láta sér nægja nú að vöruskipta trosi og úrgangsfiski, er eigi gekk í verzlanir, sem raunar alltaf hefir verið gert mikið að. Átti að einskorða alla verzlun eyjamanna og landbænda í nærsveitum, er útveg höfðu í Vestmannaeyjum, við verzlunina þar. Reynt hefir verið að ná í þann fisk, er aflaðist á útgerð landbænda fyrir Söndum (Eyjasandi og Fjallasandi), er oft var mikil, til eyjakaupmanna. Með þessu móti bættist upp fámennið hér og lítið kaupsvið, því að Vestmannaeyjaumdæmið náði lengi aðeins yfir eyjarnar einar. En Vestmannaeyjaverzlunin var samt jafnan talin allarðsöm, og hefir hún aukizt drjúgum með viðskiptum landmanna, og að minnsta kosti hafa útróðrarmenn verzlað þar mikið og keypt óspart munaðarvöru, brennivín og tóbak, eftir að farið var að nota hér tóbak. Einokunarkaupmenn héldu því áfram að hafa búðarþjóna í Vestmannaeyjum að vetrinum og opna sölubúð, eins og venja hafði verið á dögum konungsverzlunarinnar, en það tíðkaðist hvergi annars staðar hér á landi, að kaupmenn hefðu vetrarsetumenn. Var meðal annars talið nauðsynlegt, að hafa vetrarsetumenn hér vegna útgerðar kaupmanna, eins og kemur fram í leyfisbréfi (Oktroi) 3. apríl 1733, þar sem talað er um útgerð (Udgjörsel) konungsbátanna.
Verzlun landsins höfðu aðalútgerðarmenn (De fire Hovedparticipianter) á leigu 1662—1683. Fengu þá í sinn hlut Vestmannaeyjar Hans Nansen borgarstjóri í Kaupmannahöfn og félagar hans, og að auki fjórar aðrar hafnir. Leigan eftir Vestmannaeyjar einar var 800 rd. á ári. Voru eyjarnar eins og áður leigðar með landsskyldum öllum og sköttum og innstæðubátunum.¹¹) Hans Nansen hafði verið einn af hluthöfunum í Elzta íslenzka verzlunarfélaginu. Jacob Mikkelsen borgarstjóri, er hafði Vestmannaeyjar leigðar, sbr. áðurnefndan samning frá 12. sept. 1613, var og einn af stofnendum Elzta íslenzka verzlunarfélagsins, er tók verzlun landsins á leigu, sbr. samning (Oktroi) 16. des. 1619. Félagið fékk þó í fyrstu ekki nema hálfar Vestmannaeyjar á leigu og galt fyrir það 400 rd. árlega, á móti ekkju Claus Coldevin, Nille Coldevin, er og galt 400 rd. fyrir sinn hlut, er henni var leyft að halda í 3 ár, frá 16. des. 1619 að telja. Að liðnum þessum 3 árum skyldi verzlunarfélagið taka við þeim öllum gegn 800 rd. ársleigu, og skyldi nú auk þess greitt 35 rd. fyrir lestina í vissum og óvissum tekjum konungs, er fylgdu með í leigunni. Í 7. gr. Oktr. frá 1619 er ákvæði um það, að kaupmenn skuli selja góðar og ósviknar kaupmannsvörur.¹²)
Verzlunarleigan af Vestmannaeyjum, 800 rd. árlega, var mjög há samanborið við heildarleiguna fyrir verzlunina á Íslandi. Var sama leiga fyrir Vestmannaeyjar einar og greidd var af hverjum fjórðungi landsins, sbr. tilskipun 31. júlí 1662. Verzlunarleiguna af Vestmannaeyjum skyldu allir kaupmennirnir (De fire Hovedparticipianter) greiða í sameiningu, 200 rd. á hvern hinna fjögurra hluta, en aðalútgerðarmennirnir voru að mestu tveir og tveir saman um hvern hluta eða fjórðung. Með Hans Nansen var Find Nielsen borgarstjóri í Kaupmannahöfn. Hans Nansen var merkastur þeirra kaupmannanna og talinn einn af fremstu þjóðskörungum Dana. Hann var borgarstjóri í Kaupmannahöfn. Eftir dauða hans 1667 tók sonur hans, Hans Nansen yngri, við verzluninni í Vestmannaeyjum.¹³)
Hans Nansen leigði Vestmannaeyjar áfram í sérleigu eftir að umdæmaverzlunin (Separathandelen) 1684—1732 hófst, sbr. lénsbréf eða einkaleyfisbréf (Oktroi) 29. jan. 1684.¹⁴) Leigan var hin sama og áður og fylgdu með jarðabókartekjurnar og innistæðubátarnir. Sjá konungsúrskurð 25. jan. 1706, sbr. konungsúrskurði 2. apríl 1714 og 11. marz 1715.
Þeir Nansens-feðgar nutu mikils trausts hjá eyjabúum, fremur en menn áttu að venjast um einokunarkaupmenn, enda sýndu þeir feðgar og frjálslyndi og eftirlátssemi í ýmsu. Þannig var eyjamönnum nú leyft að fara frjálsir ferða sinna til lands og kaupa sveitavörur fyrir fisk, og landmönnum að flytja heim af afla sínum eftir þörfum, enda þurftu þeir feðgar eigi að óttast samkeppni við verzlunina á Eyrarbakka, er þeir höfðu leigða með Vestmannaeyjum, en téð bönn munu mest hafa hnigið að því að fyrirbyggja fiskflutning þangað úr eyjunum. Á þessum tímum — eftir miðja 17. öld — voru góð fiskiár hér og hefir hagur manna staðið með allmiklum blóma. Er leið á seinni hluta aldarinnar komu fiskileysisár, eins og áður segir. Hans Nansen leigði eyjarnar aftur út frá sér undir lok aldarinnar, 1695, en áður hafði hann reynt að búa svo um hnútana, að umræddar tilslakanir í garð eyjamanna fengju að haldast áfram, en sú mun samt eigi hafa orðið raunin. Hans Nansen yngra er getið sem reikningshaldara Landakirkju 1659—1662 og gefanda að munum til kirkjunnar. Mun hann hafa gegnt verzlunarstjóra- og umboðsmannsstörfum fyrir föður sinn í eyjunum. Hefir Nansen þá verið ungur maður, hann er fæddur 1635. Hann kemur eigi við íslenzku verzlunina eftir 1703, en hann lifði til 1713. Hann var borgarstjóri í Kaupmannahöfn sem faðir hans. Um og eftir aldamótin 1700 varð hann fyrir miklu tjóni af eldsvoða og fleiru og komst í mikla fjárþröng. Sjá konungsbréf 27. okt. 1703.¹⁵) Afkomandi Hans Nansens var hinn víðfrægi Norðmaður Friðþjófur Nansen.
Verzlunina í Vestmannaeyjum fékk Andreas Bech og fleiri,¹⁶) sbr. Oktroi 12. apríl 1706, sjálf leigan 820 rd. Andreas Bech (Raadmand Bech) og Interessanter 1715—1721. Andreas Bech 1721—1730, sjá Oktroi 6. júní 1715 og Oktroi 5. maí 1721 og 23. ágúst 1723. Leiga 875 rd. Croner og 1010 rd. Cr. Hans Henrik Bech tók við af föður sínum 1730, sjá Oktroi 17. maí 1730.¹⁷)
Í leyfisbréfi, Oktroi, 3. apríl 1733 til handa félagi lausakaupmanna (Den islandske Handels Interessanter) fyrir verzluninni á Íslandi eru sérákvæði um Vestmannaeyjar. Fyrir vissar og óvissar jarðabókartekjur eyjanna, er fylgdu með leigunni, þar með og talinn skipsábatinn (Skibsabatter), svo voru skipshlutir af innstæðubátunum nefndir, en þeir voru 14 að tölu nú eins og lengstum síðar, skyldi greitt samkvæmt ákvæðum í úrskurði frá 2. apríl 1714, sbr. úrskurð frá 11. marz 1615,¹⁸) sbr. rentuk.br. 5. maí 1633.¹⁹) Ennfremur var ákveðið, að kaupmenn skyldu greiða fyrir jarðabókartekjurnar visst gjald árlega, 200 rd., eins og lengi hafði tíðkazt. En kaupmenn höfðu færzt undan því að greiða nokkurt sérstakt gjald fyrir jarðabókartekjurnar og héldu því fram, að leigan eftir þær væri innifalin í sjálfri verzlunarleigunni, með því að ekkert sérstakt hefði verið tekið fram um þetta við endurnýjun á einkaleyfissamningunum 1706, en þá hafði verzlunarleigan í heild verið hækkuð. Eins og áður er tekið fram lauk máli þessu með því, að kaupmenn þeir, er höfðu Vestmannaeyjar, máttu greiða áfram 200 rd. fyrir jarðabókartekjurnar, auk hinnar eiginlegu verzlunarleigu, og hélzt þetta síðan, sbr. konungsúrsk. 26. apríl 1742 og verzlunarskilmála Hörmangarafélagsins (1742—1758), dags. 15. júlí 1742,²⁰) sbr. leyfisbréf 3. apríl 1733. Sama er og endurtekið í skilmálum Hins almenna verzlunarfélags, sbr. leyfisbréf 15. ágúst 1763,²¹) er tók við íslenzku verzluninni eftir konungsverzlunina fyrri, 1759—1763, og hélt hana þar til konungsverzlunin síðari, 1774—1787, tók við.
Tvö kaupskip munu að jafnaði árlega hafa komið til Vestmannaeyja með vörur og varning og flutt þaðan fisk og fiskafurðir með fleiru á útleiðinni. Í beztu fiskiárum hefir verið bætt við aukaskipi. Í Íslandslýsingu Þorláks Magnússonar frá því um 1730 segir, að tvö stórskip séu talin árlega fara með fisk frá Vestmannaeyjum.²²) Af sex skipum, er konungur sendi hingað til lands 1562, voru tvö í Vestmannaeyjar. Sjá áður um leiðarbréf fyrir tvö skip hingað 1603. Þriggja kaupskipa, er legið hafi á Vestmannaeyjahöfn, er getið, að slitið hafi upp skömmu fyrir Tyrkjaránið.
Getið er hér áður um kærur eyjabúa yfir hinum þungbæru verzlunarhögum. Þeir voru hlaðnir kvöðum og álögum. Fiskurinn — þeirra aðalvara — var tekinn með afföllum og erlenda varan seld rándýrt. Oft var verzlunin illa birg af nauðsynjavörum, en hins vegar nóg af munaðarvörunni. Vísast til kærumálanna 1583 og 1614, sbr. kgbr. 21. apríl 1619. Í kærumálum eyjabúa, er Kláus Eyjólfsson las upp í lögréttu á Alþingi 1633, segir svo, að kaupmenn hafi hvorki viljað lána eða selja eyjamönnum helztu nauðsynjar, svo sem mjöl, salt og færi, og segir Kláus ennfremur: „með hverjum menn dragi arð og fóstur að sínu heimili, svo vel reiðurum og öðrum, útlendum sem innlendum til gagns“. Nú var eigi hægt að leita ásjár Englendinga sem fyrrum.²³) Um einkaupið (Enesteköb), er eyjamenn máttu sæta, er áður talað, og fékkst engu þar um haggað, þótt tillögur kæmu fram um breytingu, áður en kaupsetningin 1619 var lögleidd. En til hlunninda mátti samt telja, að eyjamenn verzluðu í fiskireikningi með því að þeir guldu með sjávarafurðum, en eigi í prjónles- eða sauðareikningi. En hæpinn hefir þessi hagnaður samt verið, þar sem kaupmennirnir gátu sett afföll á fiskinn, oft eftir geðþótta.
Vestmannaeyjar voru taldar með hinum beztu fiskihöfnum landsins. Af fiski og fiskafurðum höfðu kaupmennirnir mestan hagnað, og því var verzlunin arðsömust á fiskihöfnunum. Með 2—3 fiskförmum mátti að jafnaði reikna frá eyjunum, 900— 1000 skpd. af fullverkuðum harðfiski fyrir Hamborgar- og Danzigmarkað.²⁴) Af skiljanlegum ástæðum var því verzlunarleigan af Vestmannaeyjum hærri en af öðrum stöðum. Ber og þess að gæta, að með í leigunni fylgdu jarðabókartekjur, þ.e. skattar og skyldur allar, svo og innstæðubátarnir, svo að kaupmennirnir gátu haldið útgerðinni uppi. Einnig hér opnuðust ýmsar leiðir til fjáröflunar á óvanalegan hátt, t.d. með því að bæta niður aukahlutum á skip, neyða menn til að leggja inn blautfisk og fleira mætti telja. Jarðabókartekjurnar með skipshlutum náðu á einokunartímunum mörgum hundruðum vættum fiskjar.
Vestmannaeyingar voru mergsognir af aldagamalli verzlunaráþján. Arðinn af framleiðslu þeirra hirtu aðrir og fóru með burtu af landinu. Eyjamönnum var naumt skammtað, svo að hrokkið gat aðeins til ítrustu þarfa ásamt með afrakstrinum af smábýlabúskapnum og fuglatekjunni. Allur almenningur var blásnauður. Og þegar fiskileysisárin komu yfir, t.d. á síðasta hluta 18. aldar, var hér fjöldi fólks, sem ekkert hafði fyrir sig að leggja. Voru þá sveitarþyngsli mjög mikil, er hinir fáu efnabetri bændur máttu standa straum af. Líklegt er, að mannfellir hefði þá orðið hér, ef ekki hefði verið sýnd mjög mikil tilhliðrunarsemi um vörulán. Var þá konungsverzlunin síðari og komið fram að þeim tímum, er einokunin var upphafin.
Hagnaðurinn af fisksölunni nam oft miklu, 30—40% hagnaður af söluandvirði fiskjarins á erlendum markaði var ekki óvanalegt á dögum konungsverzlunarinnar undir lok 16. aldar. Innkaupsverðið á fiski gat og raunverulega komizt mjög lágt, er öll vörusala var miðuð við fisk, og vara, sem ódýr var í innkaupi, seld dýrum dómum fyrir fisk, t.d. var einn pottur af öli — og það líklega frá ölgerð verzlunarinnar sjálfrar hér — seldur á einn fisk. Mjaðar- og vínpottur var seldur fyrir tvo fiska. Auk þess að öl var bruggað hér heima í stórum stíl hjá verzluninni, var og mikill innflutningur á öli. Árið 1599 nam ölinnflutningurinn 20 lestum og af Rínarvíni 4 lestum, en mjaðarinnflutningur 1/2 lest. Brennivín var mjög lítið drukkið á þeim tímum, en því meira af öli. Ölið var mest selt í smásölu og nam sú sala sum árin að söluandvirði um l½ lest fiskjar. Auk þess sést, að margir hafa keypt heilar bjórtunnur, þýzkt og danskt öl. Á einokunartímunum eykst salan af brennivini, og innfluttar brennivínstunnur í tugatali og hélzt áfram. Hjá Garðsverzlun voru taldir í vörubirgðum 1832 7000 pottar af brennivíni, nær 800 pt. af öðrum sterkum vínum, rommi, koníaki o.fl. og rúmar 900 fl. af léttari vínum.²⁵)
Arður einokunarkaupmanna hefir að jafnaði verið langt fram yfir venjulegan kaupmannagróða. Fiskútflutningur var meiri en á dögum konungsverzlunarinnar. Verðið á fiski var mjög lágt og haldið niðri af hinni almennu verzlunareinokun. Voru eyjarnar að því leyti undir sama ok seldar og landið í heild. Innkaupsverð á harðfiski var lengi 3 rd. skpd., sbr. taxtann 1702. Þótt segja megi, að matvara hafi stundum verið seld fremur lágu verði, samanborið við verðsveiflur erlendis, þá hefir það unnizt upp margfaldlega á öðrum vörum, svo sem tóbaki og vínföngum, glysvarningi o.fl. Innflutningur á tóbaki nam sum árin nokkrum þúsundum punda.
Íslenzkur fiskur var alltaf mjög eftirsótt vara erlendis. Höfðu Danir íslenzkan fisk og norskt timbur fyrir aðalgjaldmiðil sinn erlendis.²⁶) Árlegan ágóða af verzlun sinni töldu eigendur Hins íslenzka verzlunarfélags, er hafði verzlunina 1733—1742, 20,000 rd. Var stofnað til verzlunarinnar með 100,000 rd. í hlutafé. Seldu íslenzku vörurnar — með henni talið andvirði útlendu vörunnar, eins og tíðkaðist á dögum konungsverzlunarinnar — fyrir 120,000 rd. Arður af hlutafénu er talinn árin 1733—1741: 6 árin 12%, 2 árin 10% og 1 árið 6%. Þegar félagið hætti verzlun og skipti upp eignunum, náðu þær helmingi hærri upphæð en kaupmennirnir höfðu lagt til íslenzku verzlunarinnar, er samanlagt var hlutaféð og eignir, er félagsmenn höfðu látið félaginu í té sem lán.²⁷) Árið 1694 er arðurinn af verzluninni í Vestmannaeyjum talinn 1494 rd. Yfirleitt hefir arður einokunarkaupmanna af eyjunum verið mikill, og meiri að jafnaði en af konungsverzluninni og reksturinn kostnaðarminni.
