Ritverk Árna Árnasonar/Af reykingum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit



Úr fórum Árna Árnasonar


Af reykingum


Við Hjálmar brölluðum margt saman. Eitt sinn komumst við í vindlakassa Jóns bónda. Okkur langaði ósköp mikið að prófa að reykja, eins og við sáum gestina gera, sem komu að Dölum og fengu vindla, og svo auðvitað elstu synir þeirra Dalahjóna. Við vissum því, hvar vindlakassinn var á kommóðunni inni í stofu. Við tókum sinn hvorn, náðum í eldstokk og fórum svo upp á Bússu, suður af bænum. Þar reyktum við í næði.
En Adam var ekki lengi í Paradís. Við fengum brátt velgju mikla og þóttumst hólpnir að komast heim til Þorgerðar, þá orðnir nábleikir og lasnir. Við sögðum henni sem var. Tók hún okkur og háttaði og loforð af okkur um að taka aldrei aftur vindla af kommóðunni eða reykja. Aldrei snertum við vindla Jóns eftir þetta, en hræddur er ég um, að nokkru síðar höfum við báðir farið að reykja sígarettur svona í laumi, svo að þann hluta loforðs okkar héldum við frændurnir ekki vel.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit