Ritverk Árna Árnasonar/Erindi um Örn Arnarson

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Úr fórum Árna Árnasonar


Erindi um Örn Arnarson og ljóð hans
frá sjónarhóli leikmanns.


„Eins og barn með blóm í fangi,
bróðir, kem ég inn til þín.“

Þegar ég fór að taka saman smáerindi um Örn Arnarson og ljóð hans, datt mér ekki í hug, að það mundi verða eins erfitt og raun varð á, því bæði þekkti ég Magnús töluvert, þegar hann var hér í Eyjum og þá aðallega gegnum íþróttastarfsemina og heimilið að Hofi, og svo hef ég síðar kynnt mér kvæði hans. Ég þóttist því standa vel að vígi með að fjalla um Magnús, þar sem ég svo líka hafði brot úr ævisögu hans við höndina, þ.e. í kvæðabók hans, Illgresi, sem gefin var út 1942. En þrátt fyrir þetta allt, reyndist mér þetta býsna erfitt, þar eð ég vildi ekki fara að endurrita neitt að ráði upp úr ævisögubroti hans í Illgresi, sem skrifað var af Bjarna Aðalbjarnarsyni og allir hafa góðan aðgang að, og svo þrátt fyrir mikla leit, fann ég helst ekkert um skáldið skrifað, lífs eða liðið, svo að ég varð að leita á náðir eftirmæla um hann. Erindi þetta verður því hvorki langt né líklegt til að verða til fræðslu eða skemmtunar.

Uppruni og æska


Magnús Stefánsson var fæddur að Kverkártungu á Langanesi 12. des. 1884, sonur hjónanna Stefáns Árnasonar frá Hjálmárströnd í Loðmundarfirði og konu hans Ingveldar Sigurðardóttur frá Svínafelli í Hjaltastaðaþinghá. Lengra verður ætt hans ekki rakin sem stendur. Þó má geta þess að systkini Magnúsar voru fimm systur, sem allar eru á lífi, og eldri en hann, og einn bróðir, sem dó á fyrsta ári.
Foreldrar hans voru fátæk mjög, brugðu búi 1887 og fluttust hjú að Miðfirði og höfðu þau Magnús með sér, en systrunum var fyrirkomið víðs vegar. Faðir Magnúsar drukknaði í Miðfjarðará og fór þá móðir hans að Þorvaldsstöðum í sömu sveit og þar ólst Magnús upp. Kynntist hann þar að sjálfsögðu alls konar sveitastörfum og sjósókn nokkuð, því sótt var til fiskjar frá Þorvaldsstöðum.
Um tvítugt fór Magnús að leita sér skólamenntunar. Árið 1906 var hann svikinn um skólavist í Gagnfræðaskólanum á Akureyri, svo að hann fór þá í unglingaskóla, sem haldinn var á Grund í Eyjafirði veturinn 1907–08, lauk þar gagnfræðaprófi. Árið 1908–09 var hann í Kennaraskólanum og lauk þar kennaraprófi. Hann var ágætur námsmaður, en ef dæma skal eftir kvæði hans „Í skóla“ hefir hann ekki verið ánægður með þessa menntun, en þar við sat. Skólamenntun hans varð ekki meiri.
Um áramót 1910–11 kom Magnús hingað til Eyja og réðst til h/f Herjólfs fyrst, en eftir skamma dvöl þar, réðst hann sem sýsluskrifari til Karls Einarssonar sýslumanns og var hjá honum til hausts 1918 að undanskilinni nokkurra mánaða dvöl á Siglufirði og Akureyri.
Héðan fluttist hann til Hafnarfjarðar og vann þar við verslunar- og skrifstofustörf, en oft líka ýmis útistörf, síldar- og vegavinnu á sumrin. Árið 1935 kenndi Magnús hjartabilunar og gat lítt unnið eftir það og kom sér því vel, að 1936 fékk hann skáldastyrk og hélt honum síðan, fyrst 1000 kr., en síðar 1800 kr. Síðustu árin var Magnús að mestu rúmfastur og andaðist svo í St. Jósefsspítala í Hafnarfirði 25. júlí 1942, ókvæntur og barnlaus og mörgum harmdauði.
Magnús var mjög dulur maður í hvívetna allt fram á síðustu stund lífs hans, lét lítið á sér bera, stilltur, rólyndur og tilbakahaldandi. En í vinahóp var hann ræðinn og skemmtilegur og fróður um marga hluti og víðlesinn. Til dæmis um það, hve dulur hann var, er það meðal annars að sagt var, að Karl Einarsson sýslumaður hafi ekki vitað með vissu um skáldskapargáfu hans, en Magnús fór frá honum eftir nær 8 ára samvinnu, utan nokkra gleðibragi, sem hann hafði gert til upplestrar eða gamansöngs. En það var líka svo, að sumt var honum eignað, er aðrir höfðu gert af þess háttar skáldskap, t.d. Halldór Gunnlaugsson, og sumt sem Magnús gerði öðrum eignað.
Magnús var sérlega lipur skrifari og hafði fallega rithönd og var ágætis skrifstofumaður, duglegur og prúður í framkomu allri.

Íþróttir og ástarsorg


Ég man vel eftir Magnúsi hér í Eyjum og kynntist honum dálítið sem fyrr segir. Hann var þá í KV (Knattspyrnufélagi Vestmannaeyja) og spilaði oftast sem hægri útframherji, sótti því nær hverja einustu æfingu og keppti vitanlega alltaf í kappleikjum við góða dóma meðspilara og áhorfenda. Og eftir að hann fór héðan alfarinn, 1918, fengum við Vestmannaeyingar hann til að keppa með okkur árið 1920, við Reykjavíkurfélögin, og var hann okkur þá mjög liðtækur. Hann var afbragðs góður spretthlaupari og held ég, að fáir hér hafi jafnast honum á 60 til 80 metra spretti. Upphlaup hans í knattspyrnu voru því mjög hættuleg, fljót, snörp og örugg, enda komst margur í krappan dans við hann á knattspyrnuvellinum.
Á veruárum hans hér var það siður unga fólksins að fara inn í Brimhólalaut um björt sumarkvöldin og dansa þar eftir grammófónmúsík eða fara í ýmsa leiki. Þar var Magnús oft með, en hvort hann tók þátt í dansinum man ég ekki, en í leikjunum var hann alltaf með og var þá reifur og glaður sem aðrir í þessum lífsglaða hóp, enda var hann þar með góðvinum sínum og kunningjum og á besta aldri eða innan við þrítugt.
Þegar hann svo spilaði með okkur knattspyrnuna í Reykjavík 1920, sem fyrr getur, fannst mér hann vera mikið breyttur að skapferli, enda þótt hann væri bæði ræðinn og allkátur við okkur Eyjastrákana og talaði í okkur kjark, er á móti blés. Það var eitthvað, sem þyngdi hug hans og fannst mér stundum sem kæti hans og viðræður væri nærri þvinguð. Ekki er mér þó kunnugt um neitt, sem þessu gæti valdið, en oft hefir mér síðan komið í hug í þessu sambandi kvæði hans, sem reyndar er birt í nýjasta Illgresi sem þýðing, en er auðvitað frumort, sem hann nefnir „Í Eyjum“ undir laginu „Det var på Frederiksberg“, einmitt vel þekktu lagi á veruárum hans hér. Þar finnst mér mega lesa milli ljóðlínanna, að hann hafi þekkt vel, eða jafnvel verið mjög hrifinn, svo ekki sé meira sagt, af stúlku hér í bænum, sem ég hef ástæðu til að ætla að verið hafi. Og ef við förum yfir kvæði þetta, kemur þetta betur fram, hrifni hans af henni, samvera þeirra og kærir staðir vegna fyrri samfunda; en „örlögin á önnur sund þeirra stýrðu fleyjum“, eins og hann segir sjálfur. En nú skulum við láta orð hans tala til okkar í gegnum þetta kvæði. Hann ávarpar ungu stúlkuna sína og segir:

