Margrét Ólafsdóttir (Flötum)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Margrét Ólafsdóttir.

Margrét Ólafsdóttir frá Oddeyri á Flötum 14, húsfreyja, leikkona fæddist þar 12. júní 1931 og lést 24. mars 2011 á Landspítalanum.
Foreldrar hennar voru Ólafur Ragnar Sveinsson verkamaður, bifreiðastjóri, heilbrigðisfulltrúi, f. 25. ágúst 1903 á Árgilsstöðum í Hvolhreppi, d. 2. maí 1970, og kona hans Kristjana Ragnheiður Kristjánsdóttir húsfreyja, f. 12. janúar 1906 á Múla, d. 6. september 1982.

Börn Ragnheiðar og Ólafs:
1. Helga Ólafsdóttir húsfreyja, skrifstofumaður, f. 13. janúar 1925 í Laufási, d. 11. apríl 1997. 2. Margrét Ólafsdóttir húsfreyja, leikari, f. 12. júní 1931 á Oddeyri á Flötum, d. 24. mars 2011.
3. Kristín Ólafsdóttir, f. 17. febrúar 1935 á Oddeyri á Flötum, d. 5. júlí 1936.

Margrét var með foreldrum sínum í æsku.
Hún lauk gagnfræðaprófi í Gagnfræðaskólanum í Eyjum 1948, stundaði nám í leiklist í Leiklistarskóla Lárusar Pálssonar frá 1949 til 1950. Árið síðar lauk hún prófi í Leiklistarskóla Þjóðleikhússins.
Gréta lék fyrst í Vestmannaeyjum veturinn 1948-49 í „Pósturinn kemur“.
Fyrsta verk hennar í Þjóðleikhúsinu var hlutverk May Fielding í Söngbjöllunni 1950-1951. Eftir að hún flutti sig yfir í Leikfélag Reykjavíkur lék hún einna fyrst í Undir heillastjörnu, þar sem hún lék í fyrsta sinn á móti eiginmanni sínum Steindóri Hjörleifssyni. Á sviði hjá Leikfélagi Reykjavíkur lék Margrét m.a. gleðikonu í Þjófar, lík og falar konur 1964-65, Amelíu í Húsi Bernhörðu Alba 1965-66, Jönu í Tápi og fjöri 1967-68, Frú Fínu Jónsen í Kristnihaldi undir Jökli 1969-70, Kleópötru í Atómstöðinni 1971-72, Dora Strang í Equus og Gínu Ekdal í Villiöndinni 1975-76, doktorinn í Valmúinn springur út á nóttunni 1977-78, titilhlutverkið í Geggjaða konan í París 1978-79, Unu í Ofvitanum 1979-80, Rosettu í Hassið hennar mömmu 1981-82, þá gömlu í Úr lífi ánamaðkanna 1982-83, Línu í Djöflaeyjunni 1986-87 og ömmuna í Heima hjá ömmu 1992-93.
Í kvikmyndum lék hún m.a. í Börnum náttúrunnar, sem var tilnefnd til Óskarsverðlauna, Fíaskó, Fálkum, frönsku sjónvarpsmyndinni Virus au paradis og kvikmynd Baltasar Kormáks A Little Trip to Heaven.
Í sjónvarpi lék hún m.a. í Steinbarni, sem frumsýnt var 1990, og Sigla himinfley frá 1996.
Síðasta stóra hlutverkið hennar var Lovísa í Domino, leikriti Jökuls Jakobssonar, 1996-1997. Síðasta hlutverk hennar hjá Leikfélagi Reykjavíkur var í Horft frá brúnni 1998-99, ásamt Steindóri eiginmanni sínum.
Hún hlaut viðurkenninguna heiðurslistamaður Garðabæjar 1999.
Þau Steindór giftu sig 1951, eignuðust eitt barn. Þau bjuggu í Laufási í Garðabæ, en síðast í Blásölum 22 í Kópavogi.

I. Maður Margrétar, (17. nóvember 1951), er Steindór Hjörleifsson leikari, leikstjóri, f. 22. júlí 1926 í Hnífsdal, d. 13. september 2012. Foreldrar hans voru Hjörleifur Kristinn Steindórsson frá Leiru í Grunnavíkurhreppi, N.Ís., f. 29. mars 1895, d. 18. febrúar 1957, og Elísabet Þórarinsdóttir húsfreyja, f. 6. júlí 1902 á Blámýrum í Ögursveit, d. 8. október 1953.
Barn þeirra:
1. Ragnheiður Kristín Steindórsdóttir leikkona, f. 26. júní 1952. Sambúðarmaður hennar Jón Þórisson.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.