Ritverk Árna Árnasonar/Ármann Jónsson (Þorlaugargerði)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Ármann Jónsson.

Kynning.

Októ Ármann Jónsson í Þorlaugargerði fæddist 15. desember 1900 og lést 1. desember 1933.
Foreldrar hans voru Jón Pétursson bóndi og smiður í Þorlaugargerði, f. 21. júlí 1868, d. 18. júní 1932 og kona hans Rósa Eyjólfsdóttir húsfreyja, f. 3. júní 1876, d. 30. október 1944.

Ármann var við trésmíðanám 1920. Hann veiktist af berklum, dvaldi af þeim sökum langdvölum á Vífilsstöðum og lést nær 33 ára að aldri.

Kona Ármanns, (26. nóvember 1921), var Sólrún Eiríksdóttir húsfreyja frá Kraga á Rangárvöllum, f. 16. febrúar 1899. Hún flutti til Eyja árið 1919.
Börn Ármanns og Sólrúnar voru:
1. Aðalheiður Fanney, f. 20. júlí 1922, d. 27. ágúst 2003, gift frænda sínum Sigurði Inga Jóelssyni.
2. Armanína Sóley Ármannsdóttir, f. 9. apríl 1925, d. 13. mars 1927.

Úr fórum Árna Árnasonar símritara:
Bjargveiðimannatal.

Ármann var rúmlega meðalmaður á hæð, dökkhærður, dálítið lotinn í herðum, nokkuð þrekinn um herðar, fremur andlitsfríður og rjóður í andliti, en ljós yfirlitum. Hann var hinn mesti léttleikamaður, snar og liðugur, mjög yfirlætislaus og nokkuð til baka, en þó glaður og reifur og átti til að vera mesti fjörkálfur innan um vini og í sínum hóp. Ármann var mjög lipur veiðimaður og hefði efalaust orðið hár á metunum, ef líf og heilsa hefði leyft, en hann var lengi heilsulaus og varð að hætta fuglaveiðum.
Má með sanni segja, að í ætt þessari, meðal ættingja og venslafólks, sé að finna afbragð annarra veiðimanna í Eyjum, eins og sjá má í skrifum þessum og eru þeir Þorlaugargerðisfeðgar þar engir eftirbátar. Hefði Ármann ábyggilega gert garðinn frægan og haldið merkinu hátt, ef líf og heilsa hefði leyft.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Eyjar og úteyjalíf – Úrval verka Árna Árnasonar símritara frá Grund. Sögufélag Vestmannaeyja í samstarfi við Safnahús Vestmannaeyja 2012.
  • Garður.is.
  • Landeyingabók — A-Landeyjar. Valgeir Sigurðsson og fleiri. Ritstjóri: Ragnar Böðvarsson.

Austur — Landeyjahreppur, Gunnarshólma 1999.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.