Ritverk Árna Árnasonar/Veiddu nú, Geira!

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Úr fórum Árna Árnasonar


Veiddu nú, Geira!
Saga af Magnúsi Eiríkssyni


Það var eitt sinn maður í Álsey að nafni Jón, kallaður Jón Geira, líklega verið Geirmundsson. Þá var sem unglingur í Álsey Jón Jónsson, Brautarholti. Á meðal fuglaveiðimanna í Álsey þetta sumar var Magnús Eiríksson Vesturhúsum.
Jón hafði einn dag gerst svo djarfur að setjast í sæmilegan veiðistað. Þó að veiðistaðurinn væri ekkert afbragð, var hann þó betri en að vera á svo nefndu „skrölti“ um allar brekkur. Umræddan Jón Geirmundsson bar nú þarna að, sem Jón Jónsson sat að veiðum, rak hann burt úr staðnum og settist þar sjálfur. Jóni fannst þetta sárt að vonum, en við því var ekkert að segja. Hann varð að víkja.
Einhvers staðar var Magnús Eiríksson þarna viðstaddur eða bar þarna að og sá fljótt, hvað fram hafði farið. Allt í einu kom hann þarna og var auðsjáanlega mikið niðri fyrir. Hafði hann engin orð, en þreif háfinn af Jóni Geira, setti háfinn hart við hné sér, mölbraut (hann) bæði skaftið og spækurnar og sagði: „Veiddu nú Geira“. Maðurinn stóð upp, en Magnús sagði Jóni Jónssyni að setjast í staðinn og vera þar.
Svona gat Magnús verið góður í garð þeirra, er hann sá, að voru minni máttar og urðu að þola yfirgang. Unglingar áttu ekki alltaf upp á háborðið hjá sumum yfirgangsseggjunum og áttu sér sjaldnast nokkra málsvarsmenn. Það voru ekki margir eins og Magnús Eiríksson í þessum efnum. Magnús var vel sterkur maður og hinn mesti burðarjaki, enda lék hann sér með hverja kippuna eftir aðra upp alla Lækjarbrekku án þess að hvíla sig hið minnsta. Aldrei sá ég hann blása úr nös af þreytu, svo að hann hefir verið vel að manni og þolinn.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit