Guðmundur Björnsson (Frydendal)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Guðmundur Björnsson vinnumaður í Frydendal fæddist 7. desember 1837 í Eystri-Garðsauka í Hvolhreppi og drukknaði 26. október 1871.
Foreldrar hans voru Björn Höskuldsson bóndi víða á Rangárvöllum og i Hvolhreppi, f. í Gularáshjáleigu í A-Landeyjum, skírður 29. september 1799, d. 18. júlí 1843 í Dagverðarnesi á Rangárvöllum, og kona hans Helga Guðmundsdóttir húsfreyja frá Ártúnum á Rangárvöllum, skírð 3. júní 1793, d. 1. nóvember 1885.

Föðursystur Guðmundar voru Guðrún Höskuldsdóttir húsfreyja á Kirkjubæ, kona Magnúsar Oddssonar skipstjóra og Guðríður Höskuldsdóttir húsfreyja á Kirkjubæ, kona Andrésar Sigurðssonar.

Guðmundur var með foreldrum sínum á Langekru á Rangárvöllum 1835, á Steinkrossi þar 1840, með móður sinni og Guðmundi Helgasyni stjúpföður sínum í Nikulásarhúsum í Fljótshlíð 1845.
Hann var vinnumaður á Hólmum í A-Landeyjum 1860.
Guðmundur fluttist frá Hólmum að Vilborgarstöðum 1861, var vinnumaður þar hjá Árna Einarssyni og Guðfinnu Austmann á því ári og -1863, hjá Margréti Jónsdóttur ekkju í Nýja-Kastala 1864-1868, hjá Margréti Magnúsdóttur ekkju á Kirkjubæ 1869, hjá Carl og madömu Roed í Frydendal 1870 og þar var hann vinnumaður 1871, er hann drukknaði við að sækja vatn undir Löngu.
Guðmundur var ókvæntur og barnlaus í Eyjum.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.is.
  • Landeyingabók – Austur-Landeyjar. Valgeir Sigurðsson og fleiri. Ritstjóri: Ragnar Böðvarsson. Austur-Landeyjahreppur, Gunnarshólma 1999.
  • Manntöl.
  • Prestþjónustubækur.
  • Rangvellingabók. Valgeir Sigurðsson. Rangárvallahreppur, Hellu 1982.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.