Matthías Finnbogason (Litlu-Hólum)
Kynning.
Matthías Finnbogason vélfræðingur fæddist 25. febrúar 1882 í Presthúsum í Mýrdal og lést 9. júní 1969.
Faðir hans var Finnbogi bóndi í Presthúsum, f. 21. nóvember 1833 í Breiðu-Hlíð í Mýrdal, d. 6. maí 1918 í Þórisholti þar, Einarsson bónda í Þórisholti, f. 7. desember 1796 í Berjaneskoti u. Eyjafjöllum, d. 29. júní 1879 þar, Jóhannssonar bónda í Svaðbæli þar 1801, skírður 7. janúar 1762, Einarssonar, og konu Jóhanns Einarssonar, Geirlaugar húsfreyju, f. 1762 í Eystri-Rauðarhól í Stokkseyrarsókn, d. 27. júní 1848 í Þórisholti, Gunnarsdóttur.
Móðir Finnboga í Presthúsum og kona Einars í Þórisholti var Ragnhildur húsfreyja, f. 1791 á Höfðabrekku í Mýrdal, d. 2. júlí 1879 í Þórisholti, Jónsdóttir bónda, síðast í Engigarði í Mýrdal, fæddur líklega á Núpstað í Fljótshverfi, skírður 2. sunnudag í aðventu 1756, Nikulássonar, og síðari konu Jóns Nikulássonar, Bergljótar húsfreyju, f. 1754 í Þrándarholti í Gnúpverjahreppi, d. 4. júlí 1831 í Breiðu-Hlíð, Einarsdóttur.
Móðir Matthíasar Finnbogasonar og kona Finnboga í Presthúsum var Matthildur húsfreyja, f. 9. desember 1838, d. 8. mars 1916, Pálsdóttir prófasts á Hörgslandi á Síðu, f. 17. maí 1797 í Gufunesi við Reykjavík, d. 1. nóvember 1861 á ferð í Þykkvabæ, Pálssonar umboðsmanns Kirkjubæjarklausturs frá 1789 og sýslumanns í Gullbringu-og Kjósarsýslu 1801-1803 og 1818, f. 29. mars 1737, d. 8. febrúar 1819 á Elliðavatni, Jónssonar, og síðari konu Páls Jónssonar, Ragnheiðar húsfreyju, f. 10. október 1766, d. 24. ágúst 1840, Guðmundsdóttur.
Móðir Matthildar í Presthúsum og fyrri kona sr. Páls (skildu 1839) var Matthildur húsfreyja, f. 27. september 1795 á Lágafelli í Mosfellssveit, d. 16. júní 1850 á Geirlandi á Síðu, Teitsdóttir bónda á Hittu í Mosfellssveit 1801, f. 1754, d. 22. apríl 1813, Þórðarsonar, og konu hans, Ástríðar húsfreyju, f. 1752, d. 22. ágúst 1825, Ingimundardóttur.
Matthías var með foreldrum sínum til ársins 1904, en þá fluttist hann til Eyja. Hann menntaðist erlendis og varð kunnur vélfræðingur og verkstæðisrekandi í Eyjum. Einnig var hann um skeið útgerðarmaður.
Hann reisti íbúðarhúsið Jaðar við Vestmannabraut 1907 og rak þar verkstæði sitt.
Kona Matthíasar á Litlu-Hólum, (3. nóvember 1906), var Sigríður Ólöf Þorsteinsdóttir húsfreyja, f. 29. janúar 1880, d. 17. júní 1949.
Börn Matthíasar og Sigríðar Ólafar voru:
1. Júlía, f. 27. maí 1907 í Vatnsdal, síðast að Sólvangi í Hafnarfirði, d. 19. janúar 1991.
2. Matthildur, f. 21. ágúst 1908 á Jaðri, d. 22. apríl 1990, jarðs. í Njarðvík.
3. Klara Friðrikka, f. 29. nóvember 1909 á Jaðri, síðast í Reykjavík, d. 27. ágúst 1988.
4. Bogi, f. 28. september 1911 á Jaðri, d. 8. júní 1986.
5. Friðþjófur, f. 16. apríl 1913 á Jaðri, síðast í Reykjavík, d. 7. maí 1986.
6. Ágúst Vilhjálmur, f. 30. júlí 1914 á Jaðri, síðast í Reykjavík, d. 21. janúar 1988.
7. Sigurbjörg, f. 28. maí 1918 á Litlu-Hólum, d. 1. ágúst 1925.
8. Ólöf, f. 28. maí 1918 á Litlu-Hólum, síðast í Kópavogi, d. 14. janúar 1999.
Úr fórum Árna Árnasonar símritara:
Bjargveiðimannatal.
Matthías er léttleikamaður, sterkur og snar, rösklega meðalhár, en þrekinn vel. Hann er skapléttur og skáldmæltur, ræðinn og fróður, ágætur drengur og félagi. Lífsstarf hans hefir verið vélsmíði og gæsla, fyrsti vélsmiður lærður í Eyjum, sigldi til náms. Frábært listamenni í höndunum á tré og járn einkum járn og vélar.
Lipur veiðimaður og gamalvanur austan úr Mýrdal, en verið hér á Heimalandi og í Suðurey.
Önnur umfjöllun á Heimaslóð: Matthías Finnbogason
Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Eyjar og úteyjalíf – Úrval verka Árna Árnasonar símritara frá Grund. Sögufélag Vestmannaeyja í samstarfi við Safnahús Vestmannaeyja 2012.
- Íslendingabók.is.
- Manntöl.
- Vestur-Skaftfellingar 1703-1966. Björn Magnússon. Leiftur 1970-1973.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.