Ritverk Árna Árnasonar/Mannskaðar í Elliðaey

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Úr fórum Árna Árnasonar


Mannskaðar í Elliðaey


Mannskaði við landtöku í Elliðaey


Þann 17. júní 1864 fór bátur frá Heimaey austur í Elliðaey og voru 14 menn á honum. Þeir voru að fara til lundaveiða, flestir þeirra.
Á vestanverðri eynni er höfn, svonefnd Elliðaeyjarhöfn. Er hún með stórgrýtisurð og illri lendingu, nema sjór sé dauður. Þarna vildi formaður bátsins nú lenda og setja upp mennina, sem til lundaveiðanna ætluðu. Allt gekk vel fyrst, og komust þá þegar nokkrir menn upp klakklaust. En allt í einu kom ólag, sem setti bátinn upp í klappir og hvolfdi honum þegar. Skoluðust samt allir mennirnir upp, nema 3.
Þeir þrír, er þarna fórust, voru Helgi Jónsson bóndi í Kornhóli, talinn góður bóndi í Eyjum. Hinir tveir voru vinnumenn, Jón Jónsson, 47 ára, og Oddur Jónsson, 37 ára gamall, efnilegur og heppinn formaður, fæddur austur á Síðu og kallaður son Jóns bónda Eyjólfssonar í Fagurhlíð, en móðir Odds var Ingibjörg Bjarnadóttir, vinnukona hjá Jóni presti Sigurðssyni, er síðast var í Kálfholti, og ólst Oddur upp hjá honum frá barnsárum, þar til hann varð fulltíða maður.
Helgi Jónsson í Kornhóli var faðir Jónasar bónda í Nýjabæ hér. Sagt er í grein þessari í Þjóðólfi 17. árg. 13. tbl, að Helgi hafi tvisvar hrapað úr fuglabjargi, en ekki getur, hvar eða hvenær það hefir verið.


Þessir hafa hrapað í Elliðaey


Úr Elliðaey hafa hrapað nokkrir menn, sem ég hefi fundið skráða, en þó eru þeir færri en ætla mætti. Eftirfarandi menn veit ég um:
1. Jón Jónsson, vinnumaður Bjarna BjarnasonarMiðhúsum. Jón hrapaði til dauðs úr Elliðaey 4. júní 1855. Hann var aðeins 15 ára gamall. Ekki er sagt hvar í eynni slysið bar að.
2. Ásmundur Ásmundsson, vinnumaður á Miðhúsum, hrapaði við eggjatöku í Elliðaey 1850.
Ekkert nánar tilgreint.
3. Guðmundur Árnason, vinnumaður á Gjábakka, hrapaði seint á fýlaferðum úr Hábarði árið 1867.
4. Páll Pálsson frá Götu hrapaði í Elliðaey úr Hábarði, seint á fýlaferðum árið 1867.
5. Ólafur Ólafsson, vinnumaður í Frydendal, 24 ára gamall, hrapaði við lundaveiðar í Elliðaey 4. júní 1855. Staður ótilgreindur.
6. Þann 20. ágúst 1857 segir í Annál 19. aldar, að 3 menn hröpuðu í fuglabjargi í Eyjum. Ekki nefnt hvar. Einn þessara manna var Páll, sonur Páls skálda, hinir tveir skemmdust.

Eflaust geta verið fleiri, sem hrapað hafa í Elliðaey til dauðs, en fleiri hef ég ekki getað í ritum fundið. Þó greinir víða í annálum hrapaðra manna í Eyjum, en oftast ekki mannanafna getið eða hvar slysið hafi orðið.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit