Saga Vestmannaeyja I./ X. Rán í Vestmannaeyjum, vígaferli og róstur
Þegar eftir fyrstu komur manna til Vestmannaeyja, er sögur herma frá, urðu þar mannvíg. Segir frá þessu í Landnámu. Hinir írsku menn, er Hjörleifur Hróðmarsson hafði tekið í Írlandi, brutu af sér ánauðarokið og drápu hann og menn hans í Hjörleifshöfða og komust síðar út í eyjar. Írarnir, Vestmennirnir, sem Vestmannaeyjar heita eftir, guldu líf sitt með nafngiftinni og duft þeirra huldist þarna moldu. Fornsögurnar geta eigi Vestmannaeyja og koma þær eigi við söguefni þar. Hefði þess helzt mátt vænta um Njálu.
Frásagnir um vígaferli í hinni svokölluðu Holta-Þóris sögu, út af viðureign Þorgeirs Skorargeirs við Landeyinga út af veiðiskap, hafa menn verið sammála um að heimfæra til Vestmannaeyja, og að viðureignin, ef annars er nokkuð á þessari sögu að byggja, hafi átt sér stað þar, sem heitir Sauðatorfa á Dalfjalli¹).
Sumarið 1218 réðust norskir kaupmenn í Vestmannaeyjum að Ormi Jónssyni Loftssonar í Odda og fylgdarliði hans. Ormur Jónsson bjó að Breiðabólsstað í Fljótshlíð²). Var Ormur veginn þar í eyjunum og með honum sonur hans, Jón að nafni, ungur maður, messudjákn að vígslu. Skeggi prestur og Þorleifur djákn úr Kollabæ. Af Norðmönnum féllu tveir menn í þessari viðureign. Deilur þessar áttu upptök sín í því, að þeir Sæmundur Jónsson í Odda og Þorvaldur Gissurarson í Hruna, faðir Gissurar jarls, lögðu verð á varning austmanna eða kaupmanna á Eyrarbakka, sem þeim var bæði heimilt og skylt samkvæmt lögum og landsvenju³), en Norðmenn munu þótzt hafa orðið hart úti. Varð af þessu óvild mikil hjá kaupmönnum, svo að Páli syni Sæmundar í Odda varð eigi vært í Björgvin og fór hann þaðan í brottu skyndilega, en drukknaði í þeirri ferð. En Sæmundur mun hafa kennt kaupmönnum um dauða sonar síns. Fór hann að norskum á Eyrarbakka sumarið 1217 og tók upp fyrir þeim vöru, en hinir munu hafa hugað á hefndir, er tækifæri gæfist. Hlutust af þessu vígaferlin í Vestmannaeyjum í ágústmánuði sumarið 1218 og dráp Orms Jónssonar þ. 6. ágúst. Hafði Ormur þó reynt að stilla til friðar í deilunum milli Sæmundar í Odda bróður hans og hinna norsku kaupmanna. Var Ormur Jónsson að öllu hinn ágætasti maður⁴).
Á 15. og 16. öld var róstusamt í Vestmannaeyjum fremur en annars staðar hér á landi. Eru frá þessum tímum fyrstu fregnir um rán framin þar af útlendum sjóræningjum.
Róstur þessar og erjur stöfuðu mest af viðureign fógeta og umboðsmanns Danakonungs hér á landi — og síðar forstjóra konungsverzlunarinnar í Vestmannaeyjum — við enska útgerðarmenn og kaupmenn, er tekið höfðu sér beykistöð og aðsetur í eyjunum til að reka þar kaupskap og fiskveiðar, án þess að leita til þess leyfis konungs og án þess að greiða ákveðin gjöld, sekkjagjöld og tolla. Danakonungur taldi sér öll yfirráð yfir Norðurhöfum, þ.e. norðurhluta Atlantshafsins millum norðurhluta Noregs, Færeyja og Íslands, en þessi yfirráð vildu enskir kaupmenn og farmenn eigi viðurkenna.
Englendinga er fyrst getið í opinberum skjölum í Vestmannaeyjum um sumarið 1413⁵). En sennilegt er, að þeir hafi löngu fyrr leitað hingað til lands og á hin fiskisælu mið eyjanna og stundað þar fiskveiðar og haft viðskipti við eyjamenn. Flestir hinna ensku duggara og kaupmanna hafa farið með friði og spekt og haft friðsamleg kaupskaparviðskipti við eyjamenn. Var verzlun þeirra lengi rómuð fyrir það, hversu hagfelld hún hafði verið eyjamönnum. En í hópi þessara manna slæddust og með ýmsir misendis- og óspektarmenn, er gerðu sig seka um rán og reyfaraskap, sem þó einkum virðist hafa verið beint að umboðsmönnum konungs í eyjunum. Af þessum erjum stóð ærinn styr og hlutust stundum af mannvíg. Snemma hafa sjómenn hér mátt eiga í brösum við erlenda fiskimenn, er spilltu veiðarfærum og gerðu annan skaða.
Árið 1396 eða 1397 var Þórður bóndi Árnason veginn í Vestmannaeyjum af útlendum kaupmönnum. Lágu þar sex skip. Margir stórir áverkar urðu þá. Hlýtur að hafa komið til bardaga milli eyjamanna og hinna útlendu kaupmanna, er munu hafa verið enskir, er svo voru kallaðir einu nafni, en átt þar jafnt við Íra og Skota, er fjölmennir voru meðal duggaranna.
Árið 1415 ræntu enskir duggarar skreið konungs og nokkrum árum síðar ræntu þeir þar einnig 9 lestum af harðfiski, er mun hafa verið afgjaldafiskur konungs, er umboðsmaður hefir haft undir höndum. Er sennilegt, að fleira hafi gerzt sögulegt hér í þessari ferð. Komu þá eitt eða fleiri ensk skip hingað undir forustu John Morris og Rawlin Tirrington. Helgi Styrsson var þá sýslumaður í Rangárvallasýslu, og lágu Vestmannaeyjar undir þá sýslu að því er dómsvald og löggæzlu snerti. Tók sýslumaður 1420 það loforð af enskum kaupmönnum, er verzlað höfðu óleyfilega, að þeir kæmu til Alþingis og legðu mál sín þar undir dómsvald Alþingis⁶). Af þessu mun samt eigi hafa orðið. Upp frá þessu eða með komu þeirra Hannesar Pálssonar, er var prestur og kapellán Eiríks Danakonungs, Eiríks af Pommern og Balthazar af Damme, er komu út í Vestmannaeyjum 1422 og þá höfðu fengið Ísland að léni, hófst baráttan af hendi konungs og konungsmanna til að stökkva Englendingum burtu frá eyjunum.
1425 fóru þeir Hannes Pálsson og Balthazar, hirðstjórar landsins, aftur út í eyjar til að hefta þar yfirgang enskra, er höfðu hótað að ræna þar og rupla, ef konungsmenn vildu hefta framgang þeirra. Hefir verið sökótt í eyjunum um þessar mundir og hafa enskir haft þar vígbúnað og komið höfðu þeir sér upp virki í eyjunum, sem í gömlum skjölum er nefnt Kastali eða Castel. Hefir þarna verið aðalvígi enskra kaupmanna og útgerðarmanna hér á landi, er leituðu þangað öryggis, er þeir sízt urðu sóttir af handlöngurum konungs hér á landi, Bessastaðavaldinu. Þannig voru í enska víginu í Vestmannaeyjum árið 1425 menn þeir, er verið höfðu fyrirliðar í aðförum þeim, er enskir höfðu gert áður að konungsgarðinum á Bessastöðum. Voru þeir hirðstjórarnir Hannes og Balthazar einmitt komnir til eyjanna þetta sumar, 1425, til að taka forgöngumenn eða fyrirliða hinna ensku kaupmanna höndum þar. Munu hirðstjórarnir hafa haft með sér nokkurn liðsafnað til eyjanna og í för með þeim hefir sennilega verið sýslumaðurinn í Rangárvallasýslu. Hefir förin verið hafin af landi á skipum konungs, eða með bátum úr Landeyjum. En í eyjunum voru Englendingar viðbúnir að veita hinum viðtökur. Hafa þeir fylgzt með ferðum þeirra og hagað viðbúnaði sínum þar eftir. Urðu kaldar kveðjur, er hirðstjórarnir komu í eyjarnar, en þar voru enskir liðmargir fyrir. Brutu þeir þegar báta aðkomumanna, til þess að þeir gætu eigi komizt undan til lands. Gengu síðan upp frá sjónum, þar sem bátunum hefir verið lagt að, sennilega skammt vestur af Hafnareyri, og héldu svo með fylktu liði og með fána í broddi fylkingar upp eftir Heimaey með boga og örvar og önnur vopn og á þann stað, sem hirðstjórarnir höfðu flúið til eða leitað sér hælis, því að þeim mun eigi hafa litist á blikuna, er hinir voru svo liðmargir fyrir. Þessi staður eða staðir ofan til á eynni, er leitað var hælis á, munu hafa verið annaðhvort prestssetranna í eyjunum, Ofanleiti eða Kirkjubær, eða á báðum stöðum. Kirkjur voru á þessum tímum á báðum prestssetrunum. Eigi sló þó í bardaga að þessu sinni, heldur varð griðum komið á til bráðabirgða, líklega fyrir milligöngu prestanna. Nú vildu hirðstjórar leita til strandar aftur og komast burtu frá eyjunum og stíga á skip sitt. Mun skip hirðstjóranna hafa legið á höfninni, nema hirðstjórarnir hafi látið flytja sig á bátum af landi, sem er ósennilegra. Bátana var nú búið að brjóta og hæglega hafa Englendingar getað hamlað því, að eyjamenn flyttu hina um borð. En hvernig sem þessu hefir verið varið, slepptu hinir ensku samt ekki hirðstjórunum, heldur höfðu þá í haldi og rændu öllu fémætu, er þeir höfðu meðferðis til 400 nóbla virðis. Munu þetta hafa verið afgjöld konungs og skattar af eyjunum m.m. 10 nóbel jafngiltu hér um bil 42 rd. Í þessari viðureign var drepinn hér einn maður af liði hirðstjóra, Oluf Duve að nafni, og mun hafa verið danskur. Fleiri mannvíga er eigi getið í þessari viðureign. Liði hirðstjóranna lofuðu Englendingar að fara ferða sinna heim aftur eða út á skip, en hirðstjórana höfðu þeir með sér til Englands og er talið, að þeim muni eigi hafa verið sleppt nema gegn ærnu lausnargjaldi. Hannes Pálsson samdi ýtarlegt og harðort kæruskjal, þar sem þessum málum er lýst, og sendi ensku stjórninni⁷). Lögmannsannáll getur þessara stórtíðinda, er báðir hirðstjórar landsins voru höndum teknir í Vestmannaeyjum, aðeins í sem fæstum orðum. Þetta hörmuðu fáir landsmanna, segir í sömu heimild⁸).
1484 reyfðu enskir víkingar allar Vestmannaeyjar og víða annars staðar. Hefir þá verið framið hér eitt stórránið, svo sem gerðist hér seinna. Um þetta rán er annars lítt kunnugt. Getur vel verið, að fólk hafi flúið í hella og fylgsni í þessu ráni eins og síðar. Var tilefni þessara rána, eftir því er séð verður af vitnisburði Guðna sýslumanns Jónssonar í Gullbringusýslu og þriggja annarra manna⁹), yfirgangur Diðriks Pinings hirðstjóra eða konungsumboðsmanns og ýmsra sýslunarmanna hans og ásælni, er þeir beittu enska kaupmenn hér, er þeir hafa þótzt eiga eitthvað útistandandi við.
Svo er að sjá sem bændur frá Vestmannaeyjum, eða landsetar konungs þar, hafi verið eins konar gíslar Englendinga, er þeir hafa haldið hjá sér og ætlað að nota til þess að fá hirðstjórann til þess að sveigja til við sig. Þessi stríða barátta milli höfuðsmanns og enskra útgerðarmanna og kaupmanna hér á landi, er höfðu aðalbeykistöð sína í eyjunum, hefir auðvitað að mörgu leyti komið hart niður á eyjabúum, og hafa hagsmunir þeirra hér, sem endranær í þeim viðskiptum, mátt lúta í lægra haldi.
Á kaupstefnum þeim, er enskir kaupmenn héldu í Vestmannaeyjum fyrrum, er hafa hafizt þegar á öndverðri 15. öld eða fyrr, kom mesti fjöldi manna úr nærsýslunum á landi. Hefir þá verið margt um manninn í eyjunum og sízt vanþörf á, að gerðar væru nauðsynlegar ráðstafanir til þess að vernda friðinn. Útlendingar voru hér oft mjög fjölmennir og skip þeirra svo tugum skipti lágu hér í höfn. Ærið sukksamt og róstugjarnt mun hafa verið á kaupstefnum þessum og erfitt að halda uppi friði. 1514 varð hér bardagi í Vestmannaeyjum með Síðumönnum, er verið hafa hér í kaupskaparerindum, og enskum. Féllu í þeim bardaga 13—14 af enskum, en einn maður af hinum íslenzku, presturinn séra Jón, er kallaður var smjörnefur og þá hélt Skarð í Meðallandi¹⁰). Til er og önnur frásögn um fund Englendinga og Síðumanna í Vestmannaeyjum, en með vissu verður eigi sagt, hvort báðar sagnirnar eiga við sama bardaga eða bardagar hafa átt sér tvisvar stað milli nefndra aðilja. Síðari frásögnin¹¹) segir, að Gissur sonur Sigvalda Langalífs og Þuríðar Einarsdóttur frá Vatnsfirði hafi verið í hel sleginn í Vestmannaeyjum af eingelskum í upphlaupi, er skeði þar, þeirra á millum. Þeir voru þar allir Sigvaldasynir, þar á meðal Einar faðir Gissurar Skálholtsbiskups Einarssonar. Voru tvær áttæringsskipshafnir af íslenzkum móti þrettán enskum skipum. Segir, að þeir ensku hafi látið mest ganga örvadrif af handbogum, en íslenzkir gengu fram með grjót og þung vopn. Féll þar Gissur, sonur Sigvalda Langalífs, og tveir aðrir af Síðumönnum. En tíu féllu af þeim ensku. Lifað hefir í munnmælum hér sögn um, að enskir menn, er fallið hafi í bardaga hér í eyjunum fyrir ævalöngu, hafi verið dysjaðir þar, sem enn heita Ensku-Dysjar í Torfmýri skammt sunnan við Herjólfsdal. Dysjar þessar eru tvær og sáust greinilega fram á þessa öld. Hafa því dysjar þessar verið settar í samband við þennan fund eða fundi Síðumanna og Englendinga, sem ætla mætti fremur af því, að dysjarnar eru tvær, að hafi verið tvennir, því að hinir íslenzku, er fallið hafa, hljóta að hafa verið færðir til legs í kirkjugarði. Dysjar þessar sáust til skamms tíma greinilega og merki þess, að grafið hafði verið í þær endur fyrir löngu¹²).
Eftir að Danakonungur sjálfur árið 1558 tók að stunda fyrir eiginn reikning verzlun í Vestmannaeyjum og síðar útgerð, gerðist þar allagasamt út af viðskiptum konungsmanna og enskra, er sóttu það fast að halda útgerð sinni og verzlun á eyjunum, og munu í því eftir megni hafa verið studdir af eyjamönnum, eða að minnsta kosti eftir því, sem hægt var fyrir þá að koma því við án þess að opinbert yrði. Mun líkast því, sem í Vestmannaeyjum hafi verið eins konar hernaðarástand á þessum tímum og rammar skærur milli hinna dönsku hér í eyjunum og erlendra sjómanna, og geta mannvíg hafa hlotizt af, þótt þess sé raunar eigi getið. Róstusamt var og stundum milli íslenzkra hér og mannvíg, svo sem um 1570.
Konungur sendi hingað út herskip 1559, er átti að halda enskum og skozkum skipum frá fiskimiðunum hér við eyjar. Hefst nú fyrsta landhelgisgæzlan, sem kunnugt er um hér við land. Skipaði konungur fógetum sínum hér að eyðileggja fiskibáta þá, er Englendingar áttu hér og gerðir voru héðan út, og einnig að taka duggur þeirra, er voru á fiski við eyjarnar, og færa til lands og gera upptæk skip og afla. Á seinni tímum konungsverzlunarinnar hafði konungur þar tvo varðbáta, litla kanónubáta, mannaða skotmannaliði, til að halda enskum fiskiskipum og duggum í skefjum.
Af umgetinni baráttu milli forstöðumanns konungsverzlunarinnar annars vegar og hinna ensku kaupmanna og útgerðarmanna á eyjunum hins vegar hlauzt auðvitað mikill styr og var þá eigi alltaf sem friðsamlegast hér. Þannig tóku enskir hús á forstöðumanni konungsverzlunarinnar, Símoni Surbech, og handtóku hann, en létu hann samt lausan aftur bráðlega. En seinna, er hann sigldi héðan til Kaupmannahafnar, tóku enskir fiskimenn skip hans. Hafa þeir þótzt eiga Símoni grátt að gjalda frá viðskiptum þeirra hér í eyjum.
Erlendir sjómenn gerðust æ nærgöngulli fiskiskipum hér, svo að það kom fyrir, að þeir rifu upp veiðarfæri eyjamanna og ónýttu og lögðu sín eigin í staðinn. Þetta kærði danska stjórnin fyrir Elísabetu Englandsdrottningu, er gaf út stranglegt bann 1585 til þegna sinna gegn slíku framferði¹³).
Konungur sendi hingað flotaforingja sinn til að reisa hér virki 1586, og máttu eyjamenn vinna að virkisbyggingunni í skylduvinnu. Fallbyssur voru settar í vígið og vörður, er hafa skyldi gát á skipum, er hafnar leituðu. Er hér upphaf Skanzins í Vestmannaeyjum¹⁴).
Rána og reyfaraskapar af hendi útlendra sjóreyfara gætti og mjög fyrr á tímum í Færeyjum, eigi síður en hér í eyjum, en þar sums staðar er aðstaðan eigi ólík, og virðist sem hinn sami reyfaralýður hafi verið þar að verki. Kom það alloft fyrir, sbr. færeyskar þjóðsögur og sagnir, að útlendir reyfarar rændu þar bæi í afskekktum byggðum og kirkjur, en fólk flýði í fjöll og fylgsni. Rána er og getið í sjávarhéruðum í Noregi¹⁵).
Stórrána er ekki getið með vissu í Vestmannaeyjum fyrr en 1614. Raunar segir um ránið 1484, að þá hafi ræningjarnir reyft allar Vestmannaeyjar, svo að vera kann, að það rán hafi verið eins mikið og ránið 1614. Upp úr aldamótunum 1600 hefir verið komin ró á að mestu í Vestmannaeyjum eftir hina hörðu viðureign um verzlunar- og útgerðarmálin, er þar var háð. 1601 voru skip kaupmanna þeirra, er höfðu verzlunina í Vestmannaeyjum, rænd í hafi af enskum sjóræningjum¹⁶). Er svo eigi getið neinna slíkra tíðinda í rúman áratug. En umgetið ár (1614) gerðust þau illu tíðindi, að í Vestmannaeyjar kom sjóræningjaskip, stórt og vígbúið og á því fjöldi manns. Var fyrirliði skips þessa enskur, en skipshöfn óaldarlýður af mörgum þjóðum. Hét fyrirliðinn eða kallaði sig John Gentelmann. Ræningjar þessir gengu á land í Vestmannaeyjum og voru mjög fjölmennir, svo að enginn fékk rönd við reist. Dvöldu þeir hér í full 28 dægur og gáfu sér því góðan tíma til að framkvæma ránin. Segir svo frá þeim, að þeir hafi farið inn í hvert hús í eyjunum, þá bæði að því er virðist á bæjunum uppi í byggðinni sem í þurrabúðirnar niður í Sandi, og auðvitað um verzlunarhúsin ekki sízt, er kaupmaður hefir mátt framselja þeim. Frásagnirnar herma, að ræningjarnir hafi rannsakað hvern krók og kima og rænt og ruplað öllu fémætu, sem þeir vildu nýta, og borið það út á skip sitt. Þeir gengu um eyjarnar og ógnuðu mönnum með brugðnum sverðum, hnífum og byssustingjum, en fólkið, sem gripið var miklum felmtri, flýði margt heimili sín og leitaði sér fylgsnis í fjallaskútum og í hellum í Hrauninu, eins og segir í kvæði séra Jóns Þorsteinssonar píslarvotts um þessa atburði: „Vér flýðum út í fjöll og hraun, fullir af sorg og ótta.“ Kvæðið heitir: Ein vísa um þann ránskap, sem skeði í Vestmannaeyjum 1614, og er 41 erindi¹⁷). Í kvæðinu er ströng ádeila á eyjamenn fyrir slæman lífernismáta, guðleysi þeirra, ágirnd, svik og pretti, fyrir ofnautnir og drykkjuskap, og þetta sé makleg hirting. Getið er og þarna um ýms tákn og fyrirboða, er í eyjunum skeðu áður en rán þetta varð. Jarðskjálfti kom mikill og hlupu feikna skriður úr fjöllum. Sú sögn hefir verið, að þá hafi hlaupið móbergsskriðan mikla úr Molda í Herjólfsdal. Sjór gekk á land, svo að undrun sætti, og úr sjónum gekk á land ókunn skepna, er engin vopn bitu, og hvarf hún svo í sjóinn aftur. Um þessar mundir (1612) gaus Katla. Er það talið níunda gosið, og kom vatnsflóð mikið úr Mýrdalsjökli. Hefir þá sjór gengið á land í Vestmannaeyjum, eins og oft hefir átt sér stað. Eyjafjallajökull gaus og nefnt ár. 1613 voru jarðskjálftar miklir á Suðurlandi¹⁸).
Í ráni þessu hafa eyjamenn orðið fyrir miklu eignatjóni, því að, eins og áður segir, ræningjarnir létu greipar sópa, og skemmdu hitt, er þeir eigi gátu haft á burtu með sér. Kvikfénaði eyjabúa munu þeir hafa slátrað óspart, þeim er til náðist. Þeir heimtuðu matvæli af mönnum, vín og ölföng, er fáanleg voru. Segir í áðurnefndu kvæði: „Ribbaldar vorum ræntu auð, bú og húsin svo gerðu snauð og hjuggu sumt í sundur.“ Þess er sérstaklega getið, að þeir hafi rúið og rænt Landakirkju öllum gripum hennar, bókum og messuklæðum. Þar á meðal höfðu ræningjarnir á burtu með sér hina stóru kirkjuklukku úr Landakirkju. Af kvæði séra Jóns má sjá, að allillkvittnislegur orðrómur og lygar hafa borizt upp til meginlandsins, eða hefir sprottið þar upp, um meðferð ræningjanna á konum og körlum í eyjunum. Tekur séra Jón, sem hefir sárnað þetta vegna sóknarbarna sinna, duglega í lurginn á þeim, sem beri út slíkar lygar og beitir sér í krafti mælsku sinnar og andagiftar gegn þessum álygum, sem sumir á landi að vísu hlakki yfir, eins og hann sé að kveða niður magnaðan draug. Þeim kemur og saman um það, er um þetta rán hafa ritað, að ræningjarnir hafi hvorki drepið né sært nokkurn mann, né smánað ærlegt kvenfólk. Segir svo séra Jón Þorsteinsson í greindu kvæði: „Féð var rænt, en fólkið allt frelsaði guð, svo enginn galt á lífi né æru sinni.“ Séra Ólafur Egilsson segir og í ferðasögu sinni, að þegar Tyrkir seinna komu að Ofanleiti og rændu þar, hélt hann, að hér væru aftur á ferð enskir sjóræningjar og kveið þess þá eigi, að mannvíg yrðu framin eða fólkið hertekið.
Eftir þessa atburði sendi Danakonungur 1616 flotaforingja sinn með sex herskip til eftirlits í Vesturhafinu og í Norðurhöfum „við Ísland, Færeyjar og Vestmannaeyjar“¹⁹). 1618 var Jörgen Vind sjóliðsforingi sendur með herskip til Færeyja og Vestmannaeyja til að hafa gát á sjóræningjum²⁰).
Heimildir og umfjöllun neðanmáls í þessum kafla:
1) Páll Sigurðsson, Safn t.s.Ísl., Árb. Fornl.fél. 1914. — Holta-Þóris
saga er nýlega samin og ekkert gamalt handrit hefir fundizt af henni, en
því hefir verið slegið fram eftir gömlum sögnum, að því er sagt er, að
hún hafi til foma verið til í Holti undir Eyjafjöllum, en þar og á þeim
slóðum bjuggu söguhetjurnar, Holta-Þórir, bróðir Njáls að Bergþórshvoli
og synir hans, Þorgrímur hinn mikli og Þorgeir Skorargeir.
2) Móðir Orms var Ragnheiður systir Þorláks biskups hins helga.
3) Safn t.s.Ísl.
4) Sturlungas., Rvík 1909, II, 74—75; Ísl. Ann.; Ísl. árt.skrár, Khöfn
1893—1896, 57—58; Árb. Fornl.fél. 1913.
5) Lögmannsannáll.
6) Ísl. Fornbr.s. IV, 269.
7) Kæruskjal Hannesar Pálssonar er í Fornbr.s. IV, 324—334.
8) Ísl. Ann. 294.
9) Ísl. Fornbr.s. VII, 12—13.
10) Safn t.s.Ísl. II, 45; Biskupaannáll séra Jóns Egilssonar.
11) Ritgerð séra Jóns Gissurarsonar á Núpi.
12) Árb. Fornl.fél. 1914.
13) D. Canc. Isl. og Færö, Supplem. Nr. 2 (Rigsark.).
14) Canc. Brevb. 1586—1588.
15) Færöske Folkesagn og Æventyr, J. Jakobsen, Khavn 1898—1901. Sagnir og Ævintyr, J. Jakobsen, Tórshavn 1925.
16) Canc. Brevb. 1596—1602, bls. 745.
17) Tyrkjar.s. XXXVII—XLIII. í Bfél. Khd. 65, 8vo.
18) Sjá Rit um jarðelda á Íslandi, 2. útg. 1930, bls. 16 og 323.
19) Sjá konungsbréf 8. apríl 1616, Canc. Brevb. 1616—1620, bls. 23.
20) Sjá konungsbr. 22. apr. 1618, Canc. Brevb. 1616—1620, bls. 384—385.