Ritverk Árna Árnasonar/Ritrýni

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Úr fórum Árna Árnasonar


Ritrýni í Sögu Vestmannaeyja
Kaflinn: Útgerð, sjósókn og fl.


Ekki minnist höfundur í þessum kafla á ákvæði Grágásar um viðurlög við flutningum milli lands og Eyja. En af þeim er ljóst, að mikið hefir að þeim kveðið, enda er það kunnugt, að skreið hefir verið seld innanlands, áður en hún varð verslunarvara á erlendum markaði. Hefir útvegur Eyjamanna verið mikill þegar á söguöldinni og nærsveitarmenn stundað þar fiskveiðar eins og síðar.
Höfundur Eyjasögu hefir ekki gert nein skil í þessari bók sinni byltingu þeirri, sem varð, þegar vélbátaútvegurinn hófst. Hefði verið full ástæða til að rekja það mál allt nákvæmlega og sýna með tölum, hve geysilega mikla fjármuni þessar litlu fleytur fluttu á land.
Þetta er eitt af höfuðviðfangsefnum í sögu hvers byggðarlags, er útgerð hefst. Helsta söguefnið er fjárhagsþróunin, því að allt annað byggist á því, hvernig henni er háttað. Nauðsynlegt hefði verið að gera yfirlit frá ári til árs yfir smálestastærð flotans, svo að þróun hans lægi fyrir. Þá hefði á sama hátt átt að gera yfirlit yfir aflabrögðin og verðmæti aflans. En höfundur hefir ekki tekið þennan kostinn og er því óhætt að segja, að hagsaga Eyjanna sé ennþá ósögð.
Fyrsta vertíð vélbátanna var 1906. Þá gengu hér tveir vélbátar og vorvertíðina hinn þriðji. En svo var viðgangur vélbátaútvegsins ör, að árið 1912 voru vélbátarnir orðnir 58 og voru þeir frá 4 til 12 tonn að stærð. Uppgripin voru svo mikil, að vélbáturinn Unnur, sem var fyrsti vélknúni fiskibáturinn, sem kom til Eyja, græddist upp á fyrstu vertíðinni, er hann gekk og varð auk þess nokkur afgangur. Formaður fyrir þeim bát var Þorsteinn Jónsson, Laufási, og átti hann bátinn ásamt 4 öðrum. En Bergþóra, bátur sem Magnús Þórðarson í Dal var með, gerði þó betur, því að hún skilaði verði sínu fyrstu vorvertíðina, sem hún gekk.
Þessi merkilega saga er ekki sögð í Vestmannaeyjasögu Sigfúsar M. Johnsen. En einmitt vegna þessara miklu uppgripa varð vöxturinn svona ör.
Útvegurinn byggði Eyjarnar á skömmum tíma. Fólkið streymdi að úr öllum áttum, íbúðarhúsin þutu upp og gullstraumurinn barst ört á land með þorskinum. Árin 1906 til 1930 eru einhver hin merkilegustu í sögu Eyjanna, þróunarsögunni. Þá fara fram hinar stórfelldu framfarir, og véltæknin kemur til sögunar á öllum sviðum. Þetta sama skeður í öllum landshlutum. Einmitt um þetta er mesta nauðsyn að rita nákvæmlega frá öllum hliðum og ætti það að gerast, meðan allt er enn í fersku minni. Þessi árin kveður þjóðin sig úr kútnum með merkilegustu athöfnum.
Til gamans má geta þess, að hreppsnefndin lét sig miklu skipta þegar í uphafi afkomu sjávarútvegsins. Haustið 1908, 25. nóvember, boðaði hún til fundar útvegsmanna til þess að ræða sjávarútveginn og kostnaðinn við hann. Þótti mönnum vélbátaútvegurinn orðinn nokkuð dýr og hraus hugur við hinum stóru tölum í bókhaldi sínu.
Í fundargerðinni segir svo, að kostnaðurinn sé orðinn 7000 krónur á ári fyrir hvern bát. Hásetakaup, sem var fyrir fáum árum 40 til 50 krónur yfir vertíðina, sé nú komið upp í 150 kr., auk fæðis, hlífðarfataþjónustu o.fl. Auk þess höfðu þeir, sem línuna lögðu, einn streng og fengu það, sem á hann kom. Það höfðu einnig sumir vélstjórarnir. Var kosin nefnd til þess að gera tillögur um málið.
Framhaldsfundur var 5. desember og var þá stofnað Útgerðarmannafélag með 80 meðlimum. Einnig voru þá ræddar tillögur nefndarinnar, sem hún hafði gert um kjör háseta, formanna og verkamanna. Frá stofnun útgerðarmannafélagsins var þó ekki gengið fyrr en 9. desember og urðu meðlimirnir ekki nema 51 þá.

Þar sem Sigfús vitnar til fiskimiða, vísar hann til sóknarlýsingar séra Brynjólfs Jónssonar. Í bók dr. Þorkels Jóhannessonar, Örnefni í Vestmannaeyjum, er nákvæmasta skráin, sem til er yfir fiskimið kringum Eyjarnar. Er sú skrá gerð eftir miðaskránum í sóknarlýsingum þeirra Jóns Austmanns prests og séra Brynjólfs Jónssonar. Síðan fóru þeir Ólafur Ástgeirsson og Þorsteinn Jónsson, Laufási, nákvæmlega yfir skrána, juku hana og leiðréttu eldri skrárnar. Þorsteinn setti síðan miðin niður á uppdrátt og mun hann vera í vörslu dr. Þorkels.
Þetta er gott dæmi um það, hvernig Sigfús velur úr heimildum. Í bók Þorkels er líka að finna vandaðar útgáfur af ritgerð séra Gissurar Péturssonar um Vestmannaeyjar og sóknarlýsingu séra Jóns Austmanns. En Sigfús vitnar þó aldrei í þær, heldur í handritin, sem eru í Landsbókasafninu eða safni Árna Magnússonar í Kaupmannahöfn. Vitanlega hefði verið réttast að benda á handhægustu heimildarritin, ef menn vildu kynnast tilvitnunum. En höfundur telur víst heppilegra að fletta upp í uppkasti ritgerðanna, t.d. séra Jóns Austmanns á Landsbókasafni, sem þó er mjög óaðgengilegt, því að það er mjög illa skrifað. En Stefán sonur Jóns, sem skrifaði gullfallega rithönd, afskrifaði handrit föður síns, og er það líka í safninu, þótt ekki sé vitnað í það. Framan við uppkast séra Jóns er uppdráttur af Heimaey eftir Magnús son hans. Er uppdráttur þessi að vísu ekki vel gerður, en þó má mikið af honum læra, og hefði verið mikil ástæða til að hafa hann í Vestmannaeyjasögunni, og er hann gerður um 1842 eða 43.

Kaflinn um höfnina er mjög rýr og gefur enga hugmynd um það þrekvirki, sem Vestmannaeyingar hafa unnið með því að koma upp jafn myndarlegri höfn og nú er hér. Hafa þeir Eyjamenn orðið að færa miklar fórnir, meiri en nokkuð annað byggðarlag á landinu, til þess að koma mannvirki þessu upp. Var, sem kunnugt er, við ákaflega mikla erfiðleika að etja, enda er höfnin fyrir opnu hafi. Brimið braut garðana svo að segja jafnharðan og þeir voru byggðir. Nokkra hugmynd má gera sér um það, hvílíka erfiðleika hefir verið við að eiga af því, hversu höfnin var lengi í smíðum og þeim tilkostnaði, sem orðið hefir af hafnargerðinni.
Á árinu 1935 gerði vitamálastjórnin upp kostnaðinn frá byrjun 1914 og til ársins 1934 incl. [þ.e. að báðum árum meðtöldum], og var kostnaðurinn þá orðinn kr. 2.238.550,16, en þar af hafði ríkissjóður greitt kr. 541.456,44. Síðan hefir mikið verið unnið við höfnina og keypt dýpkunarskipið Vestmanney, og eru það engnar smáræðis upphæðir, sem þar koma til greina. Sést þetta allt í sögu hafnarinnar, sem út kom á síðasta ári, merkilegt rit og fróðlegt eftir Jóhann Gunnar Ólafsson.

Ekki getur höfundur Vestmannaeyjasögu þess, sem þó hefði verið rétt, að bjargráðanefndin var stofnuð fyrir tilmæli frá séra Oddi V. Gíslasyni á Stað í Grindavík. Má vafalaust rekja til hans upphaf að ýmisskonar varúðarráðstöfunum og sundkennslu. Sigurður Sigurfinnsson var frumkvöðull þessara mála í Eyjum og stóð í nánu sambandi við séra Odd.
Á fundi, sem bjargráðanefndin hélt 8. febr. 1890 og boðaði á sjómenn í Eyjum, skuldbundu 40 formenn og skipaeigendur sig til þess að leggja eftirleiðis til áhöld undir lýsi eða olíu á skip sín [til að stilla ölduna]. Þetta eru fyrstu samtökin í þessa átt og urðu til þess að ýlar voru teknir upp. Fyrir áhrif frá þessari nefnd, munu og hafa verið fyrst uppteknir ákveðnir róðrartímar, en þau ákvæði voru sett fyrst í fiskveiðasamþykktina árið 1901.
Björgunarfélags Vestmannaeyja er aðeins getið með nokkrum orðum og er félagið kallað firma í Vestmannaeyjasögunni, þótt allmerkilegt megi kallast.
Páll Bjarnason skrifaði 1931 rit um 10 ára starf félagsins, en í Sögu Vestmannaeyja er þessa merka rits ekki getið, en í sögunni hefði sannarlega verið ástæða til að geta Björgunarfélagsins vel og rækilega.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit