Ritverk Árna Árnasonar/Hittu aldrei Skerprestinn

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search




Úr fórum Árna Árnasonar


Hittu aldrei Skerprestinn
Af strákunum Árna og Hjalla í Álsey


Það mun hafa verið 1912, að til veiða voru í Álsey þeir Sveinbjörn Jónsson, Magnús Eiríksson, Kristinn á Löndum, Jón í Brautarholti og faðir minn, Árni Árnason á Grund. Strákar vorum við þar, frændurnir Hjálmar Jónsson og ég.
Okkur voru strax settar hegðunarreglur, hvert við mættum fara, hvað við mættum gera og hvað við mættum ekki aðhafast, t.d. alls ekki tildrast neins staðar eða koma nálægt brún. Við máttum passa okkur að halda okkur við kofann og í brekkunni við hann. Brot á þessum reglum var okkur sagt, að kostaði tafarlausa heimsendingu úr eyjunni.
Við lofuðum öllu góðu, en fundum fljótt, að erfitt mundi að halda svo strangar úteyjareglur. Enda fór og svo, að dagur var varla að kvöldi kominn, er við höfðum þverbrotið gefin loforð og settar reglugerðir. Hjálmar, sem var mér aðeins eldri, taldi öllu óhætt, að við skoðuðum okkur um í námunda við kofann. Við fórum þess vegna upp í svonefnt Nóngil og tildruðumst þar mikið við að komast upp á bekk efst í gilinu, þar sem nokkrir fýlar urpu. Þetta gekk vel, því að Hjálmar var sannkallaður fjallaköttur að fimi til. Allt í einu kváðu við köll og hróp í körlunum frá kofanum, og þau heldur hastarleg, um að koma undir eins niður. Við urðum að vonum lafhræddir, hættum við fýlaskoðunina og fórum svo hratt sem við frekast gátum niður allt gilið, meira á rassinum en fótunum.
Þegar niður í kofann kom, fengum við bullandi skammir og var hótað að senda okkur heim með næsta sókningsbát. Við báðum gott fyrir og lofuðum nú öllu hinu besta um bætta framkomu og hlýðni, svo að þetta jafnaði sig milli allra.
Næstu 2-3 daga vorum við mestu fyrirmyndar úteyjabörn í hverskonar hlýðni, og allt lék í lyndi. En svo hljóp skollinn í spilið aftur. Við stálumst sem sé niður á Þjófanef einn laugardagsmorgun. Ekki leið á löngu, áður en til okkar sást, og við kallaðir heim og sóttir með ófögrum orðum. Sveinbjörn og Kristinn lögðu til, að farið yrði með okkur í kirkju morguninn eftir, þar eð Skerpresturinn ætlaði að messa á Molda. Kæmi hann á steinnökkva sínum, ásamt mörgu fólki, sem ætlaði að vera við messugjörðina.
Ekki fannst okkur þetta beinlínis trúlegt. Hjálmar brosti kankvíslega, og lýsti kæruleysið sér greinilega í hverjum andlitsdrætti hans. Hann sagði, að það væri engin kirkja í Álsey og enginn Skerprestur væri til. Sveinki og Magnús Eiríksson sögðu það vera og spurðu, hvort við hefðum aldrei heyrt talað um Skerprestinn, huldufólk í Dölum og Þorlaugargerði. Mangi spurði, hvort við hefðum ekki heyrt kvæðið um Skerprestinn, sem væri verndarvættur þeirra er í Skerið færu? Nei, ekki höfðum við heyrt kvæðið. Mangi fór þá með eitt erindi:

„Prestur Skers um Ránarreiti,
rær oft heim að Ofanleiti
nóttina fyrir nýjárið.
Það er líka satt að segja,
að sóknarprestur Vestmannaeyja
höklabúlka hýrt tók við.
Stofuna í til staupa benti,
steinnökkva, sem Vík í lenti,
setti á flot um miðnættið.“

Margt fleira sögðu karlarnir okkur, svo að við fórum hálft í hvoru að trúa ýmsu um þetta. Og þegar svo Jón í Brautarholti og pabbi tóku undir þetta, þá fannst okkur sem þetta hlyti að vera sannleikur. Kristinn á Löndum sagðist hafa hitt kollóttu Settu og Siggu litlu dóttur hennar suður á Lend í gær, (það var reyndar kollótt ær sem nefnd var kollótta Setta, og Sigga litla var lambið hennar). Hefði Setta sagt sér, að það ætti að ferma á morgun, t.d. Siggu litlu, Morsu á Mangastöðum, Nonna á Jónsnefi, Jóku á Lendinni o.m. fleiri krakka. Auk þess kæmi svo Knútur á Rauðhamri í Brandinum, kona hans og börn, og margt fleira fólk mundi koma úr suðureyjunum.
Eftir þetta hættum við Hjálmar öllum mótbárum. Ég var mjög hugsandi um kvöldið, og Hjáli var mjög þögull. Morguninn eftir bar ekki neitt á neinu, nema hvað karlarnir voru eitthvað að pískra saman um áttleysu og það, hve lítið væri við af fugli.
En um hádegisbilið kom hreyfing á karlana. Sveinki kom til okkar og sagði: „Jæja strákar, komið þið inn að hafa fataskipti, áður en þið farið í kirkju. Þið verðið líka að þvo ykkur vel, og verið nú fljótir.“ Sveinbjörn og Kristinn tóku okkur sinn hvorn. Við vorum þvegnir í framan, en síðan færðir í hrein föt, sumt af körlunum, og var það allmjög við vöxt. Jökkunum var snúið við, þ.e. á rönguna, buxurnar gyrtar ofan í sokkana, beltisólar settar yfir mittið og húfurnar á höfuð okkar ranghverfar. Við þetta urðum við æði bústnir og mislitir í klæðaburði, hálf skringilegir, en til þess svo að kóróna klæðnað okkar kom Mangi Eiríksson með stóran rauðan vasaklút og batt um háls mér. Síðan fóru karlarnir í jakkana, þeir kvaddir, sem heima ætluðu að vera, en það voru þeir Jón, pabbi og Mangi. Ég leit á pabba, en gat ekkert lesið úr svip hans nema fyllstu alvöru. Þá leit ég á Hjála. Svipur hans var eitthvað skrítinn, sennilega hefir hann barist við hlátur og grát, en sjálfur var ég lafhræddur, skjálfandi og hálfkjökrandi.
Svo var lagt af stað og við leiddir upp brekkuna. En þegar við komum upp undir Brattabring, sem er skammt ofan við kofann og norðan við Nóngil, þá sprakk blaðran. Við Hjáli fórum báðir að háskæla og vildum fara heim í kofa. Við hentum okkur niður í grasið, svo að þeir Sveinki og Kristinn sögðu, að ekki þýddi annað en fresta kirkjuferðinni að þessu sinni, ekki væri hægt að fara með okkur alla útskælda. Við lofuðum þarna öllu fögru í hegðun framvegis, bara, ef við þyrftum ekki að fara í kirkjuna.
Var þá farið aftur heim í kofa, og var okkur vel og vinsamlega tekið við afturkomuna. Þeir voru okkur mjög góðir allir og hlýir í framkomu. Magnús gaf okkur sína kexkökuna hvorum og smurði sultutaui á kökurnar.
Við lofuðum þarna enn á ný betri hegðun og hlýðni framvegis, og það loforð stóðum við við allan lundatímann, vorum mjög viljugir til allra snúninga, héldum kofanum hreinum, og gerðum allt, sem við vorum beðnir um. Urðum við þannig fyrirmyndar strákar vegna þessarar upphugsuðu messugerðar Skerprestsins á Molda.
Aldrei var meira minnst á þetta, en oft heyrðum við talað um kollóttu Settu, sem var mesta óþekktarrolla, Skerprestinn, og eitt sinn fór Magnús með allt kvæðið, sem var býsna langt, og lýsti Skerprestinum og steinnökkva hans, ásamt sambandi hans við Ofanleitispresta.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit