Guðrún Jónsdóttir elsta (Þorlaugargerði)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Guðrún Jónsdóttir elsta frá Þorlaugargerði fæddist 13. nóvember 1826 í Brekkuhúsi og lést 1916 í Utah.
Foreldrar hennar voru Jón Oddsson bóndi og sjómaður, f. 1795, drukknaði 5. mars 1834, og kona hans Guðrún Hallssdóttir húsfreyja, f. 8. ágúst 1794, d. 1869 í Utah.

Guðrún var með foreldrum sínum í Brekkuhúsi til ársins 1827, er þau fluttust að Þorlaugargerði.
Móðir hennar ól 12 börn, en Guðrún og Jón voru þau einu, sem lifðu. Hin börnin dóu nýfædd.
Faðir Guðrúnar drukknaði í Þurfalingsslysinu við Nausthamar 5. mars 1834.
Þau Jón voru með móður sinni næstu tvö árin, en 1836 giftist hún Lofti Jónssyni bónda og formanni. Þau snerust til mormónatrúar og fluttust áleiðis til Utah 1857, dvöldu í Iowaríki til 1859, en fluttust þá til Utah.
Móðir Guðrúnar lést 1869. Þá var Guðrún með Lofti stjúpa sínum og Halldóru Árnadóttur síðari konu hans. Hún giftist ekki, átti land, sem hún nýtti, mun hafa þótt sérsinna og stórbrotin. Guðrún var á efri árum með Halldóru stjúpu sinni og síðari manni hennar Gísla Einarssyni bónda og dýralækni.
,, She was a quiet, unassuming, kind and helpful person,“ segir í Our Pioneer Heritage.
Guðrún lést 1916, um nírætt.


ctr


Hús og heimili Gísla Einarssonar bónda og dýralæknis í Spanish Fork í Utah um 1910. Hús þetta reisti Loftur Jónsson mormónaprestur frá Þorlaugargerði. Hér eru nokkrir Íslendingar. Lengst til vinstri situr Margrét Gísladóttir frá Görðum við Kirkjubæ, þá 88 ára. Hún var þá ekkja Samúels Bjarnasonar mormónaprests. Fyrir miðju situr Halldóra Árnadóttir síðari kona Lofts og henni á v. hönd situr Guðrún Jónsdóttir stjúpdóttir hennar. Fyrir aftan þær stendur Gísli Einarsson frá Hrífunesi. Hann kvæntist Halldóru Árnadóttur ekkju Lofts.



Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.