Anna Vigfúsdóttir (Garðhúsum)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Ólafur og Anna.

Anna Vigfúsdóttir húsfreyja í Garðhúsum fæddist 14. október 1867 og lést 29. mars 1954.
Faðir hennar var Vigfús ráðsmaður á Flókastöðum í Fljótshlíð 1870, f. 14. ágúst 1822, d. 3. mars 1903, Sigurðsson bónda og stúdents í Varmahlíð u. Eyjafjöllum, f. 28. október 1776, d. 28. júlí 1862, Jónssonar bónda og lögréttumanns á Fossi á Síðu og í Varmahlíð, f. 1732, d. 10. ágúst 1802, Vigfússonar, og konu Jóns lögréttumanns, Sigurlaugar húsfreyju, f. 1741, d. 12. september 1792, Sigurðardóttur prests og prófasts í Holti u. Eyjafjöllum Jónssonar.
Móðir Vigfúsar á Flókastöðum og kona Sigurðar í Varmahlíð var Valgerður húsfreyja, f. 1786, d. 26. ágúst 1826, Tómasdóttir bónda í Eyvindarholti u. Eyjafjöllum, f. 1747, d. 1800, Magnússonar, og konu Tómasar, Guðlaugar húsfreyju, f. 1750, d. 10. júlí 1816, Erlendsdóttur bónda á Barkarstöðum Eiríkssonar.

Móðir Önnu og kona Vigfúsar var Guðrún húsfreyja, f. 24. september 1826, d. 12. september 1911, Arnbjörnsdóttir bónda á Háamúla og Flókastöðum í Fljótshlíð, f. 1794, Ólafssonar bónda á Kvoslæk þar 1801, f. 1759, d. 13. apríl 1835, Arnbjörnssonar, og konu Ólafs á Kvoslæk, Guðrúnar húsfreyju, f. 1767, d. 9. september 1825, Pálsdóttur.
Móðir Guðrúnar Arnbjörnsdóttur og kona Arnbjörns var Guðríður húsfreyja, f. 1786, d. 18. janúar 1868, Þorsteinsdóttir bónda í Austdal í Seyðisfirði, (ættaður frá Eyvindarmúla í Fljótshlíð), f. 1750, d. 13. júlí 1794, Sigurðssonar, og konu Þorsteins, Sessselju húsfreyju frá Sleðbrjótsseli á Jökuldal, N.-Múl., f. 1747, d. 21. október 1824, Bessadóttur bónda þar Oddssonar. (Sjá Ættir Austfirðinga # 4565, 4585, 3211 og 3416).

Anna var með foreldrum sínum á Flókastöðum 1870, 1880 og 1890, hjá systur sinni Guðríði þar 1901.
Hún lauk ljósmæðraprófi 1904 og gegndi ljósmóðurstörfum í Fljótshlíðarumdæmi 1904-1907.
Anna fluttist til Eyja frá Flókastöðum 1907 og giftist Ólafi á því ári.
Hún bjó í Garðhúsum 1910 með Ólafi og Jóni eins árs, 1920 með Ólafi, Jóni og Tryggva sonum sínum.

Maður Önnu, (1907), var Ólafur Jónsson útgerðarmaður, verslunarmaður, verkstjóri í Garðhúsum, f. 22. desember 1872, d. 11. júní 1967.
Börn Önnu og Ólafs:
1. Sigríður Ólafsdóttir, f. 6. september 1906, d. 4. júní 1937. Hún var á Flókastöðum 1910, systurdóttir húsfreyjunnar Guðríðar Vigfúsdóttur. Hún bjó síðast í Reykjavík.
2. Jón Ólafsson bankamaður, f. 20. mars 1909, d. 9. mars 1960.
3. Tryggvi Ólafsson málarameistari, f. 8. ágúst 1911, d. 9. apríl 1985.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.is.
  • Ljósmæður á Íslandi. Björg Einarsdóttir og fleiri. Ljósmæðrafélag Íslands 1984.
  • Lögréttumannatal. Sögurit. Einar Bjarnason. Sögufélag gaf út. Ísafoldarprentsmiðja h.f. 1952-1955.
  • Manntöl.
  • Ættir Austfirðinga. Einar Jónsson og fleiri. Austfirðingafélagið í Reykjavík 1953-1968.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.