Ritverk Árna Árnasonar/Sögn um Guðmund yngra og Guðmund eldra

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit




Úr fórum Árna Árnasonar


Sögn um Guðmund yngra og Guðmund eldra


Fyrr á tímum var hið svokallaða Þríhamradjúp eitthvert hið fengsælasta fiskimið kringum Vestmannaeyjar, en um langt skeið fékkst þar varla nokkur fiskur og var með öllu þýðingarlaust að leggja þar lóðir til fiskjar. Í eftirfarandi sögn, er skýrt frá tildrögum að því, að fiskur lagðist þar af.
Einhverju sinni bjuggu tveir menn á Kirkjubæ, sem báðir hétu Guðmundur. Til aðgreiningar voru þeir nefndir Guðmundur yngri og Guðmundur eldri. Ekki er þess getið, hvers synir þeir voru eða um hvaða leyti þeir voru uppi. Báðir voru þeir formenn og stjórnuðu skipi af sömu stærð og með jafnri áhöfn. Var mikill mentnaður með þeim um aflabrögð, og vildi hvorugur vera öðrum minni.
Vertíð nokkra gekk mikill fiskur í Þríhamradjúpið og stunduðu þeir Guðmundarnir róðra þangað. Einn dag fékk Guðmundur yngri einum fiski meira í hlut, heldur en Guðmundur eldri. Þótti Guðmundi eldra það miður og lét svo um mælt, að það skyldi ekki koma aftur fyrir.
Daginn eftir voru báðir á sjó. Þann dag fórst Guðmundur eldri. Kafhlóð hann skip sitt og drukknaði þar, ásamt öllum hásetum sínum. Þegar eftir drukknun hans brá svo við, að aldrei varð þorsks eða löngu vart í Þríhamradjúpinu, og hélst það, á meðan stundaðar voru þar fiskveiðar með handfærum.
Annarsstaðar í pistlum þessum eru Guðmundar þessir betur ættfærðir og nánar og meira frá þeim sagt með góðum heimildum fyrir sögnunum.


Guðmundur eldri og Guðmundur yngri


Annarsstaðar í safni þessu er sögn frá mönnum þessum og Þríhamradjúpinu. Hér er sagan um sama efni miklu fyllri og víðtækari, sem og eftir öðrum heimildum.
Í fyrri sögninni er talið, að Guðmundur eldri hafi drukknað, en samkvæmt þessari frásögn var það Guðmundur yngri. Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er saga, sem heitir “Feðgarnir í Vestmannaeyjum“ (útg. 1954, I.225). Er ekki ósennilegt, að þar sé um sömu menn að ræða og sömu tildrögin, þó að allt sé þar með öðrum hætti. Vegna þess, hve sagan er stutt og ekki ófróðlegt að bera saman, hvernig munnmælin breyta efninu í hendi sér, þá læt ég hana fylgja hérmeð.
„Þegar Grímur Pálsson er seinna var prestur á Helgafelli var við verzlun í Vestmannaeyjum voru þar tveir feðgar er báðir hétu Guðmundur. Var hinn eldri forsöngvari þar í Eyjum; hinn yngri var sjómaður góður, en djarfur og ófyrirleitinn enda var hann og drykkjumaður mikill. Einn vetur dreymdi Grím að hann væri í Landakirkju. Sá hann þar dyr á kórvegg sem sæti Guðmundar yngra var og þótti honum sem 12 lík væru borin þar út og mundi eitt vera lík Guðmundar yngra, en Guðmundur eldri gekk á eftir og söng þetta vers úr borðsálminum gamla í Grallaranum:

„Meðan mettuðu sig
minntust þeir sízt á þig,
tóku sér heiðna gleði,
grimm féll á þá reiði.“

Að bón Gríms réri Guðmundur á juli sínu um vertíðina við ellefta mann. Einu sinni lofaði hann í góðu veðri farlausum manni að fljóta með hinum tólfta, en á þeim degi fórst hann og hugðu menn hann hefði ofhlaðið sig.‟

Á fyrri hluta 19. aldar bjuggu tveir menn á Vilborgarstöðum, sem báðir hétu Guðmundur. Til aðgreiningar voru þeir ávallt nefndir Guðmundur eldri og Guðmundur yngri.
Þegar þessi saga gerðist var Guðmundur eldri hniginn að aldri. Guðmundur yngri var enn á besta skeiði og nýbyrjaður formennsku. Guðmundur eldri var mjög einkennilegur maður. Eins og aðrir setti hann skip sitt í hróf um kyndilmessu. Þegar því var lokið, keypti hann sér hálft anker af brennivíni og lagðist í drykkjuskap, meðan hann var að tæma það. Hugsaði hann ekki til róðra á meðan á því stóð, þótt aðrir hefðu dregið út og fiskað vel.
Eina vertíðarbyrjun var góður afli og hreyfði Guðmundur sig ekki til róðra og heldur. Leiddist hásetum hans að liggja í landi og gjörðu þeir samtök með sér um að heimta af Guðmudi, að hann byrjaði róðra eins og aðrir. Fóru þeir til hans og báru fram kröfu sína við hann. Lét hann tilleiðast og sagðist mundi róa fyrir þeirra orð. Þegar kom út á Vík, sagði Guðmundur þeim að snúa við og halda aftur í land. Hlýddu þeir skipun hans. Þegar þeir höfðu sett skipið í hróf, sagði Guðmundur: „Nú hafið þið róið, piltar. Nú getið þið verið ánægðir.“
Guðmundur eldri var mikill aflamaður og frábærlega heppinn í sjósókn. Hlekktist honum aldrei á sína löngu formennskutíð. Sagt er, að hann hafi alltaf, þegar hann fór í róður, látið leggja upp árar, er komið var út fyrir Leið og hafi hann þá sagt eins og við sjálfan sig. „Nú – rétt. Látum þennan bát ráða, rétt.“ Tók hann síðan stefnu þá til miða, sem báturinn hafði, þegar ferðina hafði tekið af honum. Mikið kapp var með þeim Guðmundunum, bæði um aflabrögð og sjósókn. Einkum var Guðmundi yngra kappsmál að fá hærri hluti en Guðmundur eldri. Báðir voru þeir formenn fyrir sexæringi með jafnmargri skipshöfn.
Vertíð eina gekk mikill fiskur í Þríhamradjúpið, (sem var gott fiskimið austan Eyja). Sóttu þeir þangað Guðmundarnir eins og aðrir formenn. Dag nokkurn aflaði Guðmundur eldri einum fisk fleira í hlut en Guðmundur yngri. Tók hann sér þetta mjög nærri og furðaði mjög á því, hvar hann hefði haft þenna eina fisk. Lét Guðmundur yngri svo um mælt, að þetta skyldi ekki henda aftur. Daginn eftir réru þeir Guðmundarnir enn í Þríhamradjúpið. Þann dag ofhlóð Guðmundur yngri og sökkti undir sér skipinu. Drukknuðu þeir þar 13 saman, Guðmundur yngri og hásetar hans allir.
Eftir drukknun þeirra brá svo við, að aldrei varð fisks vart í Þríhamradjúpinu og hélst það þangað til skömmu áður en byrjuð var fiskveiði með línu, rétt fyrir síðustu aldamót. Renndu menn oft fyrir fisk þar, er þeir komu frá fiskimiðinu Ledd eða Leddarforum, en urðu aldrei fisks varir.


Enn frá Guðmundi eldra og Guðmundi yngra


Annarsstaðar í skrifum þessum er sagt frá þessum mönnum. Er þar talið, að þeir hafi verið uppi á fyrri hluta 19. aldar og hafi Guðmundur yngri farist þá. Guðmundar þessir voru báðir Jónssynir, en ekki munu þeir þó hafa verið skyldir. Á árunum 1809–1814 eru þeir báðir hreppstjórar í Vestmannaeyjum. Öll þau ár eru þeir þingvitni hjá sýslumanni við réttarhöld og þá jafnan nefndir Guðmundur eldri og yngri. Eftir 1814 finnst Guðmundar yngra ekki getið í réttarbókunum, enda mun hann hafa drukknað vertíðina 1815. Í annál Daða fróða Níelssonar er þess getið við árið 1815, að farist hafi skip í Vestmannaeyjum með 12 mönnum. Kemur þetta heim við munnmælin. Guðmundur eldri var enn á lífi árið 1828 og var hann þá meðhjálpari, 75 ára gamall. Vertíðina 1821 hefur Guðmundur eldri sennilega verið með skipið Farsæl, og eru þessar vísur um hann í formannatali Jóns skálda:

Dugnað þreyta drjúgum veit
dragons sveita lundur.
Farsæl beitir fólks með sveit
flóðs á reit Guðmundur.
Rifs af gröndum höppin hönd
hittin bönd um fjallar.
Máls af löndum lögin vönd
lystugt öndin gjallar.

Tvær síðustu hendingar seinni vísunnar munu lúta að því, að Guðmundur var forsöngvari í Landakirkju.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit