Ritverk Árna Árnasonar/Frá súluferðum Eyjamanna í úteyjar og í Eldey

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Frá súluferðum Eyjamanna
í úteyjar og í Eldey


Súla var og er hér aðeins í 4 af eyjum Vestmannaeyja, þ.e. Súlnaskeri, Geldungi, Hellisey og Brandi. Hún var stundum tekin jafnhliða fýlnum og stundum fyrir fýlaferðir. Hún var drepin eins og fýllinn, þ.e.a.s. með kepp ca. 60 sentimetra löngum. En þyngri og sterkari var súlukeppurinn en fýlakeppurinn, þar sem súlan þarf þungt högg til þess að rotast. Þareð Eyjamönnum fannst súluveiði sín oft lítil, fengu þeir „Eldey“ við Reykjanes leigða og fóru þangað til veiða á 1 til 2 mótorbátum og komu með þá fullhlaðna af súluunga. Ferðir þessar vestur í Eldey voru oft hinar mestu svaðilfarir, þareð farið var í september, en þá allra veðra von.
Eldey er ekki stór um sig, en þar er hver blettur setinn af súlu svo þétt, að varast er hægt að drepa þar niður fæti. Venjulega fóru 6 til 8 menn upp á eyna og höfðu þeir ærinn starfa við súludrápið.
Upp á Eldey er farið eftir keðjum og boltum, líkt og í Súlnaskeri, upp ca 90 til 100 metra standberg. Þegar fyrsti maðurinn kemur upp fyrir brúnina, má hann hafa alla varúð að fá ekki súlu í höfuðið, högg hennar með nefi eða væng eða slæmt bit, er hún flýgur út úr bæli sínu. Súlan er ákaflega sterkur fugl og þyngd hennar um 8 til 10 pund, svo að það er hreint ekki gaman að verða fyrir loftárás af henni.
Í þessu veðri er yfirferðin um Eldey ekki mjög slæm, en í bleytu og rigningu kárnar gamanið. Þá uppblotnar fuglaskánin (drithaugarnir) og þetta dásamlega og óviðjafnanlega fuglabú verður að óhuggulegum sorphaug. Maður sekkur í kaf í drullu í hverju spori og verður útataður frá toppi til táar.
Landslagi uppi í Eldey hagar svo, að eftir endilangri eyjunni miðri liggur ósléttur hryggur eggmjór. Honum hallar út af beggja vegna með samskonar þverhryggjum. Á eynni sést ekki stingandi strá eða annar gróður. Grjót, drit og súla. Það er allt og sumt, en það er líka í ríkum mæli. Fyrrnefndir berghryggir eru svo mjóir að í bleytu er illmögulegt að fóta sig á þeim, til þess að komast um eyjuna. Alls staðar annars staðar er ófært og erfitt yfirferðar.
Að lýsa súludrápi þarna er ekki gott, því að margt skeður í einu. Aðferðin er sú, að ca 50-60 súluungar eru reknir í einn hnapp á þeim stað, sem drepa skal fuglinn, og er staðurinn valinn þar, sem vel hagar til með að kasta fuglinum niður í sjó, þar sem svo bátsmenn hirða hann.
Þessu næst ráðast mennirnir allir í einu á hópinn með keppum sínum. Er lamið og rotað vægðarlaust, þar til enginn af fuglunum stendur eftir eða bærist. Manni finnst, að þetta hafi verið ómannúðleg aðferð, því að vitanlega fyrirkemur, að hausinn, sem er á sífelldu iði, hittist ekki, en höggið lendi í skrokkinn og brakar þá og brestur í brotnum beinum. En veiðimennirnir úr Vestmannaeyjum eru fljótir og öruggir í orrustunni, svo að varast kemur fyrir að þeir hitti ekki, svo að fuglinn drepst svo fljótt sem undan byssukúlu, enda leggja og veiðimenn alla krafta sína og leikni í hið drepandi högg.
Þegar búið er með þessum hætti að drepa 1.800 -2.000 súlur, þ.e.a.s., ef 2 bátar fara, annars ca 9-10 hundruð, gefa bátsmenn merki um að hætta veiðinni, því að fullfermi sé komið á bátinn.
Veiðimenn eru þá venjulega í miklum vígamóð að drepa og bera fenginn fram á fjallsbrúnina og kasta niður, en þeir passa sig mjög vel á því að drepa ekki meira en hægt er að taka á bátinn. En uppi í eynni er af nógu að taka, því að þar eru sem mest 6 þúsund súluhreiður.
Síðan hefst niðurförin úr eynni. Ef veður og sjór eru góð og hagstæð, er þetta leikur einn fyrir Vestmannaeyingana, sem eru öllum öðrum fremri að fara í fjöllum. En í bleytu er þetta afar vond fjallaferð og hættuleg, og ekki bætir úr, ef sjó brimar. Þá er annað en gott uppi á teningum Eyjamanna. Já, jafnvel fyrir þessa menn, sem ekki kunna að hræðast, og kalla ekki allt ömmu sína. Engir vilja teppast þarna uppi, blautir inn að skinni, forugir og blóðugir, dauðþreyttir og algjörlega matarlausir. Í bleytu eru allar keðjur og kaðlar hálir sem gler, af bleytu og driti, svo að illmögulegt er að halda sér. Máske veður og svellur nú brimið við eyna, og óglæsilegt er að eiga nú að hlaupa í léttbátinn, sem hoppar og skoppar í löðrinu, og berst fljótt til og frá berginu á kröppum öldutoppunum.
En áfram er haldið, fet fyrir fet, hægt og sígandi, uns komið er niður á sjóflána. Bátsmenn fagna uppgöngumönnunum, og allt er gert klárt til að leggja að eynni og ná mönnunum heilum á húfi. Ólögin vaða yfir sjóflána, en formaður bíður tækifæris, og skipar öllum að vera reiðubúnir að hlaupa í bátinn, þegar ,,lagið” kemur. Og brátt nálgast léttbáturinn, einn, tveir og þrír. „Hlaupið fram,“ skipar skipstjóri, og allir hlaupa svo framarlega sem unnt er. Báturinn kemur að, og allir hlaupa, hver eftir annan og jafnvel tveir í einu, svo að allir komast í léttbátinn á sama laginu.
Nú er tekið sterklega til róðurs, og brátt eru allir komnir úr hættu og upp í mótorbátinn. Þá er nú tekið til óspilltra málanna, þvo af sér mesta skítinn, fara í hrein og þurr föt utast sem innst og fá sér ærlegan matarbita. Og ekki spillir svo blessaður kaffisopinn, sjóðheitur og lútsterkur, máske með örlitlu tári af brennivíni út í. Það yljar frá hvirfli til ilja.
Svona ferðalag getur gengið mjög misjafnlega, stundum varir ferðin upp og niður eyjuna og súludrápið aðeins 3 til 4 tíma, en stundum varir þetta 12 til 15 tíma, ef aðstæður eru erfiðar. Komið hefur fyrir, að bátar héðan hafa verið 3-4 daga í túrunum og hafa þá verið að bíða leiðis 1-3 daga inni í Höfnum eða Grindavík, annaðhvort eftir leiði að komast út í Eldey eða leiði heim til Eyja aftur. En oftast gengur allt þetta allvel, og fá eða engin slys verða eða hafa orðið á mönnum, þótt hins vegar sé oft teflt á tæpasta vaðið í þessum hættuferðum frá Vestmannaeyjum vestur í ríki súlunnar í Eldey.
Nú eru þessar Eldeyjarferðir Vestmannaeyinga lagðar niður og Suðurnesjamenn tóku við í tvö eða þrjú ár, en hættu svo líka, enda fannst þeim ferðir út í Eldey of erfiðar og hættulegar til þess að vera að stefna til þeirra.
Hér í Vestmannaeyjum þótti það góð björg í bú að fá máske 80 til 100 súlur í hlut, ef vel gekk að veiða. Það var mikill matur fyrir þurfandi þurrabúðarmann og barnmargt heimili hans. Nú borðar enginn súlu, þykir vart sæma menningu 20. aldarinnar að leggja sér slíkt kjöt til munns, sem þó er ágætt að mörgum finnst og ljúffengt, sem annað sjófuglakjöt, t.d. skarfa og lóma, en þó með dálítið meira fiskbragði.
Um súluveiði í Vestmannaeyjum er alveg sama og framanritað að segja, nema hvað hér heima er súlan mest öll veidd á bælum hennar utan í björgunum, svo að síga verður til hennar stór og hættuleg bjargsig, þar sem svo unginn er rotaður með kepp, eins og áður greinir og síðan kastað í sjó til bátsins. Þessi bjargsig eru ákaflega tilkomumikil, hörð og hættuleg, eins og þeirra getur í gömlu vísunni:

„Hörð eru sig í Háubælum
og hættuleg.
Há-Brandinn og hræðist ég,
en Hellisey er ógnarleg.“

Stærsta sigið í Hellisey heitir ,,Stór-hellarnir”. Er það hættulegasta, versta og stærsta bjargsig Vestmannaeyja. Annað stærst sig hér er „Há-Brandurinn”, efst ofan af eyjunni Brandi að austan. Þessi tvö nefndu sig eru fyrir súlu, en þriðja sigið er í Háubælum í Elliðaey, fyrir svartfugl og egg hans.
Til annarra stórsiga telst og Árnabæli í Suðurey, sem er um 100 faðma langt. Mörg önnur sig eru hér stór og erfið, en venjulegustu sigin, 1-3 vaðarhæðir, þ.e. 15 til 45 faðma, fyrirfinnast í hverri útey.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit