Saga Vestmannaeyja I./ XII. Virki og skanz í Vestmannaeyjum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit




XII. Virki og skanz í Vestmannaeyjum


Virkis er hér getið þegar á öndverðri 15. öld. Reistu það enskir kaupmenn og útgerðarmenn, er þá ráku hér verzlun og útgerð. Getið er þess, að þá er hirðstjórar landsins fóru hina misheppnuðu för hingað til eyjanna 1425, er hafin var til að reka enska kaupmenn burtu úr eyjunum, hafi hinir ensku verið hér fyrir í virki sínu. Enska virkið mun hafa verið hlaðið úr grjóti og torfi, eins konar varnarveggur kringum íbúðarhús og sölubúðir kaupmannanna, eða öllu heldur kringum hverfið, sem hinir ensku höfðust við í. Mun það einkum hafa verið ætlað til varnar gegn Bessastaðavaldinu, ef umboðsmenn eða fógetar konungs leituðu þaðan hingað, en Englendingar ráku hér tíðum verzlun í óleyfi. Virkið nefndist á ensku Castle. Af þessu enska nafni virkisins er dregið staðarnafnið Kastali eða í Kastala, er hér hélzt í margar aldir sem nafn á stóru afmörkuðu svæði í kauptúninu með fjölda tómthúsa, náði frá Götu, sem kennd mun hafa verið við götuna eða veginn frá kauptúninu og upp fyrir Hraun, niður í Sand, Sandhús, og vestur á Bratta, Brattahús. Sandhús er talið í Kastala, sbr. reikningsbók Landakirkju, og Brattahús, sbr. jarðabókina 1704. Svæðið upp af og nálægt mið- og vestasta kaupstaðnum á eyjunum, sem seinna urðu til. Það virðist harla líklegt, að enskir kaupmenn og útgerðarmenn, eftir að þeir frá fyrsta fjórðungi 15. aldar og fram eftir öldinni og á 16. öld ráku verzlun og útgerð hér með konungsleyfi, að minnsta kosti alllengi í senn á nefndu tímabili, hafi haft eins konar umráð eða leigu á þessu svæði, er hefir ef til vill verið sérlega afmarkað með garði. Í umboðsskjölum og jarðabókum eru nefnd tómthús í Kastala til aðgreiningar frá hinum tómthúsasvæðunum. Menjar þessa enska virkis sjást nú engar, og ekki er með vissu vitað, hvar sjálft virkið var. Talið er líklegt, að það hafi byrjað við Bratta svokallaðan og garðurinn náð upp eftir og yfir það svæði, þar sem stóð síðasta tómthúsið, er bar Kastala-nafnið, fram yfir miðja 19. öld, við smákletta á grundinni fyrir framan Fögruvelli. Þarna á að hafa sézt fyrrum ýms ummerki um byggð og garðalagnir, sem að vísu geta verið eftir gömul tómthús og fiskigarða. Seint á 19. öld var þarna ræktað tún og sléttað yfir. Húsið Sælundur stendur þar nálægt, sem tómthúsið Kastali eða Gamli Kastali var.
Minningin um enska virkið hér frá blómatíð enskra kaupmanna og útgerðarmanna hélzt þannig lengi við með staðarnafninu Kastali um allfjölbyggt tómthúsahverfi. Danir reistu hér í Vestmannaeyjum, eftir að konungsverzlunin var sett á stofn hér, sitt eigið varnarvirki, er einkum var ætlað gegn enskum kaupmönnum og útgerðarmönnum, og nefndu þetta vígi Skanzinn. Skanzinn, sem svo er nefndur enn, stendur í Kornhólstúni, nokkuð austur af, þar sem Garðs- eða Austurbúðar-verzlunarhúsin standa nú. Skanzinn er byggður í ferhyrning og er austurveggur hans 23 faðmar á lengd, 8 álnir á þykkt, undirveggur, og rúmar 3 álnir á hæð, og er þrepbyggður með breiðum undirstöðum. Eins og hann er nú er rúmmálið 13X17 faðmar, en hefir verið stærri áður en suðurveggurinn var rifinn, er mun hafa verið eftir aldamótin 1800. Inn í Skanzinn liggja löng göng eða traðir, og háir steinveggir hlaðnir að. Eftir miðjum göngunum var steinlagður mjór stígur úr tígulsteini austur úr gegnum Skanzinn og þangað, sem Kornhólsbærinn var fyrrum. Undir brekkunum niður frá sjálfum Skanzinum, niður við sjóinn, eru rammbyggilegar steinhleðslur. Á gamalli teikningu af Skanzinum, er fylgir mælingargjörð frá 4. apríl 1787 um fyrirhugaða kaupstaðarlóð, sést ennþá suður- og vesturveggur Skanzins. Á þessum tímum stóðu verzlunarhúsin hér inni í Skanzinum. Sjóbúð og hjall er getið um inni í Skanzinum, sbr. bænarskrá eyjamanna frá 1715 um uppbyggingu Landakirkju, og það látið uppi, að hentugra væri að halda guðsþjónustu inni í Skanzinum heldur en í kirkjunni, því að í Skanzinum væri þó skjól í vondum veðrum. Í lýsingu Vestmannaeyja frá 1746 segir, að nafn Hans Nansens standi úthöggvið í trévirki yfir vestara porti Skanzins og að hann hafi reist Skanzinn. Mun það rétt, að hann hafi endurbætt og fullkomnað gamla virkið. Byrjað mun hafa verið að byggja Skanzinn á öðrum fjórðungi 17. aldar eftir Tyrkjaránið, í tíð Jens Hesselberg umboðsmanns, er lét reisa hin nýju verzlunar- og íbúðarhús inni í Skanzinum. Á Skanzasmíði er að vísu talið, að byrjað hafi verið rétt fyrir Tyrkjaránið, en til þess vannst þá skammur tími og líklega mun aðeins hafa verið reynt að hressa upp á gamla vígið eða virkið, sem var frá fyrri tímum á þessum slóðum, því að víst er, að virki þetta var reist hér seint á 16. öld, og kemur þetta virki mjög við sögu hér á dögum gömlu konungsverzlunarinnar. Þessu virki var að miklu leyti komið hér upp með skylduvinnu, er eyjamenn sjálfir urðu að láta í té verzlunarforstjóranum ókeypis eftir konungsboði, en þeir, sem þessi kvöð lá á, að inna af hendi dagsverk fyrir konungsumboðsmann, fengu frítt fæði hjá verzluninni, meðan unnið var.
Löngu áður hafði konungur ætlað að láta byggja hér varnarvirki eða skanz. 1515 bauð Kristján konungur II. Sören Norby hirðstjóra að gera góð vígvirki, á eigin kostnað, bæði í Vestmannaeyjum og á Bessastöðum.¹) Konungur gaf samt hirðstjórann lausan seinna af þessari kvöð og lá málið niðri alllengi. Það var fyrst eftir að búið var að stofna konungsútgerð og verzlun hér, að eigi þótti mega dragast lengur að koma hér upp fallbyssuvígi til að bægja enskum skipum frá eyjunum. Með bréfi 18. apríl 1586 bauð Friðrik II. konungur flotaforingja sínum, Hans Holst, að taka með sér nægan liðsafla, hertygi og skotfæri og fara til Vestmannaeyja og reisa þar vígi (Blokhus) á hentugum stað við höfnina, og var svo gert.
Fallbyssuskýlið eða virkið, er byggt var 1586, mun hafa verið lítið grjót- eða trévígi og staðið á sömu slóðum sem núverandi Skanz er, upp frá höfninni nálægt Dönskuhúsum. Þetta vígi, er kom í góðar þarfir í baráttunni gegn enskum kaupmönnum, mun hafa verið hætt að nota eftir að búið var að rýma þeim burtu um 1600, og er líklegt, að hætt hafi þá verið að halda við virkinu eftir þann tíma. Í Tyrkjaránssögunni er ekki talað um neitt vígi eða skanz eða liðþjálfa, en víst er, að fallbyssurnar voru þó til við Dönskuhús, til varnar höfninni og skipum, ef á þyrfti að halda. Ræningjarnir bjuggust við að mæta skotum frá höfninni, og því þorðu þeir eigi að sigla beint inn. Meðal sjófarenda norrænna og enskra hefir verið kunnugt um vígbúnaðinn, er fyrrum var við höfnina hér, og búist við, að svo væri áfram. Eyjamenn ætluðu sér í Tyrkjaráninu að verja landgöngu við höfnina, og því safnaðist fólkið niður á Dönsku Eyri og hafði þar vopnaviðbúnað. Fallstykkin voru hreinsuð og hverjum manni fengin byssa og aðrar varnir, þegar fréttist, að „óhreint væri um sjóinn“. Séra Ólafur segir, að fólkið hafi verið kallað „niður á Dönsku Eyrina, niður að Dönskuhúsum“, til að búast þar til varnar. Dönskuhús hafa staðið nokkuð austan við nýja verzlunarstaðinn og vestan við norður Skanzálmuna. Sagt er, að við gröft á þessum slóðum hafi fundizt leifar af gömlum húsarústum. Frá Dönskuhúsum létu ræningjarnir skotin dynja eftir bátum þeim, er kaupmaður og fólk hans flýði á til lands. Séra Ólafur Egilsson talar í ferðasögu sinni um skanzasmíði hjá Dönskuhúsum og annan viðbúnað, eftir að fréttist hingað um ránið í Grindavík. Mun þá hafa verið byrjað á að endurbæta gamla vígið frá 1586.
Þegar eftir Tyrkjaránið er búið að endurreisa eða fullgera Skanzinn, og var fenginn þangað herþjálfi, „Constabel“, eða byssuskytta, til þess að fara með fallbyssurnar og hafa gæzlu og umsjón með Skanzinum og stjórna heræfingum eyjamanna. Fallbyssurnar munu vera þær sömu og hér voru 1586 og getið er um í umboðsreikningum frá þeim tímum. Voru það litlar skipskanónur, svokallaðar „Emkenfalconetten“. Menn bjuggust við, að Tyrkir myndu leita hingað út aftur til rána. Þótti mönnum sem mikill voði stæði af þessu fyrir eyjarnar og mikil fjárhagsleg verðmæti einnig í hættu og ekki minnst fyrir konungssjóð. Til þeirra ráða var nú tekið, að koma upp vígbúnaði í eyjunum sjálfum og kenna mönnum vopnaburð. Margt var, sem studdi að því, að menn þóttust geta búizt við Tyrkjum hingað aftur. Þannig er þess getið í Skarðsárannál, að 1631 hafi enskir unnið 15 Tyrkjaskip við England. Í sömu heimild segir, að fréttasögn hafi komið til Englands um að Tyrkir vildu senda 12 skip til Íslands eftir fólki, og að bréf hafi komið til Íslands frá íslenzkum herleiddum mönnum í „Barbería“ um að Tyrkir hefðu ætlað til Íslands þrjú næstu árin, en ætíð hindrazt.²) Í bréfi Jóns Jónssonar yngra frá Grindavík, er hertekinn var, skrifað í Arzel 24. jan. 1630, segir, að Tyrkir hafi vænzt útlausnargjalds frá Íslandi fyrir hina herleiddu, en með því það hafi eigi fengizt, hafi þeir eigi sótt fleira fólk til Íslands, sbr. og bréf Guttorms Hallssonar, ritað 20. nóv. 1631.³)
Vígbúnaðurinn á Skanzinum í Vestmannaeyjum, heræfingarnar, í sambandi við að vaka hefir verið tekin upp og gát á skipum, hefir treyst vonirnar um að vörnum yrði við komið, ef ræningjar leituðu að.
Árið 1639, eða 12 árum eftir Tyrkjaránið, var Jón Ólafsson Indíafari og byssuskytta konungs í Kaupmannahöfn kjörinn til þess að vera byssuskytta (Constabel) á Skanzinum í Vestmannaeyjum. Áður hafði annar maður haft þennan starfa á hendi, og var hann nú fallinn frá. Starf byssuskyttunnar var í því fólgið að hafa umsjón og umráð yfir víggögnum þeim, er fylgdu Skanzinum. Áskilið var og, að hann kenndi eyjamönnum hernaðaraðferðir og vendi fólkið við heræfingar, svo að það kynni að beita fyrir sig vopnum, ef á þyrfti að halda. Æfingar voru haldnar einu sinni í viku, og voru allir vopnfærir menn skyldir að mæta. Reynt var að búa sem bezt að Jóni Ólafssyni, svo að menn fengju haldið honum hér við þennan starfa. Var honum fengin hér bújörð fyrir sig og heimilisfólk sitt, en sjálfur dvaldi hann oftast í Dönskuhúsum í Skanzinum og hafði þar daglega mat og drykk.⁴) Jón fór frá Vestmannaeyjum eftir rúma ársveru þar, sökum þess að kona hans undi þar eigi. Ingibjörg Ólafsdóttir kona Jóns „kunni eigi við landslag í eyjum og undi sér með engu móti þar að vera, hvar af hún um síðir sturlun og langsemi fékk með óyndi“, sbr. Æfisögu Jóns Indíafara.
Eftir Jón Indíafara hefir verið fenginn nýr maður til að vera liðþjálfi og byssuskytta við Skanzinn. Hann er nefndur Gunder Óluffsen, Gunnar Ólafsson. Gunnar þessi eða Gunder er byssuskytta (Constabel) í Vestmannaeyjum frá því fyrir 1643 og með vissu fram um 1660, og hefir gegnt umgetnu starfi við Skanzinn allan þennan tíma, og ef til vill nokkru lengur.⁵) Sennilega hefir þessi maður verið síðasta byssuskyttan og eftirlitsmaðurinn við Skanzinn (Kornhoulskanzte). Því að þegar Oddur Magnússon lögsagnari í Vestmannaeyjum dæmdi hinn svonefnda vökudóm sinn um 1670, lítur svo út sem enginn sérstakur fyrirliði hafi lengur verið við Skanzinn.⁶) Með þessum dómi eru staðfestar venjur og reglur um vöku á Helgafelli. En eigi verður með vissu sagt um það, hvort hér er um ný fyrirmæli að ræða, eftir að hætt var að hafa fyrirliða í Skanzinum. Hitt gæti þó verið eins líklegt, að vaka á Helgafelli, er tekin hefir verið upp fyrstu árin eftir ránið, hafi haldið áfram. Tilhögunin með vökuna, eins og dómsákvæðin sýna, var þannig, að hver búandi skyldi vera skyldugur til að láta vaka uppi á Helgafelli einn fulltíða mann, tvo frá hverjum jarðarvelli, ei konur né ungmenni eður óráðvanda drengi. Vökumennirnir áttu að vera komnir upp á Fellið fyrir sólarlag og vera þar til miðs morguns, og kæmi nokkurt skip, eða útlenzkir bátar sæust á ferð, skyldu vökumenn bregða við, annar hlaupa í Skanzinn og segja þar til, en hinn hringja kirkjuklukkunum. „Skal vakan uppbyrjast á krossmessu á vorin og haldast svo lengi sem umboðsmaður tilsegir eftir hentugleikum. En hver, sem úti finnst óhlýðinn, svikull eða ótrúr, skal straffast eftir atvikum og málavexti, svo sem sá, er þverúðsamlega af illvilja brýtur á móti yfirvaldanna skikkan eða befalningu. Einnig skyldu þeir vera skyldir til að vera að morgni í Skanzinum og segja til, að þeir hafi vakað“. Í sama sinn vildi umboðsmaðurinn, Andrés Sveinsson, „innfært hafa í dóminn, að ef nokkuð upp á kæmi, þá skyldu allir skyldugir til varnar að búast. Það vildu eigi eyjamenn undirgangast, og sögðu sem satt var, að þar engin vörn fyrir væri; vildi og Oddur engan þar til skylda“.⁶)
Vakan á Helgafelli hélzt með vissu fram yfir 1700, og var svo mikil varúð höfð við, að enginn gæti svikizt undan, að vökumönnum var gert að skyldu að hlaða vörðu uppi á Helgafelli í hvert sinn til sannindamerkis um, að þeir hefðu verið vakandi. Umferðirnar eftir boðburði urðu þrjár á vökumenn á sumri.⁷)
Eftir að hin eiginlega vaka á Helgafelli var lögð niður, var þó haldið uppi verði, eða gát á skipum, á Skanzinum.
Fyrstu árin eftir Tyrkjaránið dró allmikið úr siglingum hingað til lands af ótta við ræningja. Á seinni hluta 17. aldar voru töluverð brögð að ránum og ójöfnuði útlendra duggara hér við land. Út af hernaðarástandi því, er var í álfunni á seinni hluta 17. aldar, gaf stjórnin út opið bréf um vörn landsins og sendi út hingað nokkuð af skotfærum og nokkra hermenn, sem þó voru kallaðir út aftur sama ár.⁹)
1667 rændu brezkir sjóræningjar á Austfjörðum og flýði þá fólk í fjöll og hella.¹⁰) Þess getur í annálum, að árið 1671 hafi stórt tyrkneskt skip, er var á leið til Vestmannaeyja, verið yfirunnið við strendur Skotlands af enskum herskipum.¹¹) — 1682 dreymdi mann einn vestur í Barðastrandarsýslu draum, er þótti boða það, að ræningjar mundu ræna hér á landi, sem í Vestmannaeyjum forðum.¹²)
Sjóreifara getur hér við land á 19. öldinni og hélt fólk þá vera tyrkneska ræningja, svo mjög hafði minningin um Tyrkjaránið bitið sig í vitund manna, en Tyrkir rændu hér eigi nema 1627. Þannig héldu menn vera Tyrki duggara þá, er rændu á bæ einum í Vopnafirði 1805.
Enski víkingurinn Gilpin, er hingað kom til lands á herskipi 1808, kom og til Vestmannaeyja og gekk þar á land með mönnum sínum. Heimti Gilpin aðgang að verzlunarhúsunum og hugðist að taka þar afgjaldasjóðinn (konungssjóðinn) hjá kaupmanni, er og var umboðsmaður, en enginn sérstakur sjóður var í höndum umboðsmanns, og fundust engir peningar hjá kaupmanni. Víkingarnir létu reka saman fé á Heimalandi og völdu úr því nokkuð af kindum og fluttu fram á skip sitt. Sagt er, að þeir hafi goldið fyrir féð fullu verði. Engar óspektir aðrar höfðu þeir hér í frammi. En mjög hafði fólk hér orðið hrætt við komu þeirra og hugði vera Tyrkjann, og flúði fólk sumt í fjöll og faldi sig. Bóndi nokkur, Bjarni Björnsson í Kornhól, er var hraustmenni, hafði mjög hvatt til þess, að eyjamenn veittu Gilpin atlögu, en til þess kom þó eigi, enda fóru þeir Gilpin friðsamlega fram við fólk.¹³) Í Kornhól átti lengi heima Jóhannes Illugason, er verið hafði í lífverði Jörundar hundadagakonungs, og deyði þar á níræðisaldri 1860.
Ótti og hræðsla við ræningja hélzt lengi við hér á landi og ekki sízt í Vestmannaeyjum, enda átti því og að hafa verið spáð, að eyjarnar yrðu rændar enn einu sinni, og trúðu margir þessu. Á síðari árum, er fiskveiðar erlendra manna hér við land tóku að aukast, fór mjög að bera á ásælni og yfirgangi útlendra sjómanna hér við fiskimið og við úteyjar.
Vestmannaeyingar tóku því fegins hendi, er sýslumaður þeirra, kapteinn A. Aug. v. Kohl, stofnaði Herflokk Vestmannaeyja, er komið var fram um miðja 19. öld. Nú var heræfingum haldið uppi aftur við Skanzinn og þar fylkt liði. Litlu fallbyssurnar, er verið höfðu á eyjunum frá 1586 og nú höfðu lengi verið geymdar uppi á búðarloftum, voru teknar fram aftur.
Allur vígbúnaður er nú lagður niður við Skanzinn aftur síðan um 1870—1880. Skanzinn var lengi aðalflagg- og merkjastöð fyrir skip og báta. Á hárri flaggstöng á Skanzinum var flaggað fyrir aðkomuskipum og þaðan einnig gefin merki eyjabátum, ef brimaði sjó, „flagga frá Leið“ eða „flagga að“. Garðsverzlun notaði og Skanzinn sem merkjastöð fyrir fólk, er vann fyrir verzlunina að fiskþurrkunarvinnu.
Skanzinn var mikið endurbættur í tíð Abels sýslumanns og kammerráðs. Og eftir miðja 19. öld lét von Kohl sýslumaður gera á honum umbætur. Á seinni tímum var Skanzinn aftur farinn að láta á sjá, hleðslur víða fallnar og komin rof sums staðar. Lét þá kaupfélagsstjóri Jón Hinriksson gera á honum nauðsynlegar og gagngerar umbætur.
Undir lok 18. aldar hefir Skanzinn verið mjög af sér genginn. 1787 segir í skýrslum héðan til stjórnarinnar, að í Vestmannaeyjum séu til leifar af gömlum Skanzi við höfnina.¹⁴) Getur verið, að þá hafi þegar verið búið að rífa niður suðurvegginn eða hluta af honum. En við það hefir Skanzinn misst mikið, og þykir hann eftir það ekki lengur bera með réttu Kastala-nafnið, sem Skanzinum stundum hafði verið gefið.
Fyrrum var Skanzinn í Vestmannaeyjum talinn meðal þess, er Sunnlendingafjórðung þótti mest prýða, og var þar talið: Eldri dómkirkjan, skólinn, landslögréttan, Alþingisbókin, konungsgarðurinn og Skanzinn í Vestmannaeyjum.¹⁵) Vestmannaeyingar ganga skemmtigöngur austur á Skanz og þaðan horfir fólk á og fagnar skipakomum og heimsiglingu báta úr róðri. Önnur var öldin á liðnum tímum, er ótti stóð af ókunnum skipum, er að landi báru. Skanzinn stendur enn sem óhagganlegur minnisvarði þeirra tíma.
Nú í seinni heimsstyrjöldinni var aftur hafin gæzla á Skanzinum. Þar höfðu brezkir setuliðsmenn beykistöð sína og fallbyssuvirki, og héðan höfðu þeir gát á öllum skipum, er leituðu hafnar. Þannig endurtekur sagan sig.

Heimildir og umfjöllun neðanmáls í þessum kafla:
1) Fornbr.s. VIII, 422.
2) Tyrkjaránssagan, bls. 338.
3) Tyrkjaránssagan, bls. 372—384 og 386—397.
4) Æfisaga Jóns Indíafara, sjá og Tyrkjaránssöguna VI.
5) Sjá reikningabók Landakirkju 1631—1704.
6) Þessi vökudómur er ritaður upp eftir eyjamönnum eftir minni 1704, A.M. Apogr. 5931; Tyrkjaránssaga, bls. 453—454.
7) Tyrkjaránssaga, bls. 453—454. Sjá Vopnadóm Magnúsar prúða frá 12. okt. 1581, er vökudómurinn að sumu leyti mun byggjast á.
8) Sóknarlýsing séra Gissurar Péturssonar. Vakan hefir staðið yfir fram í júlímánuð á hverju sumri.
9) Sjá opið bréf 3. júlí 1667, 7. og 8. júlí, 27. júlí s.á. — Norske Tegn. XI, 370; M. Ketilsson III, 125; Sjæll. Tegn. XXXVIII, 168, b. 171; Norske Tegn. XI, 374; M. K. III, 127; Lovs. I, 314—315.
10) J. Aðils: Einokunarsagan, bls. 605; Árb. Espólíns.
11) Safn t.s.Ísl. IV, 139; Annáll M. Magnússonar.
12) Safn t.s.Ísl. IV, bls. 175. Sjá og Krukkspá.
13) Bjarni í Kornhól var faðir Sigríðar fyrri konu Helga Jónssonar í Kornhól.
14) Efterretn. om Kjöbst. Distrikter, Forordn. 13. júní 1787.
15) Landfr.saga Íslands II, 97; Íslandslýsing séra Jóns Daðasonar, Gandreið, 1660.


Saga Vestmannaeyja efnisyfirlit