Guðrún Jónasdóttir (Hæli)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Guðrún Jónasdóttir og Sigurður Þorbjörnsson.

Guðrún Jónasdóttir húsfreyja á Hæli við Brekastíg, fæddist 10. maí 1855 í Rimakoti í A-Landeyjum og lézt 8. marz 1936 í Eyjum.

Ætt og uppruni

Foreldrar hennar voru Jónas bóndi á Kirkjulandi í A-Landeyjum, f. 1. febr. 1823 í Kúfhól þar, d. 27. okt. 1885, Jóns bónda og hreppstjóra á Önundarstöðum þar, f. 1798, d. 1861, og konu Jóns hreppstjóra, Guðrúnar húsfreyju, f. 1795, d. 1876, Jónsdóttur. Móðir Guðrúnar á Hæli og kona Jónasar á Kirkjulandi var Guðrún húsfreyja, f. 4. ágúst 1825, d. 23. febrúar 1899, Þorkels bónda á Ljótarstöðum í A-Landeyjum, skírður 1799, d. 1879, Jónssonar og konu Þorkels, Guðrúnar húsfreyju, f. 1825, d. 1899, Guðmundsdóttur.

Lífsferill

Húsið Hæli var byggt 1922 og stendur við Brekastíg 10.

Guðrún giftist Sigurði Þorbjörnssyni 7. október 1875. Hann var sonur Þorbjarnar Jónssonar bónda í Kirkjulandhjáleigu í A-Landeyjum og síðari konu hans, Guðrúnar Sigurðardóttur.
Þau bjuggu í Selshjáleigu í A-Landeyjum 1878-1886, en Kirkjulandshjáleigu 1886-1893.
Sigurður drukknaði, er áttæringur hans Tobías fórst við Landeyjasand. Þar fórust alls fjórtán manns.
Guðrún bjó áfram í Kirkjulandshjáleigu til ársins 1920.
Hjá henni var vinnumaður og fyrirvinna Sigurður Ólafsson, síðar í Bólstað.
Með Sigurði átti hún dótturina Þorgerði Sigurbjörgu, síðar húsfreyju á Stað, f. 5. maí 1895, d. 16. marz 1969, konu Kristjáns Egilssonar.
Guðrún brá búi 1920 og fluttist til Eyja. Hún var húsfreyja á Hæli hjá Sigurði syni sínum með dóttur sína Þorgerði Sigurbjörgu Sigurðardóttur 1920. Eftir að Sigurður kvæntist 1932, var Guðrún hjá þeim hjónum til dánardægurs.
Börn þeirra Sigurðar Þorbjörnssonar voru:

  1. Jón, f. 16. febrúar 1877, d. 10. marz 1877;
  2. Anna húsfreyja á Syðri-Úlfsstöðum í Landeyjum, f. 8. október 1878;
  3. Kári bóndi í Voðmúlastaða-Suðurhjáleigu, síðar í Presthúsum í Eyjum, f. 9. júlí 1880, d. 10. ágúst 1925;
  4. Guðrún, f. 1. ágúst 1881, d. 2. ágúst 1881;
  5. Guðný, f. 12. júlí 1882, d. 13. júlí 1882;
  6. Bernótus útvegsmaður í Stakkagerði, f. 23. apríl 1884, drukknaði 12. febrúar 1920;
  7. Sigurður járnsmiður á Hæli, f. 11. maí 1889, d. 25. apríl 1974;
  8. Dóttir, f. andvana 28. júlí 1891.

Heimildir

  • Upphaflega grein skrifaði Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Brynja Sigurðardóttir (Hæli).
  • Legstaðaskrá.
  • Manntal 1920.
  • Landeyingabók – Austur-Landeyjar. Valgeir Sigurðsson og fleiri. Ritstjóri: Ragnar Böðvarsson. Austur-Landeyjahreppur, Gunnarshólma 1999.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.