Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Olnbogadraugurinn
Til skamms tíma var dys nokkur spölkorn suður af Olnboga, ofan Ofanleitisvegar. Er það sögn manna, að þar hafi verið fyrir löngu verið dysjaður vinnumaður prests eins á Ofanleiti. Hafði hann farizt voveiflega. Kvöld eitt, seint á vöku, hafði prest þrotið vín. Bað hann þá vinnumann sinn að fara niður í Landakirkju, og sækja þangað messuvínskút, sem þar var geymdur. Vinnumaður kom ekki heim um kvöldið, og var þegar í bítið morguninn eftir gjörð leit að honum. Fannst hann þá dauður þarna ofan vegarins og messuvínskúturinn tæmdur hjá honum. Var hann síðan dysjaður þar sem hann fannst, og var dysin jafnan nefnd Öldyngja eða Dauðmannsdys. Gekk vinnumaður aftur og gjörði þeim, sem um veginn fóru, er degi hallaði, ýmsar skráveifur, en einkum þó með því að valda þeim villu. Til dæmis um það er sagt að einhverju sinni hafði Sæmundur í Draumbæ brugðið sér austur að Dölum. Seint að kvöldi hélt hann heim aftur og fór Dalaleiðina, og stefndi á veginn hjá Olnboga. Logndrífa var á. Skammt ofan Leynis varð hann villtur og ráfaði þarna lengi um, án þess að vita hvar hann fór. Er mjög var orðið áliðið, þótti furðu sæta heima hjá honum, hversu lengi honum dvaldist. Var þá gerð leit að honum, og fannst hann ráfandi um móana ofan Olnboga. Ekki þótti Sæmundi eða öðrum þetta einleikið, því mjög var hann kunnugur á þessum slóðum, og var Olnbogadraugnum kennt um villuna.
Pétur sálugi í Þorlaugargerði stundaði sjóróðra á vertíðum neðan úr Sandi. Fór hann venjulega að nóttinni niður eftir, þegar hann bjóst við að sjóveður yrði. Einu sinni sem oftar var hann nótt eina á leið til sjávar. Veður var gott og glatt tunglsljós á. Þegar hann kom niður undir Olnboga, sér hann hvar maður gengur skammt eitt á undan sér, á leið til sjós. Varð Pétur feginn að fá samfylgd, og herðir nú gönguna til þess að ná manninum. En hversu mjög sem Pétur greikkaði sporið, þá dró hvorki sundur né saman með þeim. Gekk á þessu um hríð, og gætti Pétur ekki að sér fyrri en hann stóð á barmi Kaplagjótu, og sá hann þá á eftir manninum, þar sem hann stiklaði upp Tíkartærnar, og hvarf hann honum þar. Var almennt talið, að þetta hefði verið Olnbogadraugurinn, sem hér var að verki, og hefði hann ætlað að koma Pétri fyrir kattarnef.
Skömmu fyrir síðustu aldamót var piltur nokkur að Ofanleiti, sem Steinmóður hét. Var hann alinn þar upp sem niðursetningur. Hann var oft sendur niður fyrir Ofanleitishraun til þess að sækja Kristínu, dóttur séra Brynjólfs, er hún hafði farið að heimsækja Jónínu systur sína, að Löndum. Það var einu sinni að vetrarlagi, að hann var sendur í vökulok að sækja hana. Austanrok og slydda var á. Þegar þau komu upp undir Olnboga gegnt Leyni, heyra þau fótatak á eftir sér. Líta þau þegar við og sjá þá, að einhver flygsa kemur í áttina til þeirra, ámóta og vetrungur að stærð. Urðu þau bæði mjög óttaslegin, og hlupu heim á leið allt hvað af tók, og elti flygsan þau upp undir Norðurgarðshlið, en náði þeim ekki. Héldu menn, að Olnbogadraugurinn hefði verið hér að verki.
Það var venja fólks, sem um veginn gekk, að kasta steini í dysina, og mátti sjá þess merki til skamms tíma. Nú er dysin horfin í tún, og langt síðan draugurinn hefur gjört vart við sig.
(Eftir sögn Einars Einarssonar frá Norðurgarði, Sveins P. Schevings, Kjartans Jónssonar og Guðríðar Bjarnadóttur).