Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Álfkonan

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


Álfkonan.


Þegar Jónína Bjarnadóttir frá Gvendarhúsi var um 12 ára aldur, var það eitt sinn, að móðir hennar sendi hana heim að Gvendarhúsi, neðan úr Sandi, að sækja föt handa sjómönnum þeirra, sem höfðu komíð hraktir af sjónum. Þetta var seinni hluta dags í austan slyddu.
Þegar hún kom upp að Olnboga, mætti hún konu, mjög skrautlega klæddri, og hafði hún aldrei fyrr séð slíkan klæðnað. Ekki var hún viss um, hvort hún bar eitthvert djásn á höfðinu en hárinu var komið fyrir á einhvern furðulegan hátt yfir enninu. Konunni fylgdu þrír litlir hundar eða hvolpar. Var Jónína hrædd við hundana og gjörði einn þeirra sig líklegan til að bíta hana, og glefsaði í kjól hennar. Þá hastaði konan á hundana og sagði þeim að gjöra telpunni ekkert mein, og við Jónínu sagði hún, að hún skyldi óhrædd halda áfram. Hraðaði hún nú ferð sinni sem mest hún mátti, og þóttist eiga fótum fjör að launa, með því að hún var ekki í vafa um, að eitthvað dularfullt var við konu þessa og hundana hennar. Þegar hún hafði hlaupið góðan spöl, hætti hún þó á að líta við, og sá þá konuna hverfa í Æðarhraun.
Þegar Jónína var orðin upp komin, sagði hún frá þessu og bætti síðan við: „Ég sé núna, að konan hefur verið í mjög skrautlegum möttli.“ En þegar þetta bar við, hafði hún aldrei séð þá flík, og konuna hafði hún aldrei séð, hvorki fyrr né síðar, og gat engar upplýsingar fengið um hana.
(Eftir handriti Kjartans Jónssonar)