Manstu okkar fyrsta fund
forðum daga í Eyjum?
Barnaleg og blíð í lund
barstu af öðrum meyjum.
Ég var ungur eins og þú,
einn af þorpsins snáðum.
Sama von og sama trú,
sama þrá hjá báðum.
Bernskuleikir breyttust þá,
blóm úr knöppum sprungu,
nýjum lit á lífið brá,
lærðum nýja tungu.
Allt var gott, og allt var nýtt
og yndislegt og frítt.

Og svo kemur upptalningin á hinum eftirminnilegu, kæru samverustöðum þeirra, stöðum, sem þau hafa heimsótt saman. Og hann minnist hinna fögru sumarkvölda, er æskan skemmti sér inni á Flötum við dans og leiki. Og hann spyr hana:

Manstu, hvað ég með þér fór
marga skemmtigöngu,
inn í Dal og upp í Kór,
undir Stóru-Löngu?
Upp að Hvíld og Löngulág
lágu stundum sporin.
Kannast þú við Klif og ?
Komstu þar á vorin?
Inn um Flatir oft var kátt,
— æskan fór með völdin —
hlaupið, leikið, dansað dátt
draumblíð sumarkvöldin.
Fuglinn uppi í fjallató,
hann fékk ei næturró.

Og tíminn líður og æskuástin virðist hafa breyst einhvern veginn. Fulltíða árin hafa oft svo miklar breytingar í för með sér á sviði ástarinnar, svo að jafnvel hin sterkustu bönd hennar, hnýtt á æskuárunum, slitna og valda oft sársauka og trega og héraðsflótta viðkomandi. Já, tíminn líður, breytingin á sér stað. Skáldið flyst héðan og segir svo að síðustu og hugsar þá til hennar og kærra staða frá gömlum dögum:

Enn skín sól á sundin blá
sumarlangt í Eyjum.
Sama von og sama þrá
sveinum hjá og meyjum.
Enn er leikið létt og dátt,
líkt og fyrr á dögum.
Fyrsta ástin á sinn þátt
enn í mörgum sögum.
Örlögin á önnur sund
okkar stýrðu fleyjum.
Manstu okkar fyrsta fund?
Fagurt var í Eyjum
æskuvors í morgunmund.
Ég man það alla stund.

Þannig segist Erni Arnarsyni. Er það hans fyrsta ást og unnusta, sem hann talar hér um? Fyrsta og síðasta, því hann kvæntist aldrei. Fór hann héðan, þegar örlögin stíuðu þeim sundur og stýrðu fleyjum þeirra hvoru á sína leið? Þessu verður aldrei svarað og er því aðeins líkleg getgáta og máske óþarfa hnýsni inn í fortíðina.

Sjálfmenntaður og víðförull


Eins og ég sagði áðan hefir fátt verið skrifað um Örn Arnarson, utan æviágripið í Illgresi, sem um leið eru eftirmæli, því hann andaðist, meðan bókin hans síðasta var í prentun. Vestan hafs hefir hans þó verið minnst í íslensku blöðunum þar af Sigfúsi Halldórs frá Höfnum og í kvæði S.B. Benediktssonar, „Ljóðabréf til Arnar Arnarsonar“, er birtist í Lögbergi 28. des. 1939. Þá er og Arnar minnst með smágrein í „Stuðlamálum“, 3. hefti 1932 og er þar birt mynd af honum og hann lofaður fyrir kvæði sín.
En hið merkasta umskrif er í 6. hefti „Samtíðarinnar“ 1935, eftir Sigurð meistara Skúlason. Eru þar kvæði Arnar fram að þeim tíma gagnrýnd að nokkru frá listarinnar sjónarmiði af samúð og góðum skilningi, það sem greinin nær. Þá rekur og Sigurður nokkuð ævi skáldsins, en meira hefði það gjarnan mátt vera og í fleiri blöðum en einu, sem þó ekki er svo víðlesið sem það þó á skilið.
Það er því með Örn Arnarson sem marga aðra íslenska „skáldameistara“, að frægðin og þakkir þjóðarinnar fyrir ógleymanleg meistarastykki í bundnu máli, koma fyrst eftir dauða þeirra. Þá fyrst opnast augu almennings, enda þótt einstaklingarnir hafi með mörgu móti reynt að koma þjóðarheildinni í skilning um, að þarna væri á ferðinni stórskáld, sem þyrfti að hlynna að, ef vel ætti að fara. Og með aðstoð þessara einstaklinga hafðist þó að koma alþingi á rétta braut 1936, er það samþykkti styrk til Arnar – en þá var það bara of seint. Maðurinn gat engu afkastað eftir það vegna veikindaáfalls þess, er hann fékk 1935. Jú, og svo 1940 er þessi styrkur hækkaður upp í 1800 kr., en þá var hann að mestu rúmfastur. Þetta hjálpaði því, að hann færi ekki á hreppinn, ef svo mætti segja. – Þess má geta, sem gert er, - en fyrr hefðu upphæðir þessar og þakkarviðleitni þingsins mátt koma honum til handa.
Sem fyrr getur var skólamenntun Arnar ekki mikil, svo að hann var, sem svo fjöldamörg önnur íslensk merkisskáld, maður að mestu sjálfmenntaður, bráðskarpur að gáfum og hefði vafalaust getað komist á fremsta bekk mannlífsins, ef hann hefði getað notið áframhaldandi skólamenntunar. En það var honum ókleift, og því varð hann að afla sér menntunar með því að lesa bókmenntir og svo af ferðalögum. Af þeim var hann vel kunnur, enda segir í Stuðlamálum: „Hann var alkunnur göngugarpur og kunnugir fullyrða, að hann hafi nálega gengið landið þvert og endilangt.“
Þessi ferðalög hafa líka auðgað hugsjónir hans mikið. Lýsingar hans, hinar snjöllu og fögru á Íslandi, í ljóðabréfi hans til Vestur-Íslendinga, bera því órækan vott, að höfundurinn er bæði gæddur mjög ríkri athyglisgáfu og gagnkunnugur fjölbreytni íslenskrar náttúru, hambrigðum hennar eftir árstíðum og veðurfari.

Glettni og kaldhæðni


Við skulum nú koma nánar að kvæðum Arnar. Það eru nú 30 ár síðan hann kom fram á ritvöllinn. Nokkur smákvæði eftir hann birtust í 1.-2. hefti Eimreiðarinnar 1920 og vöktu þegar athygli ljóðelskra manna, því þar var slegið á nýja strengi í íslenskri ljóðagerð. Hefir Sigurður Skúlason það eftir Magnúsi Jónssyni prófessor, sem þá var ritstjóri Eimreiðarinnar, að honum hafi virst sem hér væri upprisinn íslenskur Heine, að loknum lestri á fyrsta kvæði Arnar. Víst er um það, að margt er það í þessum kvæðum, sem minnir á hinn þýska ljóðsnilling, hin leikandi lipurð og þó einkum glettnin og kaldhæðnin, sem auðkenndi sérstaklega þessi kvæði Arnar og hefur enda ósjaldan verið grunntónninn í síðari kvæðum hans. Þá er og ekki síður eftirtektarvert um fyrstu kvæðin, hvernig hver einasta ljóðlína féll þar í fastar skorður og hvarf að einu marki. Sigurður magister Skúlason segir um þetta: „Örn Arnarson byggir kvæði sín á listrænan hátt. Hann hefir lag á því að hleypa í þau stígandi, líkt og tíðkast í leikritum, en hjá Erni nær stígandin hámarki sínu við lok kvæðisins án þess að nokkur hvellur heyrist.“
Við skulum til dæmis taka kvæðið um ekkjuna fögru og ríku, sem var ólík öllum konum í ólgandi dansiðunni, hafði húmdökkt hár og mjallhvítar tennur, ekkja, sem allir karlmenn urðu auðvitað stórhrifnir af:

Hún var ættuð að austan,
ekkja fögur og rík,
en hárið og tennurnar hvítu
hvort tveggja úr Reykjavík.

Sama glettnislega stígandin kemur einnig fram í kvæðinu um bókina, sem skáldið fékk lánaða hjá kunningja sínum vegna þess, hve hún var í fögru bandi og upphafskvæði hennar snoturt:

En að fletta þér allri,
var okkur báðum skaði,
því í þér fann ég ekkert nýtt.
Allt var á fremsta blaði.

Í sumum fyrstu kvæðum skáldsins varð þessi kaldhæðni að biturri og markvissri ádeilu eins og t.d. í „Öngulseyri“, um Hinrik kaupmann Hansen og frú hans, með hatt, sem er keyptur í Kaupmannahöfn og kostaði jarðarverð. Allir karlarnir á Öngulseyri báru „þrælkunarmerki ljós“ en voru þó „að eilífu snauðir menn“, þrátt fyrir ævilangt stritið:

En Hansen er sá eini,
sem aldrei handtak vann.
Þó safnar þar enginn auði
og ístru nema hann.

Samúð skáldsins með olnbogabörnum, hvort þau eru menn eða málleysingar, kemur enn gleggra fram í kvæðinu „Refur“ og ekki þar nein hálfvelgja í ádeilunni:

Mannúðin okkar manna
er mikil og dásamlig.
Við göngum svo langt í gæðum
að guð má vara sig.
Við segjum, að allt, sem andar
sé ættingjar guðs og manns,
Ef sjáum við fugla og fiska,
við finnum til skyldleikans.

Og svo kemur hin kaldhæðnislega stígandi þessa kvæðis, sem ekki missir marks frekar en ádeilan:

Við elskum allt, sem lifir,
ef okkur skilist gat,
að ef til vill gæti það orðið
á einhvern hátt að mat.
En það, sem ei verður etið,
aldrei lagavernd fær,
Svo langt kemst mannúð manna
sem matarvonin nær.

Kvæðið „Rjúpan“, sem birt er í Eimreiðinni, 3.- 4. hefti 1921, er sprottið upp úr sama jarðvegi, en er ljóðrænna og listrænna og þar er skyggnst djúpt niður í afkima mannlegs eðlis:

Skúraskýin grétu,
sumarsólin hló.
Rjúpan var að tína
rjúpnalauf í mó.
Valurinn yfir
í vígahug fló.
Renndi hann sér niður
og rjúpuna sló.
Það hitti mig í hjartað,
höggið, sem hann sló.
Ég grét með öðru auganu
með hinu ég hló.
Því er ég bróðir ránfuglsins,
er rjúpuna sló,
og rjúpan litla systir mín,
í valsklónum dó.
Ort um ástarsorg í Eyjum?


Eins og kvæðið „Ekkjan“ sýnir, yrkir Örn oft um konur og ástir í glettnum anda og kaldhæðnum, og skyldum við því ætla, að hann kynni ekki um ástir að ljóða á annan hátt. En það væri hinn mesti misskilningur. Hver vildi eigi kjósa sér að hafa ort jafn fagurt kvæði, skáldlegt ástarkvæði eins og „Ásrún“ Arnar? Hlustið bara á hin alvöruþrungnu orð elskendanna og vonbrigðin:

Kvöldið var skuggasælt, hlýtt og hljótt
og himinninn prýddur stjörnum,
öldurnar vögguðu okkur rótt,
tveim austfirskum sveitabörnum.
Á þilfari undum við, eg og þú
og indælt var saman að dreyma,
við ætluðum okkur að byggja brú
til bæjanna okkar heima.
Við ætluðum okkur að byggja brú,
sem bæri á milli stranda
og gengjum við alein, eg og þú,
til ónumdra sólskinslanda.
En aldrei varð hún byggð, sú brú,
og börnin er hætt að dreyma,
því ég er á flótta, en fangi þú
í firðinum þínum heima.

Og svo er hér annað sýnishorn sama kvæðis, ekki lakara, sem og ber að sama brunni, vonbrigðum hins kveðandi skálds. Hún var sólin og sumarið, en hann segist vera haustið og húmið – og því gleymdi hún því, sem hún hafði ætlað sér að verma. En hann geymir þó eitt, sem aldrei frýs og aldrei verður frá honum tekið, minninguna um hana. Hann segir:

Á gatnamótum myrkurs og dags
við mættumst í hinsta sinni.
Það mót var mér gjöf, er þú gleymdir strax,
en geymi ég enn í minni.
(Hann fór héðan um haustið 1918, athugið það).
Í rödd þinni sumarið söng og hló.
Úr sólskini voru þín klæði,
en mín voru úr haustsins húmi og ró
og hélu að öðrum þræði.
Mér fannst þú á leið með sumri og sól
til suðursins hlýju geima,
en ég fylgdi nóttinni norður á pól.
Í nepjunni á ég heima.
Og þó að mér verði þar allt að ís,
hver ósk og von og minning,
eitt á ég þó, sem aldrei frýs,
það er okkar forna kynning.

Kvæðið Ásrún skýrir fyrir okkur vel og greinilega, að sú léttúð og glaðværð, sem kom fram í Magnúsi á yngri árum hans, t.d. hér, og fyrstu árin eftir burtför hans héðan, sem ég hef áður minnst á, - og þegar hann þá kom fram sem allt léki í lyndi fyrir honum – allt þetta segir „Ásrún“ og enda fleiri kvæði hans, að sé gríma yfir vonbrigðum, mjög beiskum, þungri lífsreynslu og sárum, sem sviðið hafa allt til hinstu stundar hans, en hann gætir þess ávallt að segja ekkert um of í þeim efnum: „Sorgina hálfa, ástina alla, vil ég gefa þér.“ Hann hefur ábyggilega ekki haldið upp á hálfkveðnar vísur, hann Magnús Stefánsson, en þarna lætur hann okkur hafa hálfkveðið, svo við verðum að botna sjálfir, geta okkur til hver vonbrigðin voru, hver þau voru sárin, sem lengst svíður.
En hann gat líka kveðið öðruvísi, sýnt, að enn er einhver töggur í Íslendingum, t.d. í kvæðinu „Sigurður hreppstjóri“, þar sem hugsunarháttur höfundar og lífsskoðun kemur fram. Og sumum samtíðarmönnum segir hann líka ærlega til syndanna, berum orðum. Reynslan sýndi, að Örn bjó yfir mörgu, enda eru kvæði hans mjög svo fjölbreytileg, ekki fleiri en þau eru.
Við skulum t.d. taka kvæðið „Amma kvað“, sem er með snilldarhandbragði, en með allt öðrum blæ. Þar er heil lífssaga meistaralega sögð í einum fimm erindum, og samúðin er þar hinn sterki undirstraumur, borinn uppi af djúpum skilningi á mannlegu eðli.
Ég tek hér þrjú miðerindin sem sýnishorn. Amman er að kveða við grátandi gullinhærða glókollinn:

Afi þinn á Barði bjó,
bændaprýði, ríkur nóg.
Við mér ungri heimur hló.
Ég hrasaði fyrr en varði.
Ætli eg muni ekki þó
árið mitt á Barði?
Man ég víst, hve hlýtt hann hló,
hversu augað geislum sló
og hve brosið bað og dró,
blendin svör og fyndin.
Ég lést ei vita, en vissi þó,
að vofði yfir mér syndin.
Dýrt varð mér það eina ár.
Afi þinn er löngu nár.
Öll mín bros og öll mín tár
eru þaðan runnin,
gleðin ljúf og sorgin sár
af sama toga spunnin.
Ljóð um sjómennsku ber hvað hæst


Það var ekki nein tilviljun, að Örn Arnarson vann fyrstu verðlaun í ljóðasamkeppni þeirri, er Sjómannadagurinn í Reykjavík efndi til vorið 1939. Kvæði hans „Íslands Hrafnistumenn“ er bæði fágað og hreimmikið með karlmennskubrag eins og vera ber og, ef viðlagið væri aðgengilegra til söngs og náms fyrir alþýðuna, myndi hvert mannsbarn kunna kvæðið frá upphafi til enda. Ég get ekki stillt mig um að láta fylgja hér með tvö erindi úr kvæðinu:

Hvort sem fleytan er smá
eða seglprúð að sjá,
og hvort súðin er tré eða stál,
hvort sem knýr hana ár
eða reiði og rár
eða rammaukin vél yfir ál,
Hvert eitt fljótandi skip
ber þó farmannsins svip.
Hann er ferjunnar andi og hafskipsins sál.
Hvort með heimalands strönd
eða langt út í lönd
á hann leið yfir ólgandi flóð,
gegn um vöku og draum
fléttar tryggðin þann taum,
sem hann tengir við land sitt og þjóð,
þegar hætt reynist för,
þegar kröpp reynast kjör,
verpur karlmennskan íslenska bjarma á hans slóð.

Þó að Örn Arnarson hefði aðeins gert þetta eina kvæði, væri það nóg til þess að setja hann á stórskáldabekkinn, enda hefur íslenska sjómannastéttin drukkið í sig hvert orð kvæðisins og sungið það á öllum samkomum sínum, í hverri sjóferð, við öll hugsanleg tækifæri og aðstæður. Það er þjóðsöngur hennar og hann einn, út af fyrir sig, mun halda uppi nafni Magnúsar um fjölda marga áratugi.
Erfiljóðaskáldskapurinn er aldagamall í garði hjá okkur Íslendingum, og hafa öndvegisskáld vor, allt frá Agli Skallagrímssyni fram á þennan dag, ort ýmis sín svipmestu og dýpstu kvæði, þegar þeir hringdu „Líkaböng“ ljóða sinna yfir vinum og ættingjum. Hjá hversdagslegum ljóðasmiðum verða slík kvæði oftast sviplaus og litlaus, á lítinn eða engan hátt sérkennandi fyrir þann, sem ort er um. Annað er uppi á teningnum, þegar skáldsnillingur tekur í klukkustrenginn, af sjónarhól grafarinnar opnast nýjar víðáttur fyrir skyggnum sjónum hans. Ég held þetta sé ekki ofmælt um eftirmæli Arnar Arnarsonar, er hann orti um Sigurð skáld Sigurðsson, fyrrum lyfsala hér. Hefir kvæði Arnar að einkunnarorðum þessar ljóðlínur Sigurðar:

„Strjáll er enn vor stóri gróður,
stendur hann engum fyrir sól.“

Eitt af stórbrotnustu einstöku kvæðum Arnar og um allt eitt hið allra snilldarlegasta ljóð hans er „Stjáni blái“, sem allir kannast við. Þar er sögð saga særokins og veðurbarins fullhuga og lýst síðustu sigling hans. Lýsing hans á Stjána er orðhög og kröftug lýsing á þessum persónugervingi íslenskrar hreysti og karlmennsku í hópi þeirra, er sækja gull í greipar Ægis, og hræðist ekki þótt hörð verði fangbrögðin við hann. Ég tek hér upp brot úr því:

Hann var alinn upp við slark,
útilegur, skútuhark.
Kjörin settu á manninn mark,
meitluðu svip og stældu kjark.
Sextíu ára svaðilför
setur mark á brá og vör,
ýrir hærum skegg og skör,
skapið herðir, eggjar svör.
Norðanfjúkið, frosti remmt,
fáum hefur betur skemmt,
sýldi hárið, salti stemmt,
sævi þvegið, stormi kembt.
Sunnan rok og austan átt
eldu við hann silfur grátt.
Þá var Stjána dillað dátt,
dansaði skeið um hafið blátt.
Sló af lagi sérhvern sjó,
sat við stýri, kvað og hló,
upp í hleypti, undan sló,
eftir gaf og strengdi kló.
Svo lagði Stjáni blái upp í síðustu sjóferðina
og lét ekki á sig bíta að
„kólgubólginn klakkabakki
kryppu upp við hafsbrún skaut“,
en bauð stormi og stórsjó byrginn:
Æsivindur lotulangur
löðri siglum hærra blés.
Söng í reipum. Sauð á keipum.
sá í grænan vegg til hlés.
Stjáni blái strengdi klóna,
stýrði fyrir Keilisnes.
Og síðan segir:
Vindur hækkar. Hrönnin stækkar.
Hrímgrátt særok felur grund.
Brotsjór rís til beggja handa.
Brimi lokast vík og sund.
Stjáni blái strengdi klóna,
stýrði beint á drottins fund.

Allt er kvæðið með sama meistarabrag að orðalagi, hrynjandi, sem minnir á brimið og stormhvin, ágætlega samræmt frá byrjun til loka. Okkur má það öllum vera ljóst, ef við lesum þetta kvæði Arnar með athygli, að þannig yrkja þeir einir, sem ljóðgáfan hefir verið lögð í brjóst og á tungu, af þeim máttarvöldum sem hana veita.
Ég hygg, að hin nýja bók Arnar, sem út kom 1942, hafi selst vel sæmilega hér í bæ og sumsstaðar ágætlega, enda á hún það fyllilega skilið, að hún sé lesin. Það er ekki hægt að segja um hana, að í henni sé ekkert nýtt og allt finnist á fyrsta blaði. Nei — þar er, má með sanni segja, allt nýtt og eitthvað nýtt á hverju blaði. Mér finnst aðeins eitt að þessari bók hans og það er, að hún skuli heita „Illgresi“. Hún ætti að heita „Kjarngresi“, því það er hún sannarlega. Kjarngresi í íslenskri ljóðalist.
Það var sárt, að Magnús skyldi ekki geta notið ávaxtanna af starfi sínu og þeim vinsældum, sem ljóðabók hans skapaði honum, en sem fyrr segir andaðist hann rétt um það bil að bókin var fullprentuð, eða 25. júlí 1942.
Ég vil enda þetta litla erindi um þennan mæta mann, hið stóra skáld, með hans eigin orðum úr síðasta kvæði hans — „Þá var ég ungur“, sem mun ort rétt áður en hann fór á sjúkrahúsið í Hafnarfirði. Er það lýsing hans á tilverunni að leiðarlokum, en gæti alveg eins kallast „Kveðja til lífsins“. Þetta er síðasta erindið:

Nú er ég aldinn að árum.
Um sig meinin grafa.
Senn er sólarlag.
Svíður í gömlum sárum.
Samt er gaman að hafa
lifað svo langan dag.
Er syrtir af nótt, til sængur er mál að ganga
— sæt mun hvíldin eftir vegferð stranga —
þá vildi ég, móðir mín,
að mildin þín
svæfði mig svefninum langa.

Heimildir

  • Rit Vestur-Íslendinga um Örn Arnarson
  • Æviágrip Arnar eftir Bjarna Aðalbjarnarson
  • Samtíðin og fleiri rit.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit