Guðrún Árnadóttir (Hurðarbaki)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Guðrún Árnadóttir frá Hurðarbaki í Flóa, húsfreyja, verkakona fæddist 19. september 1888 og lést 28. september 1972.
Faðir hennar var Árni bóndi og hreppstjóri á Hurðarbaki í Flóa, f. 29. júní 1859 á Þingskálum á Rangárvöllum, d. 6. febrúar 1941, Pálsson bónda, lengst á Þingskálum, f. 3. apríl 1834, d. 16. janúar 1870, Guðmundssonar bónda á Keldum á Rangárvöllum, faðir a.m.k. 23 lifandi fæddra barna og eins andvana fædds, með 4 konum (Keldnaætt), f. 23. nóvember 1794 á Vestri-Kirkjubæ á Rangárvöllum, d. 12. apríl 1883 á Keldum, Brynjólfssonar, og annarrar konu Guðmundar, Guðrúnar húsfreyju, f. 3. júlí 1793, d. 18. janúar 1852, Pálsdóttur.
Móðir Árna á Hurðarbaki og kona Páls á Þingskálum var Þuríður húsfreyja, f. 7. september 1832, d. 3. desember 1869, Þorgilsdóttir bónda á Rauðnefsstöðum á Rangárvöllum, f. 19. mars 1799 þar, d. þar 18. október 1878, Jónssonar, og konu Þorgils, Þuríðar húsfreyju, síðar ekkju og bónda á Rauðnefsstöðum, f. 15. nóvember 1800, d. 3. júní 1881 í Flögu í Flóa, Pálsdóttur.
Móðir Guðrúnar var Guðrún húsfreyja á Hurðarbaki, móðir 13 barna, f. 19. febrúar 1862 á Lambafelli u. Eyjafjöllum, d. 21. apríl 1915, Sigurðardóttir bónda þar, síðar á Flókastöðum og Kirkjulæk í Fljótshlíð og Vælugerði í Flóa, f. 26. febrúar 1828, d. 29. júní 1883, Arnbjörnssonar bónda á Háamúla og Flókastöðum í Fljótshlíð, f. 1794, Ólafssonar, og konu Arnbjörns, Guðríðar húsfreyju, f. 1786, d. 18. janúar 1868, Þorsteinsdóttur.
Arnbjörn og Guðríður voru einnig ættforeldrar Önnu Vigfúsdóttur húsfreyju og ljósmóður í Garðhúsum.
Móðir Guðrúnar á Hurðarbaki og fyrri kona Sigurðar á Lambafelli var Ingigerður húsfreyja, f. 30. desember 1834, d. 24. apríl 1862, Hannesdóttir bónda og pósts í Hraunkoti og Brekkum í Mýrdal, f. 1796 í Eyjum, d. 19. september 1838, fórst í Skeiðarárjökli, Gottsveinssonar, og konu Hannesar, Margrétar húsfreyju, f. 4. apríl 1796, d. 27. janúar 1883, Jónsdóttur.
Hannes Gottsveinsson og Margrét voru föðurforeldrar Hannesar lóðs.

Bróðir Guðrúna Árnadóttur var Theodór Árnason járnsmiður, f. 10. apríl 1897, d. 6. ágúst 1972.

Guðrún var með foreldrum sínum á Hurðarbaki, flutti til Eyja 1915.
Þau Guðjón giftu sig 1918, eignuðust ekki börn saman. Þau bjuggu í Fagurlyst. Guðjón lést 1923.
Hún eignaðist barn með Tómasi 1926.
Guðrún var lausakona í Fagurlyst 1927, var ráðskona hjá Jóhanni Jónssyni á Brekku 1930, lausakona þar 1934, húsfreyja í Bjarnleifshúsi við Heimagötu 17 1940 og 1945.
Hún flutti til Reykjavíkur, lést á Elliheimilinu Grund 1972.

I. Maður Guðrúnar, (29. desember 1918), var Guðjón Jósefsson verslunarmaður, útgerðarmaður, fiskimatsmaður, f. 1. ágúst 1875, d. 21. júní 1923.
Þau voru barnlaus saman, en Guðjón átti barn úr fyrra sambandi sínu á Suðurnesjum.

II. Barnsfaðir Guðrúnar var Tómas Maríus Guðjónsson frá Sjólyst, útgerðarmaður, kaupmaður, umboðsmaður í Höfn, f. 13. janúar 1887, d. 14. júní 1958.
Barn þeirra:
1. Guðjón Tómasson útvarpsvirkjameistari, deildarstjóri, f. 29. ágúst 1925 í Reykjavík, d. 2. desember 1977.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.