Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Feigðarboði

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


Feigðarboði.


Haustið 1903 var Magnús Ísleifsson í London að vinna að aðgjörð á Landakirkju. Fleiri smiðir unnu að aðgjörðinni með honum, þar á meðal Hallvarður Ólafsson í London, en Magnús var þar yfirsmiður.
Þá er aðgjörðinni var næstum því lokið, var það einn morgun, er Magnús kom til vinnu, að hann heyrði hávaða uppi á kirkjuloftinu, líkastan því að unnið væri þar að smíðum, borðum kastað til og fleira því líkt. Í fyrstu datt honum í hug, að turnhurðin skelltist fyrir vindi, en svo reyndist ekki. Þegar hinir smiðirnir komu, heyrðu þeir allir hin sömu hljóð, en enda þótt þeir aðgættu, gátu þeir ekki komizt að raun um, frá hverju hljóð þessi stöfuðu. Heyrðu þeir smiðirnir hljóð þessi um þriggja klukkustunda skeið, næstum því stanzlaust. Þegar smiðirnir fóru heim til sín, niður í bæinn, hafði Hallvarður orð á því, sem fyrir hafði borið, við einhverja menn, sem hann hitti.
Barst þetta til eyrna Þorsteini Jónssyni, lækni í Landlyst, og kom hann til Magnúsar og spurðist fyrir um þetta allt sem nákvæmast. Þegar Magnús hafði lokið frásögn sinni, sagði Þorsteinn honum frá því, sem hér segir:
Þorsteinn Sigurðsson, lausamaður á Brekku, bróðir Sigurbjargar í Brekkuhúsi, var þá búinn að liggja sjö sólarhringa í mjög heiftugri lungnabólgu, og hafði honum ekki komið blundur á auga allan þann tíma. Stundaði Þorsteinn læknir hann. Um morguninn þennan sama dag, gat Þorsteinn loks sofnað, og svaf hann nálægt þrem klukkustundum. Þegar hann vaknaði, sagði hann Þorsteini lækni, að sig hefði dreymt, að hann væri kominn upp í Landakirkju. Kvaðst hann hafa verið allsber uppi á efsta lofti í kirkjunni, og hefði allt dót hans verið þar saman komið. Sagðist hann hafa kunnað illa við, að vera þarna allsnakinn, og því hefði hann farið að leita að fötum sínum í dótinu, en hvernig sem hann leitaði, og velti öllu við, fann hann þau ekki. Kvaðst hann hafa kastað öllu til og frá, en allt kom fyrir ekki. Var draumur hans ekki lengri. Þegar aðgætt var, stóð heima, að allan þann tíma, sem smiðirnir höfðu heyrt hávaðann á kirkjuloftinu, svaf Þorsteinn, og hafði Þorsteinn læknir veitt þessu athygli, er hann heyrði sagt frá því, sem borið hafði fyrir smiðina.
Þótti mönnum þetta atvik mjög einkennilegt, og voru vissir um, að það mundi vera fyrirboði einhverra tíðinda. Skömmu síðar dó Þorsteinn Sigurðsson úr lungnabólgunni (8. desember 1903), og voru menn þá ekki í vafa um, að þetta hefði verið fyrirboði um dauða hans.
(Sögn Magnúsar Ísleifssonar smiðs í London. Sbr. Brynjólfur Jónsson: Dulrænar smásögur, bls. 38—39, þar sem rangt er sagt frá þessum atburði).