Ritverk Árna Árnasonar/Hrakningur mb. Kap 15.-17. des. 1924

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search




Úr fórum Árna Árnasonar


Hrakningur mb. Kap 15.-17. des. 1924


...Enginn bliknar brjóst þó vökni,
boði hrannir feigðarvoða.
Örugg grip á öllum reipum,
ekkert fát né kvíðagrátur...

Það mætti ætla, að í svo stórri og fornfrægri veiðistöð og Eyjarnar eru, sem haldið hefur úti bátum í tugatali, smáum og stórum, í alda raðir við hin erfiðustu skilyrði á fjölmörgum sviðum, væru til heilar bækur af sjóferða- og hrakningasögum frá ýmsum tímum. Þessu er þó langt í frá svo varið. Aðeins örfáar slíkar sögur eru til skráðar, þótt af miklu hafi verið að taka. Sérstaklega á þetta við um erfiðustu áfangana í fiskveiðasögu Eyjanna, þ.e. tíma opnu skipanna og fyrstu ár vélbátanna, þegar sjómenn voru án allra sóknar- og varnartækja í baráttunni við náttúruöflin fyrir afkomu sinni, lífi og limum, utan opin skip, segl og árar og síðar litlir vélbátar, 6 til 10 smálesta, með mjög frumstæðum útbúnaði í hvívetna.
Sú barátta var vafalaust hörð, slysin mörg og hrakningar miklir. Á þeim tímum hefur sjómennskan hér ,,ekki verið neitt grín“, eins og segir í dægurlagatexta nútímans. Þá urðu til fjölmargar hetjulegar dáðir, afreksverk heilla skipshafna og einstakra manna, merkilegar sagnir, sem lifðu í áraraðir á vörum þjóðarinnar. Flestar eru þær nú gleymdar og grafnar með horfnum kynslóðum og verða ekki skráðar héðan af svo nokkru nemi. Þátttakendur í þessum hildarleik hafa eflaust ekki látið sér detta í hug, að tómlæti þeirra við skráningu þessara athafna og viðburða, yrði til þess að glata mörgum dýrmætum blöðum úr árbókinni miklu, þróunarsögu fiskveiðanna og héraðssögu Eyjanna. Ekki verður vitað, hvað valdið hefur þessu tómlæti, en geta má sér til, að ástæðan sé sú, að sjómenn voru og eru þannig gerðir að vilja sem minnst um dáðastörf sín tala, finnst þau sjálfsögð og ekki umtalsverð, skoða það sem sjálfshól sín og annarra, er frá segja. Það er líka svo, að einungis þær sagnir af viðburðum og sjóferðum yfirleitt eru til skráðar, sem sjómönnum hefur verið nær því þröngvað til að skýra frá eða þeir hafa orðið að gera það, t.d. vegna sjóréttar, einhverjum atvikum viðkomandi.
Það mun nú á allra vitorði, að sægarpurinn Þorsteinn í Laufási Jónsson hefur lokið við að skrifa bók sína – útgerðarsögu Eyjanna. Er það ábyggilega þarfasta verk, sem unnið hefur verið í héraðssögu Eyjanna. Bókin er stórmerkilegt rit, sem bjargar frá glötun öllum þeim fróðleik, sem yfirleitt var hægt að bjarga, af útgerðarháttum, lífi og athöfnum Eyjamanna í tíð opnu skipanna og á fyrstu árum vélbátanna.
Trúlega mun saga þessi koma út innan tíðar og vafalaust verða Þorsteini óforgengilegur bautasteinn, honum og bæjarfélaginu til vegs og virðingar, bæjarfélaginu og forráðamönnum þess fyrir að hafa hvatt einmitt Þorstein Jónsson og stutt til þessa merka starfs.
Hugsið ykkur, góðir sjómenn, ef til hefðu verið fleiri skráðar sagnir frá athöfnum ykkar og sjómannsdáðum fyrr meir og nú, hversu miklu auðveldara þetta ritverk Þorsteins hefði orðið á öllum sviðum. Það mætti gjarna vekja ykkur til umhugsunar um það að glata ekki – vegna tómlætis og rangs hugsunarháttar – merkum blöðum úr næsta kafla sögunnar.
Í tilefni af afmæli sjómannadagsins skal hér sagt frá einni af fjölmörgum hrakningasögum úr lífi sjómanna Eyjanna, sem til er skráð, en ekki hefur verið birt til þessa. Hún talar sínu máli, þótt hún sé látlaus og geri ekki mikið úr baráttu viðkomandi manna á hættunnar stund. Munu og allir geta glögglega lesið á milli línanna þá feikna erfiðleika, sem þeir hafa orðið fyrir vegna trylltra náttúruaflanna á litlum farkosti við hin frumlegustu skilyrði á nútíma mælikvarða. Þetta er máske ekki neinn einstæður viðburður, en gefur þó mjög góða innsýn í líf sjómannsins fyrir aðeins rúmum 30 árum síðan, erfiðleika, sem vegna sívaxandi öryggis heyra nú aðeins fortíðinni til og vonandi endurtaka sig aldrei aftur.

Það var árið 1924, kl. 12 á hádegi þann 15. desember, að þeir lögðu af stað frá Reykjavík á m.b. Kap áleiðis til Vestmannaeyja. Ekki verður nú vitað með vissu, hverjir voru á bátnum utan formaðurinn, Runólfur sál. Sigfússon, faðir Einars skipstjóra á Fífilgötu 2 hér í bæ, og sennilegt er talið, að vélstjóri hafi verið Ásmundur Guðmundsson frá Kömbum í Stöðvarfirði og a.m.k. sem háseti Jóhannes Stefánsson frá Streiti í Breiðdal. Um aðra er ekki vitað. Sennilega er og talið að báturinn hafi verið með ýmsar vörur til Eyja.
Veður var gott í Reykjavík, er þeir lögðu af stað þaðan, hægur SV kaldi með snjóéljum og fremur sjólítið. Ferðin sóttist þess vegna vel og voru þeir við Reykjanes kl. 8 eftir hádegi. Þegar þangað var komið, byrjaði að kula af austri og gerði brátt þungan vind, og hélzt svo þar til er þeir höfðu Selvogsvitann þvert. Lygndi þá austanáttinni og gerði norðanátt með hægum kalda og töluverðu frosti. Varð nú bezta ferðaveður, enda gekk allt ágætlega og tíðindalaust, þar til er þeir koma austur á móts við Þrídranga. Rauk þá allt í einu upp með austanrokstormi, og varð brátt mikill sjógangur, og fór þá heldur en ekki að grána gamanið af ferðinni. Sóttist hún þó þolanlega eftir ástæðum, þar til komið var um 5 sjómílur NNV af Smáeyjum. Þá stoppaði vél bátsins, og reyndist ómögulegt að koma henni í gang aftur þrátt fyrir margítrekaðar tilraunir.
Voru því seglin dregin upp í flýti og gekk það prýðilega. Var góður seglaútbúnaður í bátnum og allt honum viðkomandi í bezta standi. Eftir það var farið að hyggja að vélinni, reyna enn að koma henni í gang, sem þó tókst enn alls ekki, og svo að athuga hana gaumgæfilega. Kom þá brátt í ljós, að stimpill hennar var rifinn, svo ekki leit út fyrir að neitt yrði hægt að eiga við hana undir þessum kringumstæðum.
Var því reynt að sigla í suður til þess að verða lausir við Drangasker. Voru höfð uppi öll segl, rifuð til að byrja með. En brátt sýndi það sig, að báturinn þoldi ekki svo mikil segl í þessu roki og sjó, svo að þeir tóku niður fokkuna, en höfðu uppi stokkrifað stórseglið og aftursegl. Gekk nú þannig allvel um nokkra stund.
Veður harðnaði stöðugt, og var komið afspyrnurok um kl. 9 e.h. 16. des. og náttmyrkur svo mikið, að varla sá út fyrir borðstokkinn. Varð þá að taka niður afturseglið, sem heppnaðist þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Eftir það gekk allt þolanlega um stund og þó aðeins með því að láta bátinn horfa upp í. Um annað var ekki að ræða.
Kl. 11 um kvöldið þann 16. des. byrjaði stórseglið að rifna. Varð við ekkert ráðið og voru ræflarnir af seglinu teknir niður. Lá þá báturinn flatur fyrir stormi og sjó, sem var nú orðinn æði viðsjárverður. Lá nú ekki annað fyrir en reyna að koma upp afturseglinu, sem tókst furðanlega, en ekki reyndist það fært til að halda bátnum upp í veðrið. Það leið heldur ekki löng stund þar til gaffallinn brotnaði sundur í miðju.
Var þá gripið til þess ráðs að láta út stjórnborðsakkerið og alla keðjuna, sem því fylgdi, en einnig það reyndist ónothæft. Alltaf virtist veður og sjór fara harðnandi, svo vægast sagt var komið ofsalegt veður og sjór. Um það leyti fékk báturinn brotsjó, sem hreinsaði allt af dekkinu, bæði laust og fast, þar á meðal bakborðsakkerið, sem var 75 kíló að þyngd, 45 faðma af keðju, 60 faðma af nýju grastógi, toppluktina, 2 fullar olíutunnur, 2 árar, fulla vatnstunnuna, eina lestarlúku, og öldustokkurinn brotnaði mjög mikið. Má með sanni segja, að ekki var lengur farandi um dekk bátsins, þótt það yrði að gerast. Eitthvað varð að aðhafast sér til bjargar, þó að aðstæður væru ekki góðar. Tóku þeir nú 50 lítra af smurningsolíu og helltu henni í sjóinn. Lægði við það kringum bátinn. Notuðu þeir það hlé á ósköpunm til þess að hala aftur inn stjórnborðsakkerið. Gekk það sæmilega. Síðan var klífirinn tekinn og hann settur á stórseglsbómuna, hornið halað upp í mastur og síðan slegið undan.
Gekk nú allt þolanlega vel og tíðindalaust, þótt veður væri æði ofsafengið. Um klukkan eitt eftir miðnætti fór veðrinu að slota, svo að klukkan um þrjú var eiginlega komið bezta veður. Voru þeir þá staddir 16 sjómílur VSV af Stokkseyri.
Þar var þá staddur enskur togari, sem þeir á Kap báðu að hjálpa sér til Eyja. En þar sem þeim skildist, að sá enski vildi aðeins taka mennina, en ekki bátinn, létu þeir togarann sigla sinn sjó, en fóru að reyna að tjasla eitthvað upp á vélina í bátnum. Reyndu þeir m.a. að troða pakkningu í stimpilinn. Eftir margar tilraunir heppnaðist þeim loks að láta vélina ganga þannig tjaslaða. Var þá ekki beðið boðanna en strax lagt af stað heimleiðis aftur. Gekk allt ágætlega og komust heim undir Eiði kl. 3 e.h. þann 17. desember og lögðust þar við akkerið. Síðar um eftirmiðdaginn sótti m.b. Lagarfoss þá að Eiðinu og dró Kap inn í höfnina. Endaði ferð þessi þannig miklu betur en búast mátti við, a.m.k. um tíma, því að veður var ákaflega vont.
Þetta er ferðaskýrsla formannsins á m.b. Kap, Runólfs sál. Sigfússonar, dags. 4. jan. 1925, um hina erfiðu sjóferð. Skýrslan talar sínu ljósa máli, þótt hins vegar sé hún ekki orðmörg eða skýrt frá störfum einstakra manna á bátnum. Viðgerð vélarinnar bendir ótvírætt til, að þarna hafa engir aukvisar verið að verki, og var Runólfur orðlagður vélasnillingur. Þess utan má og ætla, að hann hafi ráðið sér góðan vélstjóra á bátinn og valið hann eftir eigin vali og af persónulegri kynningu um hæfni. Má þess vegna fullvíst telja, að Ásmundur hafi verið afbragðs vélstjóri, með sér betri eða jafnsnjöllum aðstoðarmanni í þessum erfiðleikum.
Hvað hásetanum, Jóhannesi viðkemur, er ekkert sennilegra en Runólfur hafi þekkt hann sem traustan sjómann og dugmikinn, þar eð báðir voru af Austurlandi (Runólfur f. á Reyðarfirði 16. febr. 1892, en fluttist til Eyja frá Seyðisfirði í sept. 1924).
Sjómenn munu eiga auðvelt með að lesa á milli línanna í frásögn þessari, hvað hefur raunverulega verið að gerast þarna um borð í Kap, hve mjög þeir hafa verið komnir nálægt því að farast í þessu ógnar ofviðri. Er og talið fullvíst, að sönn karlmennska skipshafnarinnar ásamt rómuðum stjórnarkænskuhæfileikum formannsins hafi leitt þá farsællega til hafnar gegnum alla erfiðleika ferðarinnar.
Veður þetta var hér í Eyjum mjög hart og ofsafengið og mun mörgum í fersku minni vegna mannsskaðans við Eiðið 16. des. 1924.
Að endingu. Það er einlæg ósk mín og von, að hrakningur sem hér um ræðir og aðrir slíkir hendi Eyjabáta og sjómenn þeirra aldrei aftur og heyri aðeins fortíðinni til, en framtíðin beri í skauti sér velferð og batnandi tíma hverjum og einum, sem freistar að sækja gull í greipar hafsins.
Með beztu óskum um góða sekmmtun á sjómannadaginn.

Árni Árnason.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit