Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Ástríðarslysið

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


Ástríðar-slysið.


Vélbáturinn Ástríður fórst 1. apríl 1908. Þennan dag gekk til austanáttar og fór veðrið vaxandi eftir því, sem á daginn leið, og gjörði hið mesta afspyrnurok með stórsjó. Hafði báturinn sézt á sjó í landsuður af Súlnaskeri og var hann þá að draga línu sína. Héldu menn, að hann mundi hafa farizt undir línu, sennilega haft opna lest og fengið ólag, sem gengið hefði yfir bátinn og fyllt hann. Formaður með bátinn var Árni Ingimundarson lausamaður í Uppsölum og drukknaði hann þarna við 5. mann. Einn þeirra var Pétur Pétursson í Vanangri, en hinir voru úr nærsveitum.
Þennan dag var Magnús Guðmundsson bóndi á Vesturhúsum á sjó á vélbátnum Hansínu. Varð hann síðbúinn heim um kvöldið. Er þeir höfðu farið nokkurn spöl, kallaði Magnús til eins af hásetum sínum og bað hann að taka við stýrinu um stund, því að hann kvaðst vera orðinn lasinn. Sagði Magnús síðan hásetum sínum, að sér hefði sýnzt 5 eða 6 menn sjóklæddir koma upp í Hansínu, og hefði sér virzt að hún ætlaði að sökkva í því bili. Sagði Magnús að sér hefði orðið mjög bilt við, og ekkert í þessu skilið.
Þegar þeir á Hansínu komu heim var þeim sagt, að enn vantaði vélbátinn Ástríði. Þóttust þeir þá skilja, að þetta mundi hafa verið skipshöfnin af Ástríði, og hefði sýnina borið fyrir Magnús um það leyti, er Ástríði barst á. Ekki höfðu þeir á Hansínu séð Ástríði á sjónum, og engan grun haft um afdrif hennar fyrri en þeir komu í land. Þá var veðrið orðið svo mikið, að þeir töldu engum báti fært úti í því.
(Sögn Halldórs Brynjólfssonar)