Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Verzlunarstjórinn í Garðinum

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search


Verzlunarstjórinn í Garðinum.


Aðalverzlunarstaðurinn í Vestmannaeyjum hefur um langt skeið verið nefndur Garður eða Garðsverzlun. Var þar selstöðuverzlun hinna dönsku einokunarkaupmanna, konungsverzlunin, meðan hún var, og eftir að hún hætti, selstöðuverzlun hinna dönsku stórkaupmanna. Verzlunarstjórar voru þar að jafnaði danskir og fór af þeim misjafnt orð.
Fyrir löngu var þar einu sinni danskur verzlunarstjóri, en ekki er getið nafns hans. Var hann mesti misindismaður og höfðu eyjarskeggjar fengið að kenna á því. Beitti hann þá mikilli harðýðgi í viðskiptum, og var hann ákaflega illa þokkaður, eins og vænta mátti. Hann hafði átt góða konu, en hennar naut skammt við, því að hún dó ung.
Þegar verzlunarstjórinn dó, var lík hans látið standa uppi í múrstofunni, er síðar var nefnd Brydastofa eftir að Pétur Bryde eignaðist Garðinn. Eins og venja var, voru tveir menn fengnir til þess að vaka yfir líkinu um nætur, meðan það stóð uppi. Hinar fyrstu nætur, sem þeir vöktu, var þeim varla við vært fyrir reimleika. Heyrðu þeir allskonar hávaða og ill læti, og sáu það, að verzlunarstjórinn var genginn aftur, og kominn í hinn versta ham. Eina nóttina varð þeim gengið út til þess að litast um, og gengu þeir niður á sjávarbrúnina við Steinbryggjuna. Er þeir höfðu verið þar um stund, varð þeim litið upp á Heimaey, og sáu þeir þá hvar ljós eitt, skært eins og stjarna, leið niður eftir og hvarf þeim inn í múrstofuna, þar sem líkið stóð uppi. Þótti þeim þetta ærið undarlegt og fóru þegar upp í múrstofuna til þess að grennslast eftir því, hvað þetta hefði verið. Inni í stofunni urðu þeir einskis varir, og fóru þess vegna út aftur. Er þeir höfðu verið skamma hríð úti, sáu þeir hvar stjarnan kom líðandi út úr stofunni, og fór hina sömu leið upp á Heimaey, og sáu þeir það seinast til hennar, að hún hvarf inn í Landakirkjugarð. Eftir þetta urðu þeir einskis reimleika varir, meðan þeir vöktu yfir líkinu, og hefur þess aldrei orðið vart síðan, að verzlunarstjórinn gengi aftur. Töldu menn, að þessi stjarna hefði verið hin góða kona verzlunarstjórans, og hefði hún komið til þess að telja um fyrir honum og leiða hann til betri vegar.
(Sögn Jóns Jónssonar).