Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Hörð eru sig

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search


Hörð eru sig ...


Þórður Geirmundsson á Eystri-Löndum seig fyrstur í Stórhellana í Hellisey. Voru þeir margir við eggjatekju í Hellisey, og báðu hann að síga þá, en hann vildi ekki gjöra það. Lagði hann sig til svefns og dreymdi hann þá, að til hans kæmi kona og kvað hún við hann þessa vísu:

Hörð eru sig í Háubæli og hættuleg.
Hábrandinn ei hræðist ég,
en Hellisey er ógurleg.

Er hann vaknaði kvaðst hann fús til þess að síga í Stórhellana, því versta sigið í Hellisey var talið af Háhausnum c: Hábrandinum. Háubæli eru einnig til í Hellisey. Þórður var mikill smiður, rokkarennari og langspilasmiður.
Aðrir segja, og er það almenn sögn, að Jón dynkur hafi ort þessa vísu og er það sanni nær. Ekki þekkjast nú Háubæli í Hellisey. Eru þau í Elliðaey, og er þangað með verstu sigum, því loft er mikið. Nú er hæsti tindurinn á Brandi nefndur Hábrandur. Það er talið, að erfiðast og verst sig í Vestmannaeyjum sé í Hellisey, í Stórhellana, og er rið þar svo langt, að hvergi mun annað eins. Jón dynkur var mikill fjallamaður, og lét sér fátt fyrir brjósti brenna. Einu sinni var hann við sig í Bjarnarey á Langvíuréttunum, sem eru allhátt uppi í berginu. Fór hann laus, en var af vangá kippt niður með gagnvað. Féll hann í sjóinn skammt frá þeim, sem lágu á bát. Um leið og honum skaut upp úr kafinu, varð honum að orði: „Heyrðuð þið ekki dynk, piltar?“ Fekk hann af þessu viðurnefnið dynkur. Hann hrapaði til bana úr Molda.
(Sögn Ólafs Sigurðssonar, Strönd, að því er fyrri hlutann snertir, en almenn sögn að öðru leyti).