Kristín Jónsdóttir (Kirkjubæ)
Kristín Jónsdóttir vinnukona, bústýra fæddist 18. apríl 1839 og lést 22. júní 1906.
Foreldrar hennar voru Jón Guðmundsson bóndi í Neðri-Dal u. Eyjafjöllum, f. 1801 í Berjanesi þar, d. 16. júlí 1869, og kona hans Halldóra Þorvaldsdóttir húsfreyja, f. 9. október 1807 í Efri-Gróf í Flóa, d. 21. janúar 1865.
Kristín var 6 ára með foreldrum sínum í Neðri-Dal 1845, 10 ára með þeim þar 1850. Foreldrarnir brugðu búi 1854. Jón fór að Árkvörn, Halldóra fór með Margréti dóttur þeirra að Ámundakoti, en Kristín fór að Kollabæ í Fljótshlíð og var vikastúlka þar. Hún var vinnukona í Múlakoti þar 1860.
Kristín fluttist frá Fljótshlíð að Kirkjubæ 1862, var vinnukona á Kirkjubæ í lok ársins.
Hún var með Ólafi í lausamennsku á Oddsstöðum 1863.
Þau Ólafur fluttust u. Eyjafjöll 1864, hann að Núpakoti, hún að Miðbæli með Sigmund.
Þau giftu sig 1865, voru „vistarbandslaus“ við fæðingu Magnúsar 1868, hún í Steinum, hann í Svaðbæli. Magnús dó nokkurra daga gamall.
Þau munu ekki hafa fengið jarðnæði, en voru í vinnumennsku. Kristín var vinnukona í Kvíarholti í Holtahreppi 1870. Árið 1878 fluttist Kristín að Stöðulkoti í Djúpárhreppi í Holtum og gerðist bústýra hjá Sigurði Jónssyni bónda, sem þá bjó ekkill þar, og stóð hún þar fyrir heimili meðan hún lifði.
Ólafur lést 1884, en Kristín 1906.
Maður Kristínar, (14. maí 1865), var Ólafur Ólafsson vinnumaður, f. 28. ágúst 1834 á Mel í Holtum, d. 1884.
Börn þeirra voru:
1. Sigmundur Ólafsson, f. 27. febrúar 1864 á Oddsstöðum.
2. Magnús Ólafsson, f. 21. maí 1868, d. 26. maí 1868 úr ,,barnaveiki“.
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Holtamannabók III –Djúpárhreppur. Valgeir Sigurðsson og fleiri. Ritstjórn: Ragnar Böðvarsson. Rangárþing ytra 2010.
- Íslendingabók.is.
- Manntöl.
- Prestþjónustubækur.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.