Helga Þorsteinsdóttir (París)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Helga Þorsteinsdóttir vinnukona í Stóra-Gerði fæddist 26. október 1805 og lést 24. desember 1869.
Faðir hennar var Þorsteinn bóndi í Leðri í Selvogi, f. 1773, d. 28. ágúst 1811, Björnsson bónda á Brekkum á Rangárvöllum, f. 1748, d. 27. ágúst 1832, Ólafssonar bónda á Brekkum 1745, drukknaði 1756, Diðrikssonar, og konu Ólafs, Herborgar húsfreyju, f. 1717, d. 25. ágúst 1791, Jónsdóttur.
Móðir Þorsteins í Leðri og kona Björns á Brekkum var Helga húsfreyja, f. 1736, d. 19. ágúst 1819, Magnúsdóttir bónda á Grjótlæk í Stokkseyrarhreppi, f. 1695, Þorsteinssonar, og konu Magnúsar, Önnu húsfeyju, f. 1706, Brandsdóttur (Hluta-Brands) bónda í Auðsholti í Ölfusi.

Móðir Helgu var Margrét Guðmundsdóttir húsfreyja í Leðri, f. 1774, gift kona Þorsteins Björnssonar vinnumanns í Nesi í Selvogi 1801, húsfreyja í Leðri 1805, húsfreyja í Krísuvík 1810, ekkja þar 1816, húsfreyja í Nýjabæ í Staðarsókn í Gullbringusýslu 1822, þá kona Árna Þorvaldssonar.

Helga var í fóstri við fermingu 1820 hjá Jóni Einarssyni og Þorlaugu Illugadóttur á Vogsósum. Hún fluttist frá Stóra-Nýjabæ í Krísuvík að Bergþórshvoli í V-Landeyjum 1832, var vinnukona á Breiðabólstað í Fljótshlíð 1835 með Jón Þorkelsson 2 ára með sér, vinnukona á Álfhólum í V-Landeyjum 1840 með Jón 8 ára hjá sér.
1845 var hún vinnukona í Stóra-Gerði hjá Ingiríði Björnsdóttur og Runólfi Magnússyni og þá var Jón sonur hennar líklega 13 ára hjá föður sínum í Þorlaugargerðishjalli. Þá var hún vinnukona í Kastala hjá ekkjunni Sigríði Ámundadóttur 1850 og á Ofanleiti 1855 og vinnukona í París 1860 hjá Úlfheiði Jónsdóttur ekkju.
Hún lést 1869 úr holdsveiki, þá niðursetningur hjá Evlalíu í Móhúsum.

Helga var ógift, en eignaðist barn með Þorkeli Einarssyni vinnumanni á Bergþórshvoli 1833.
Barnið var
1. Jón Þorkelsson frá Þorkelshjalli, f. 1833, fórst með þilskipinu Helgu í apríl 1867.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.