Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Grunur Sigríðar
Sigríður Þorsteinsdóttir hét kona í Presthúsum í Vestmannaeyjum. Hún átti mann, er Magnús hét Vigfússon. Þeim búnaðist eigi vel í Presthúsum, því Magnús var drykkfelldur.
Einhverju sinni segir Sigríður: „Þú lifir mig, Magnús.“
Annað skipti mælti hún, er hann kom neðan úr Sandi: „Nú er einn yngissveinninn feigur, það er hörmungarsjón.“
Báðar þessar spár rættust, sú síðari fyrr og á þann hátt, að ungur og mjög efnilegur maður, Ísleifur Jónsson, hrapaði, af völdum jarðskjálfta, úr Heimakletti. Náðist hann allur marinn og beinbrotinn, aðeins með lífsmarki og dó þegar. Þetta varð 1896, rétti eftir að Sigríður sá það.
Magnús ráðgaðist við konu sína um nær öll áform sín, einkum á hvaða skipi hann skyldi róa. Réð hún mestu um það. Einu sinni segir hún: „Vertu aldrei með Gísla á Búastöðum á fjöllum eða sjó — mundu það.“ Magnús hét því, en endingin varð lakari, því nokkrum árum síðar réðist hann háseti um vetrarvertíð á sex manna fari, án vitundar konu sinnar og einmitt með Gísla á Búastöðum. Þegar Sigríður vissi ráðninguna, átaldi hún mann sinn harðlega, kvað hann illa muna og halda orð sín. Magnús kvað loforðinu hafa verið sem stolið úr minni sínu, en nú væri óhjákvæmilegt að halda áfram, því ómögulega gæti hann brugðizt Gísla. Sigríður mælti: „Svo munu forlög þessi fast skorðuð, að ekki verður hjá því komizt, sem verða á. Mun og þetta öðrum enn þyngra en mér.“
Þeir Gísli reru nú sexæringnum yfir vetrarvertíðina, unz svo bar til dag nokkurn, að ókyrrði sjó og gerði brimsvaka. Varð þá Leiðin svonefnda mjög aðgæzluverð. Þegar þeir komu á innleiðinni nálægt Steininum svokallaða, tóku þeir ólag mikið á Leiðinni. Það reið undir og reis svo hátt, að skipið stakkst á endum og hvolfdist. Drukknuðu þar tveir menn, maður sem Bjarni hét og Lárus hreppstjóri Jónsson á Búastöðum. Tveir komust á kjöl og varð þeim borgið. Sagt er, að menn næðu Lárusi upp á borðstokkinn, en hann væri þá fastur í færunum, svo þeir yrðu að sleppa honum. Þannig endaði sú raunasaga. Magnús var einn af þeim, er borgið var af kili, og hafði þá sú spá Sigríðar rætzt, sem aðrar, að nær mundi Magnúsi stýrt verða, en öðrum meiri missir við sjóferðir þessar.
(Sigf. Sigfússon: Ísl. þjóðsögur II, 207)