Ritverk Árna Árnasonar/Vestmannaeyingafélagið Heimaklettur 10 ára

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit




Úr fórum Árna Árnasonar


Góðir áheyrendur, virðulegu gestir og félagsmenn


(Þessa ræðu mun Árni hafa flutt eftir 10 ára starf Vestmannaeyingafélagsins Heimakletts).

Þegar maður horfir á þennan hóp Eyjamanna og kvenna, sem er hér saman kominn, og láti maður hugann hvarfla dálítið aftur í tímann, fær maður staðfestingu á því, sem haft er eftir Kristjáni konungi IX., er hann kom til Íslands 1874.
Konungur hafði verið ákaflega orðprúður maður og heyrðist t.d. aldrei bölva. Nú var hann í Reykjavík og ræddi við fyrirmenn þjóðarinnar og ráðgjafa sína. Höfðu þeir orð um, er þeir ræddu um fjárhagslega afkomu landsins, að Vestmannaeyjar væru eitt af dýrmætustu og tekjuhæstu héruðum þess, þ.e.a.s. skiluðu einna mestu í ríkiskassann. „Ja, det har jeg ladet mig fortælle,“ sagði kóngsi „og et ved jeg, at der findes de tapreste og dygtigste mandfolk, derfor kommer ogsaa fanden gale mig, de smukkeste kvinder.“ Það fylgdi sögunni, að ráðgjafarnir hefðu hummað og pummað yfir þessari kröftugu yfirlýsingu konungs og varla vitað, hvaðan á sig stóð veðrið, er hann tók svo óvanalega til orða og samþykktu þennan konunglega dóm athugasemdalaust.
Ef til vill hefir þessi yfirlýsing hans orðið þess valdandi, að sonarsonur hans, Kristján X. kom hingað til Eyja 1930 og tók sér göngu um bæinn, sennilega einasti konungur, sem svo mikla virðingu hefir sýnt Eyjunum. Ekki er ósennilegt, að Kristján X. hafi fengið dóm afa síns staðfestan með eigin augum, því að sagt er, að einmitt hann hafi haft mjög næmt auga fyrir íturvöxnum mönnum og fögrum konum. Þennan gamla konunglega dóm hafa margir útlendir ferðamenn staðfest og þá alveg sérstaklega með tilliti til kvenfólksins.
Og þegar ég nú renni augunum um salinn, er ég fyllilega á sama máli og allir aðrir. En ef þú, kæri áheyrandi, vilt fullvissa þig um þetta, þá líttu í kringum þig, jafnvel á konuna þína eða eiginmann, og þú verður alveg á sama máli. Det dygtiste mandfolk, de smukke kvinder, — konungleg orð, réttlætanleg í þeirra orðanna fyllstu merkingu.
En ekki hafa allir dómar almennings verið samhljóða þessum, eða okkur Eyjabúum til hróss, á umliðnum árum, því miður. Lengi voru Eyjarnar hart dæmdar af meginlandsbúum fyrir drykkjuskap, slark, lauslæti og menningarskort. Sögðu sumir, að hér væri Íslands versta lastabæli. Þessi rógburður var svo rótgróinn í hugum sumra manna að ómögulegt var að sannfæra þá um hið gagnstæða og rétta, þótt Eyjarnar ættu fjölmarga kröftuga málsvarsmenn víða um landið, í ræðu og riti. Það var eins og hvergi væri drukkið vín, nema hér, eins og hvergi ættu menn vingott við konur, nema í Eyjum, og engu líkara en allsstaðar á landinu væru vitringar eða syndlausar sálir nema í Eyjum. Þar væri fólk, sem hvergi væri hafandi vegna lasta og menningarskorts á öllum sviðum.
Þennan dóm urðu Eyjarnar að þola, að miklu leyti, allt fram til 1915 eða jafnvel lengur. Þá loks tókst að rétta málstað okkar þannig, að meginlandsbúar fóru að líta á Eyjamenn sem menn, meir að segja sem frábæra athafna- og framkvæmdamenn. Jafnvel Eyjanna verstu hallmælendur fóru upp frá þessu að vegsama Eyjabúa, sem afbragð annarra landsmanna. Vegna óhrekjandi staðreynda urðu þeir að viðurkenna, að í Eyjum væru landsins harðgerðustu sjómenn og mestu fiskimennirnir, framtaksamir hugsjónamenn og brautryðjendur á fjölmörgum sviðum til bættra lífskjara fyrir landið í heild.
Þeir fóru að viðurkenna, að einnig í menningarmálum væru Eyjamenn brautryðjendur. Þeir hefðu stofnað fyrsta barnaskóla landsins 1745, hefðu alið fræga fræðimenn og ljóðskáld ekki síður en aðrar byggðir Íslands. Baráttunni fyrir velsæmi, manndáð, og menningu Eyjanna var þar með lokið. Eyjamenn og málssvarsmenn þeirra höfðu sigrað.
Eitt er það, sem lengi hefir auðkennt Eyjabúa öðrum landsmönnum fremur. Það er óframfærni og hlédrægni, sem bakað hefir þeim mörg hnjóðsyrði og sniðgengni á ýmsan hátt.
Þegar t.d. nýjir innflytjendur tóku að streyma til Eyjanna á umbrotaárunum 1908 til 1918, viku innfæddir Eyjamenn úr vegi fyrir aðkomufólkinu og drógu sig í híði sitt. Það var eins og þeir væru feimnir eða hræddir við allt þetta fólk. Þessi hlédrægni þeirra varð og til þess, að þeir voru sniðgengnir, þegar um arðvænlegar starfsstöður var að ræða. Þær hrepptu því undantekningarlaust utanbæjarmenn, en Eyjamenn urðu áfram að erfiða sitt brauð í sveita síns andlitis. Þessi einangrun leiddi af sér, að menn fóru að fjarlægjast hver annan, svo að jafnvel frændur og systkin ræddust varast við, þótt þau mættust á förnum vegi. Aðkomufólkið var Eyjamönnum miklu fjölmennara, svo að þeir hurfu alveg í fjöldann og höfðu sig mjög lítt í frammi. Margir Eyjamenn fundu þetta vandræðaástand, en höfðust ekki að. Þó fór svo, að árið 1945 komu nokkrir menn samnan og ræddu um þetta, en lítið var aðhafst, og hefir efalaust óframfærni þeirra sjálfra ráðið þar mestu um.
Út frá þessum staðreyndum fundu stofnendur þessa félags grundvöll fyrir stofnun félagsskapar, sem hefði að markmiði að efla frekari og viðhalda kynningu innfæddra Eyjabúa, hlynna að gömlum landfræðilegum minjum Eyjanna, bjarga frá gleymsku sögum og sögnum úr Eyjum og safna saman þeim fjölmörgu minjum, sem verið höfðu forfeðrum vorum og mæðrum tilheyrandi í hinni frægu baráttu þeirra á umbótatímabilinu frá einokun og höftum til frelsis, frá forneskjunni til nútímans.
Undirbúningsfundur að slíkum félagsskap var haldinn 18. september 1949. Þar ríkti mikill áhugi um þessi mál, og varð það til þess, að Vestmannaeyingafélagið Heimaklettur var stofnað 2. október 1949 með þrjátíu og tveim stofnendum.
Í annari grein félagssamþykkta segir svo: Tilgangur félagsins er að efla og viðhalda kynningu milli Vestmannaeyinga nær og fjær, að varðveita sögulegar minjar Vestmannaeyja, sagnir um einstaka menn og atburði, staðarlýsingar og örnefna-, o.s.frv. Framundan voru fjölmörg verkefni, sem biðu úrlausnar og var strax hafist handa.
Enmitt nú, á tíu ára afmæli þessa félagsskapar, þykir tilhlýðilegt að minnast örlítið á störf hans hingað til. Ég veit, að sum ykkar vilja meina, að félagið hafi ekki miklu af að státa, það hafi lítið gert, fundir aldrei haldnir og lítið bendi til, að líf leynist með þessum tíu ára vesaling eins og einn félagi sagði. Þetta get ég ekki samþykkt og vil rökstyðja það með nokkrum orðum.
Strax í byrjun ákvað félagið að gera átthagakvikmynd, er lýsti landi og lífsháttum og sérstökum atriðum í daglegri sögu Eyjanna. Félagið keypti dýrmæta fyrsta flokks kvikmyndatökuvél og má segja, að hún hafi verið í gangi síðan með litlum undantekningum. Hafa alls verið teknar hundrað og fjörutíu spólur og enn er haldið áfram, þareð slíkri mynd er raunverulega aldrei lokið vegna daglegra atburða, sem sögulegt gildi hafa fyrir byggðarlagið, staðreyndir nútímasögunnar fyrir framtíðina.
Fyrst kvikmyndaði Sveinn Ársælsson fyrir félagið, en vegna atvinnu sinnar gat hann ekki sinnt starfinu svo sem hann áleit nauðsynlegt, svo að hann hætti, en hefir hinsvegar hjálpað upp á sakirnar í forföllum Friðriks Jessonar, sem félagið fékk til starfsins. Það eru nú til tíu þúsund fet af sýningarhæfri mynd eða sem svarar fimm tíma sýningu. Er nú verið að fullgera hana til endanlegrar meðferðar utanlands, og ætti hún því að verða fullgerð innan tíðar og hæf til sýningar utan héraðs og innan. Allt er þetta ákaflega mikið starf og tímafrekt, sem Friðrik Jesson innir af hendi fyrir félagið, og verður honum seint þakkað, sem vert er. Einnig hefir Filippus Árnason verið lífið og sálin í framkvæmdum öllum við myndatökuna og gengt því starfi með miklum ágætum. Má raunverulega þakka þessum þrem mönnum að myndin er til.
Félagið eignaðist mjög fullkomið upptökutæki, segulband, og hefir tekið upp viðtöl við aldna Eyjamenn og konur. Lýsa þau þar ýmsu frá uppvaxtarárum sínum, sem er okkur ómetanlegur fjársjóður í fræðslu á lífskjörum almennings fyrrum. Félagið hefir unnið að upptöku á fræðsluþáttum úr Eyjum, um mannlíf og menntun, lifnaðarhætti fyrrum og fornar minjar. Voru fengnir til þessara starfa færustu menn, þættirnir svo birtir í útvarpi við góða dóma.
Að landfræðilegum fornminjum Eyjanna hefir verið unnið kappsamlega. Tillögum þar um hefur verið komið til bæjarráðs og -stjórnar, sem ávallt hafa tekið þeim af skilningi, ekki síst bæjarstjórinn og tekið þær til rækilegrar meðferðar í orði og verki, í anda félagslaga okkar. Mætti í því sambandi minnast á, hve bæjarfélagið hefir á rausnarlegan hátt látið upphlaða Gjábakkavörðu, Hvíldarvörðu, Skansinn, Vilpu o.fl. fornminjar, sem hver um sig eiga sína merkilegu sögu.
Heimaklettur lét setja upp fjarsýnisskífu á Helgafell, sem hefir orðið mörgum ferðamanninum til leiðbeiningar, ánægju og yndisauka.
Í mörgum fleiri tilfellum höfum við reynt að styðja að ýmsu í anda félagslaganna með viðræðum og skrifum til bæjarstjórnar og ávallt notið góðs skilnings þar á störfum okkar.
Af framansögðu er ljóst, að félagið hefir ekki verið sofandi eða aðgerðarlaust, þótt félagsfundir hafi ekki náðst saman. Þeir hafa þráfaldlega verið boðaðir, en oftast hefir ekki orðið fundarfært. Mætt hafa máske tíu eða fimmtán manns, stundum tuttugu eða aðeins fjórir, fimm. Þetta er áralöng reynsla okkar. Það virðist sem fólk vilji ekki sitja fundi, sem ekki bíður upp á dans og félagsvist, en það sé einasta ráðið til samheldni hverskonar félagsskapar nú til dags, ráð, sem Heimaklettur verður að upptaka, ef um fundarsókn á að vera að ræða. Stjórnin hefir þessvegna orðið að vinna að málum félagsins án stuðnings og uppörvunar meðlimanna og sloppið sæmilega frá þeim erfiðleikum.
Í sambandi við starfsemi Heimakletts má benda á minjasafnið, sem er sérstök deild innan félagsins, allt frá því, að bæjarstjórn skipaði sérstaka nefnd til þess að annast þau störf. Þrír nefndarmenn voru Heimaklettsmenn, en tveir utanfélags. Þegar þar var komið hafði skólastjórinn Þorsteinn Víglundsson, sem að sjálfsögðu var kjörinn formaður nefndarinnar, safnað gömlum minjum úr Eyjum í tíu ár. Það var okkur byggðarsafnsmönnum þægilegt að taka við þeim munum, sem fyrsta vísi til byggðarsafns Eyjanna. Það er nú í örum vexti og við það unnið af mesta kappi við söfnun minja og skrásetningu. Hvílir það mikla starf mest á Þorsteini Víglundssyni og Eyjólfi Gíslasyni á Bessastöðum, sem eru síkvikir og vakandi yfir öllu því, er safnið má best prýða.
Ný deild varð svo raunverulega til innan minjasafnsins, er erfingjar Kjartans Guðmundssonar ljósmyndara gáfu bæjarfélaginu ljósmyndaplötusafn hans. Fól bæjarstjórn þá byggðarsafninu að vinna að plötunum, skilgreina þær og annast góðan frágang þeirra. Að þessu hefir verið unnið mjög mikið, stundum tvö til þrjú kvöld í viku og um nær því hverja helgi, t.d. síðastliðið ár. Sýningar á myndum safnsins hafa verið haldnar og hafa þær mælst vel fyrir. Allt er þetta feikilega mikið starf sem annað við minjasafnið, miklu meira en margur heldur, en nefndin er samhuga og hlýðir formanni sínum skilyrðislaust um vinnu og aftur vinnu, þegar hann kallar. Þar vinna allir kauplaust, aldrei er spurt um tímann, sem í það fer, heldur aðeins hugsað um að afkasta sem mestri vinnu.
Góðir áheyrendur, ég vona, að þið sjáið af þessu, að félagið er vel starfandi og langt frá því að hrökkva upp af klakknum, þótt fundir séu ekki oft. Þetta stendur vonandi til bóta með nýju ári. Stjórnin væntir þess, að aðalfundur félagsins í janúar verði vel sóttur, nýjir félagar bætist við, ný verkefni verði til og ungir starfskraftar, sem vilja vinna að framgangi félagsins og Eyjanna í orði og verki. Þær eiga það fyllilega skilið, að við vinnum að framtíðarheill þeirra á sem flestum sviðum. Og þess vegna bið ég ykkur að standa upp og gefa þeim duglegt ferfalt húrra. Vestmannaeyjar lengi lifi...
Í gegnum söfnun byggða- og minjasafnsins hefir margt komið í ljós, sem mörgum var áður ókunnugt eins og t.d. það, hversu mörg skáld hafa verið í Eyjum og vel ljóðræn. Mætti þar til nefna Pál skálda, Gunnu Pálu dóttur hans, Gísla Engilbertsson, Eirík Hjálmarsson, Ólaf í Nýborg, Pál Gíslason, Nýborg, Stein Sigurðsson kennara o.m.fl.
Leirbullarar hafa og verið hér margir, t.d. Siggi bonn, Gísli pú, Eyjólfur taðauga, Ólafur jötunuxi, Einar durgur, Guðmundur káfins, svo að einhverjir séu nefndir.
Skáldin hafa kveðið mörg merkileg kvæði og góð, sem ekki er hægt að taka sýnishorn af, en ég ætla að tilfæra hér sýnishorn leirskáldanna, sem máske fáir hafa heyrt.
Siggi bonn er frægastur. Hann kvað t.d. til hákarla í Vestmannaeyjum, sem allir þekkja, en hann kvað líka þetta:

„Jón í Presthúsum ferðast frá,
á fránum sumarliða á,
fiskinn dregur fírugan,
fer að Ömpuhjalli.“
og:
„Móðurlaus ég er um stund,
í móðurstað þú gengur mér,
vitna má ég það um þig,
þó þú viljir drepa mig“.


Gísli pú kvað þannig:
„Ég er að þæfa og nudda núna,
sokkana þína, Guðlaugur,
en þú ert að skæla,
ýla og æla,
út um hlöðin blóðugur,
svo sem betur fer“.
og:
„Jón er farinn inn í Dal,
að leita að hyrnu sinni,
það væri betur hann fyndi hana þar,
þá þarf hann ekki að fara annað,
svo sem betur fer.“


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit