Ritverk Árna Árnasonar/Fimmtíu ára söngafmæli

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Úr fórum Árna Árnasonar


Fimmtíu ára söngafmæli


Árni J. Johnsen


byrjaði söngferil sinn hjá Jóni Kristjánssyni söngstjóra, þeim, er byggði húsið Laufás. Það var í fjórrödduðum karlakór. Var Árni þá unglingur að aldri. Hann söng með söngkór Jóns Kristjánssonar þar til kórinn hætti störfum við brottför Jóns úr Eyjum 1905.
Þegar Brynjólfur Sigfússon tók við af Jóni Kristjánssyni og föður sínum, Sigfúsi Árnasyni, og gerðist organisti Landakirkju, söng Árni þar með og síðar í blönduðum söngkór Brynjólfs, er varð enn síðar að Vestmannakór. Hafði Brynjólfur Sigfússon þannig tvo söngkóra, þ.e. kirkjukórinn og blandaða söngkórinn og söng Árni í þeim báðum. Árið 1904 stofnaði Brynjólfur Sigfússon Lúðrasveit Vestmannaeyja og gekk Árni í hana nokkru síðar og spilaði með henni í mörg ár, eða þar til hún hætti störfum, 1917/18.
Um nokkur ár dvaldi hér Helgi Helgason tónskáld. Hann tók við Lúðrasveit Eyjanna og kenndi nýjum mönnum á lúðrana. Á meðan Helgi Helgason dvaldi hér lauk hann við mikið tónverk, sem hann nefndi Gunnarshólmi. Þá æfði Brynjólfur Sigfússon mörg lög eftir Helga Helgason og hélt söngskemmtun í Gamla-Bíói, í tilefni af sjötíu ára afmæli tónskáldsins. Þar voru á söngskránni 14 lög eftir Helga Helgason og þar á meðal lagið Gunnarshólmi. Þar söng Árni J. Johnsen og þótti takast mjög vel, sennilega eitt hans mesta og bezta söngafrek. Má með sanni segja, að Árni hafi verið syngjandi og leikandi á hljóðfæri allt frá 12 ára aldri til þessa dags, enda er hann aldursforseti starfandi söngmanna hér í Eyjum og hefir getið sér hið bezta orð sem söngmaður.
En Árni hefur í fleiru sýnt sönghæfni sína en í Gunnarshólma. Hann hefur t.d. undanfarnar 49 þjóðhátíðir sungið þar með söngkórum Brynjólfs Sigfússonar og kirkjunnar og syngur nú í 50. sinn á þjóðhátíðinni og nú með Kirkjukórnum. Á hverri þjóðhátíð hefir hann sungið ,,ÞÓRÐ MALAKOFF“ – einsöng, og gert því frábærlega góð skil. Nú munum við fá að heyra hann syngja ,,Þórð Malakoff“ í 50. sinn og er það út af fyrir sig hreint ekki svo ómerkilegt afmæli í söng.-
Gamlir siðir og góðir eru í hávegum hafðir í Vestmannaeyjum og er það vel. Þeir hafa skapað samheldni og sett sinn sérstaka svip á menningarlíf Eyjaskeggja. Þess vegna er það vel farið, að enn skulum við fá að heyra okkar ágæta söngvara Árna J. Johnsen syngja þetta hefðbundna og táknræna lag fyrir þjóðhátíðargesti og til þess enn að viðhalda þessum skemmtilega sið Eyjamanna.
Um leið og Árni hefir verið ágætur söngmaður, hefur hann og sýnt ágæta kennslu- og stjórnarhæfileika í söng. T.d. stjórnaði hann Vestmannakór um tveggja ára bil og Karlakór verkamanna stjórnaði hann um alllangan tíma, hvorttveggja við ágæta dóma söngfólksins.
Árni J. Johnsen var gerður að heiðursfélaga Vestmannakórs árið 1951 og fannst öllum hann eiga þann titil skilið fyrir góð og mikil störf í söngmennt þessa byggðarlags.
Við viljum fyrir hönd Eyjaskeggja og allra þjóðhátíðargesta þakka Árna vel unnin störf og skemmtileg fyrr og síðar og biðjum hann vel lifa og lengi enn á söngvabraut sinni.

Hann lifi!
Árni Árnason
Þjóðhátíðarblað Þórs 1962


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit