Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Merkileg sýn
Í öndverðum ágústmánuði í sumar fór Gísli kaupmaður Stefánsson til Reykjavíkur til að láta gjöra á sér holskurð við meinlæti í þvagfærunum. Næsta fregn hingað af honum, kvað holskurðinn hafa lánazt vel og hann á bezta batavegi. Svo fréttist aftur síðar, að honum hefði slegið niður aftur, og væri talsvert lasinn, en þó bjóst enginn hér við því, að hann væri í bráðri lífshættu.
Morguninn 25. september, nálægt kl. 7, dreymdi Ágúst son hans, að vasaúr sitt sé mölbrotið, og sólin sé að renna. Vaknar hann í sömu svifum og segir: „Guð hjálpi mér, það er þá komið sólarlag.“
Rétt áður var Guðrún dóttir mín, kona Ágústs, vöknuð, og sá hún þá — alvöknuð — Gísla tengdaföður sinn, standa fyrir framan rúmgaflinn svo klæddan sem hún hafði séð hann hér síðast, og líta til sín með raunalegu líðandi eða dreymandi augnaráði, og því næst líða til hliðar og hverfa, eða verða að engu.
Sama morgun kom „Vesta“ með þá fregn, að Gísli hefði verið kominn að dauða og síðast fréttist með „Kong Inge“ 3. þ.m., að hann hefði dáið morguninn 25. september, einmitt um sama leyti sem Ágúst dreymdi téðan draum og kona hans sá svip tengdaföður síns hjá rúmi sínu. Þetta sagði Guðrún dóttir mín mér einum eða tveim dögum eftir að hún hafði séð sýnina. Síðan spurði ég þau bæði hjónin saman að þessu aftur og stóð allt heima við það, sem hér er skráð.
- Vestmannaeyjum, 20. október 1903.
- Þorsteinn Jónsson (læknir).
- Þorsteinn Jónsson (læknir).
- Vestmannaeyjum, 20. október 1903.
(Þjóðviljinn 17. nóvember 1903, bls. 183—184).