Lánsverzlun var að vísu rekin, en kaupmenn höfðu sterkan hemil á útlánum, svo að verzlunarskuldir voru eigi miklar. Nægir að sýna það, að árið 1600 — um það leyti, er konungsverzlunin hætti — námu óinnheimtar skuldir viðskiptamanna við verzlunina, land- og eyjamanna, aðeins um 8 fisklesta virði. Átakanlegt er það, er getið er um í athugasemdum við reikningana, að sumir umræddra skuldunauta hafi drukknað þá um veturinn, áður en búið var að fá afla upp í skuldirnar. Er þetta ljós vottur um það, er að vísu er kunnugt lengi, að lánin voru miðuð við væntanlegan afla. Á einokunartímunum hafa skuldir og verið litlar, því að útlánin voru mjög takmörkuð. Það er fyrst, þegar fiskileysisárin koma, að skuldirnar vaxa, því að sjá verður fólkinu að minnsta kosti fyrir nauðþurftum. Árið 1755 eru útistandandi verzlunarskuldir hér rúmir 1700 rd.²⁸) Var þá farið að óhægjast mikið um verzlunina. Eftir 1770 var hér fiskilítið mjög um 10—12 ára skeið, svo að útgerð lagðist að mestu niður, nema á smáferjum á bezta tíma árs. Skuldirnar jukust á þessum vandræðatímum stórkostlega. Við lok einokunartímans, 1783, voru þær orðnar 5892 rd. og í eftirstöðvum jarðabókartekna 1138 rd. Ástand var mjög slæmt um þessar mundir hér, sem um allt land.
Eins og kunnugt er hafði landsstjórnin þá á hendi, jafnframt því að létta af einokunarklafanum, margs konar umbótatillögur, er hún hugði að gætu orðið til viðreisnar landinu. Hér á meðal voru tillögur, að því er Vestmannaeyjar snerti, um að gera gagngerar endurbætur á útgerðinni. Og mjög var því haldið fram, að nauðsynlegt væri að auka mjög jarð- og túnrækt hér. Sérstaklega var gert ráð fyrir því að koma aftur upp kornrækt í eyjunum, og framkvæmdar mælingar í þessu skyni.²⁹) Ekkert varð samt úr þessum áformum.³⁰)
Ástandið hér batnaði furðanlega fljótt eftir að fiskveiðar glæddust aftur. Nú tóku eyjamenn sjálfir að koma sér upp skipastól og bættu þar með mjög aðstöðu sína. Um frjálsa verzlunarhagi og hömlur fyrir verzlunarokrinu var samt eigi að tala hér, fyrr en löngu eftir að einokunin átti að heita að vera upphafin, sem hún alls ekki var í raun og veru og ekki fyrr en innlenda verzlunin hafði rutt sér til rúms og loks eftir harða baráttu hafði tekizt að verða jafnoki hinnar erlendu og síðast að útrýma henni alveg.
Hér verður getið að nokkru verzlunar landmanna hér í eyjum. Frá fyrstu tímum höfðu landmenn sótt hingað verzlun á vor-, sumar- og haustkauptíð. Ferðir voru tíðar á milli. Í Grágás er ákvæði, er snerti flutninga milli lands og eyja. Viðurlög lágu við helgidagaferðum. Vöruskiptaverzlun var mjög mikil. Skreiðarferðir hafa fyrrum og verið farnar langt að til Vestmannaeyja, jafnvel norðan úr landi, þótt eigi hafi það verið algengt.³¹) Flutningaferðirnar milli lands og eyja voru farnar á stórskipum. Þær önnuðust landmenn oftast sjálfir, eyjaferðir, en sjaldnar hafnar ferðir frá eyjunum, landferðir. Þetta hefir þó verið öðruvísi fyrrum. Talið er, að eftir 1820 hafi Mýrdælingar fyrst flutt vörur úr eyjum á skipum.
Verzlun landmanna hér var fram á síðustu tíma mjög mikil. Innlenda verzlunin, er stofnuð var hér um aldamótin síðustu og markar alger tímahvörf í verzlunarsögu eyjanna, hleypti og nýju og auknu lífi í landverzlunina. Verzlunin sendi sum árin vöruskip, er skipuðu vörum upp fram með Söndum, alla leið austur að Dyrhólaey. Á seinni árum, meðan landverzlunin var við líði, munu hafa komið árlega 10—20 skip af landi með fólk í verzlunarerindum.
Vestmannaeyjar höfðu alltaf verið verzlunarumdæmi fyrir sig. Um leið og konungsverzlunin síðari, 1774—1787, hófst, var bætt við umdæmið og Vestur-Skaftafellssýsla og fimm austustu hrepparnir í Rangárvallasýslu lagðir til umdæmisins í Vestmannaeyjum, teknir frá Eyrarbakkaumdæmi. Útibú frá Vestmannaeyjum var þá stofnað að Bakka í Landeyjum. Það var lagt niður í lok 18. aldar, sbr. bréf stiftamtm. 16. des. 1797. Hafði það að miklu leyti verið starfrækt sem ullartökustöð. Forstöðu fyrir útibúinu á Bakka hafði Jóhannes Zoëga, áður verzl.m. í Vestm.eyjum, afi Geirs Zoëga kaupm. í Reykjavík.
Hallgeirsey í Landeyjum var löggiltur verzlunarstaður 18. des. 1897. Þar var samt engin verzlun stofnsett, en stöku sinnum starfrækt af eyjakaupmönnum vöru- eða ullarmóttökustöð. Kaupfélagsverzlun var sett þar á stofn 1920.
Vík í Mýrdal var löggiltur verzlunarstaður 2. des. 1887. Þar var stofnað útibú frá Garðsverzlun hér nokkru fyrir aldamótin síðustu. Áður hafði þar verið ullarmóttökustöð. Eldri var löggilding verzlunarstaðar við Jökulsá á Sólheimasandi, sbr. lög frá 1879. Fluttu kaupmenn vörur á dekkbátum að og frá Hliðinu við Jökulsá um þessar mundir. Og löngu fyrr hafði lausakaupmönnum verið leyft að verzla við Dyrhóla um 5 ár, sbr. augl. 28. des. 1836. Endurn. til eins árs, sbr. augl. 9. apríl 1842.³²)
Verzlun landsins var gefin frjáls við alla þegna Danakonungs, sbr. konungsbréf 18. ágúst 1786 og auglýsingu sama dag um skilyrði fyrir hinni frjálsu verzlun.³³) Í nefndri auglýsingu 18. ágúst voru og ákvæði um, að sex tilgreindir verzlunarstaðir hér á landi skyldu öðlast kaupstaðarréttindi. Meðal þessara sex helztu verzlunarstaða voru og Vestmannaeyjar. Undir Vestmannaeyjakaupstað voru lögð þessi héruð, sbr. tilskipun um fríheit kaupstaðanna 17. nóv. 1786³⁴): Árnes- og Rangárvallasýslur, Vestmannaeyjasýsla og Vestur-Skaftafellssýsla. Hinir kaupstaðirnir voru: Reykjavík, Eskifjörður, Eyjafjörður, Skutuls- eða Ísafjörður og Grundarfjörður.
Útmæling á hinu fyrirhugaða kaupstaðarplássi var framkvæmd af sýslumanni í eyjum 14. apríl 1787. Var staðurinn undir kaupstaðinn — í mótsetningu við sjálfan verzlunarstaðinn, „Handelsstedet“, sem var í Skanzinum — ákveðinn nálægt Botninum, upp af Básaskerjum og Skildingafjöru. Stærð þessa fyrirhugaða kaupstaðarpláss var ákveðin 99856 ferálnir, og mælt út svo vestarlega með því að þar var næst í vatn úr brunnum, Andrésarbrunnum, undir Klifi og af því að minnstur skaði væri að því fyrir bændur, með tilliti til beitilands, að taka landið þarna, og ennfremur af þeim sökum, að þangað vestur eftir næði eigi sjórok. Hefir borgurum hins nýja kaupstaðar verið ætlað að fá þarna land til ræktunar, bæði til kornræktar, rófna- og grænmetisræktunar. Þarna var fallegt land, en sendið, Flatirnar svokallaðar. Eftirtektarvert er það næsta, að á þessar slóðir við Skildingafjöru hefir á seinni árum smám saman færzt þungamiðja athafnalífsins og hér eru nú skipasmíðastöðvar, hafskipabryggja og aðalbryggja eyjanna.
Þessar ráðagerðir frá lokum 18. aldarinnar í sambandi við stofnun kaupstaðar í Vestmannaeyjum, er drepið hefir verið á, komu alls eigi til framkvæmda. Fólkið var orðið hér mjög fátt. Þannig voru á þessum tímum eigi nema 2—3 tómthúsábúendur. Sátu þeir áfram í tómthúskofum sínum og bændur á jörðunum. Fólksflutningur var alllengi sama sem enginn til eyjanna. Meira en heil öld leið áður en nokkurt hús eða mannvirki var byggt á umgetnum slóðum. Byggðaraukningin á 19. öldinni var bundin við hin gömlu tómthúsahverfi.³⁵)
Samanlagt innkaupsverð innflutningsvara til Vestmannaeyja, sbr. fylgiskrá um vörumagn árlega, II, III og IV, við tilsk. 13. júní 1787, var talið 4647 rd. 30 sk. Af þessum vörum voru matvörur: 106 tn. af rúgi, byggi rúmar 188 tn., rúgmjöli tæpar 263 tn., byggmjöli 25½ tn. Skonroksbrauð er hér tilfært 2704 pd. Það var ekki nefnt í gömlu kaupsetningunni frá lokum 16. aldar, né heldur skipsbrauð, sem hér er talið 2609 pd. Þá eru og nokkrar grjóna- og baunatunnur. Af brennivíni eru nú taldar 33 tn. og 24 af öðru víni. Auk þess talið vín og romm 4 tn., 25 pt., mjöður 2 tn. og öl 6 tn. Brennivínið er nú alveg búið að fá yfirhöndina og það fyrir löngu, en fyrrum hafði ölið verið yfirgnæfandi. Ekki eru taldar nema rúmar 90 tn. af salti, spönsku og frönsku. Tjara 10 tn. Steinkol ein lest. Stangajárn 11 skpd. Eirkatlar eru nú ekki tilfærðir, heldur járnpottar. Kaffi 99 pd. Te ca. 4 pd. Sykur 258 pd. Að öðru leyti eru margar hinar sömu vörur og getur í gömlu kaupsetningunni, og óþarfi að tilgreina þær nánar.
Innkaupsverð útflutningsvara nam 6176 rd. 73 sk. Harðfiskur 256 skpd. rúm, saltfiskur 25 skpd. 15 lspd. 3 pd., þorskur og Kabliau 19 tn. rúmar. Harðfiskur sendur til útlanda 26 skpd. 14 lspd. 4 pd., saltfiskur 32 skpd. 16 lspd. 1 pd., hrogn 18 tn. rúmar, lýsi 48 tn., kjöt 11 tn., tólg 132 lspd. 3½ pd., smjör 13 lspd. 3½ pd., nautshúðir 3¾ stk., sauðskinn 227 stk., refaskinn 2 stk., álftafjaðrir 62 stk., fiður 15 lspd. 3 pd., æðardúnn 2¼, pd., ull 15 lspd. 11 pd., eingirnissokkar (duggarasokkar) 1584 pör, eingirnisvettlingar (duggaravettl., sjóvettl.) 1424 pör, tvígirnissokkar (tvíbandss., smáles) 137 pör, tvíbandspeysur 10 st.
Innfluttar og útfluttar vörur námu 1764—1784 að innkaupsverði: Innfluttar vörur 101,181 rd. 28 sk., en útfluttar vörur 129,732 rd. 81 sk. Þessi árin hefir umsetningin verið miklu minni en fyrrum sökum fiskileysisins og hins slæma ástands hér á síðasta hluta 18. aldar.
Samkvæmt mati frá 1784 á verzlunarhúsunum í Vestmannaeyjum með vörugeymsluhúsum, er einokunarkaupmenn höfðu haft á leigu hátt á aðra öld og sum munu hafa verið frá dögum konungsverzlunarinnar gömlu, eru húsin með innanstokksmunum, áhöldum o.fl. virt á 4527 rd. 7 sk. samtals.


Heimildir og umfjöllun í þessum kafla:
1) Canc. Brevb. 1603—1608, bls. 149.
2) Enskir sjóræningjar tóku skip þeirra Christian Albritsens og Diderik Möllers í hafi og ræntu þau vörum og peningum, sbr. bréf 20. maí 1602 (Canc. Brevb. 1596—1602, bls. 745). Gaf konungur út skipun um, að ræningjar þessir, er voru frá Plymouth, skyldu teknir, ef þeir sigldu um Eyrarsund.
3) J. Aðils: Einokunarverzlun Dana á Íslandi, bls. 90—91.
4) Canc. Brevb. 1603—1608, bls. 683.
5) Í kærumálum kaupmanna 1607 yfir séra Ormi Ófeigssyni er og kvartað yfir því, að séra Ormur fari með fisk sinn til lands til að selja hann þar, og munu þessi mál lúta að hinu sama.
6) Canc. Brevb. 1609—1651, bls. 41.
7) Sama dag gaf konungur út bréfið um stofnun sýslumannsembættis í Vestmannaeyjum.
8) Leiðarbréf útgefið 29. apríl 1614 (Canc. Brevb. 1609—1615, bls. 693) handa Claus Coldevin borgara í Kaupmannahöfn og Jakob Mikkelsen tollara sama staðar fyrir skip þeirra Neptunus, 60 lestir að stærð, er þeir höfðu sent með vörur til Vestmannaeyja með kaupsveini þeirra. Samkvæmt leiðarbréfinu var kaupmönnum þessum heimilt að sigla frá Vestmannaeyjum á hvaða höfn sem var erlendis.
9) Canc. Brevb. 1616—1620, bls. 22.
10) Canc. Brevb. 1616—1629, bls. 23 og 384—385.
11) J. Aðils: Einokunarverzlun Dana á Íslandi, bls. 121; Lovs. I, 277-285.
12) Venjulegar kaupmannsvörur voru: Mjöl, malt, öl, vín, mjöður, brennivín, klæði, léreft, eirkatlar, járn, viður til kirknasmíði, húsa og báta.
13) O. Nielsen: Köbenhavn, I.S. Khavn 1881.
14) Lovs. I, 406413.
15) J. Aðils: Einokunarverzlun Dana á Íslandi, bls. 168—169.
16) Madame Storms, Morten Munch og Peter Rigelsen.
17) Sjá og Lbs. 91, fol.
18) Lovs. II, bls. 145—164.
19) Lovs. II, bls. 464.
20) Lovs. II, bls. 391 og 400—418.
21) Lovs. III, bls. 467-493.
22) Lbs. 291, fol.; Blanda V.
23) Alþb. VI, bls. 251.
24) C. Pontoppidan; J.S. 31, fol.; H. Chr. Bech: Om Handelen paa Island; J.S. 37, fol.; John Olavsen: Betænkninger over den islandske Handel, Khavn 1772; Ol. Olavius: Afhandling om Handelen, Khavn 1771.
25) Sýsluskjöl V.E. 1832, Þjóðskjs.
26) Sjá Jul. Schovelin: Fra den danske Handels Empire, Khavn 1897— 1900.
27) Björn B. Þórólfsson: Hist. Meddelelser om Staden Köbenhavn. Sær tryk.
28) J.S. 31, fol., Lbs.
29) Mælingargj. í apríl 1787.
30) Líklegt er, að Hallur bóndi Hróbjartsson á Búastöðum hafi gert tilraunir til kornræktar á þessum tímum, en honum var veittur heiðurspeningur um þessar mundir fyrir umbætur i jarðrækt.
31) Æfisaga Jóns prófasts Steingrímssonar.
32) Lovs. XII.
33) Lovs. V, bls. 294—316 og 317—330.
34) Lovs. V, bls. 343—348.
35) 323, Islandske Sager t. Journal 7 fra Nr. 441—858, 1. Jan.—Nov. 1787, Þjóðskjs.



Saga Vestmannaeyja efnisyfirlit